Kaupa fjórðungshlut í Origo og gera tilboð í restina

Skrifstofur
Skrifstofur Kristinn Magnússon

AU 22 ehf., sem er félag í eigu Alfa Framtaks, keypti í gær (sunnudag) 25,8% hlut í Origo. Félagið sem um ræðir var stofnað í byrjun október og er í fullri eigu Umbreytingar II slhf., framtakssjóðs í rekstri Alfa Framtaks.

Ekki kemur fram hverji hafa selt sína hluti og enginn af stærri hluthöfum félagsins hefur flaggað viðskiptum með bréf í félaginu til Kauphallarinnar.

Gunnar Páll Tryggvason er framkvæmdastjóri Alfa Framtaks.
Gunnar Páll Tryggvason er framkvæmdastjóri Alfa Framtaks. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þá hefur sjóðurinn lagt fram valfrjáls tilboð í allt hlutafé Origo. Tilboðsverðið verður kr. 101 kr. á hlut sem er jafnhátt og síðasta viðskiptaverð hluta Origo við lok markaða fyrir helgi. Fram kemur í tilkynningu til Kauphallarinnar að tilboðsverðið sé 14,4% hærra en veltuleiðrétt meðalverð hlutabréfa í Origo að teknu tilliti til lækkunar hlutafjár frá tilkynningu um sölu Tempo og 11% hærra frá því að hlutafjárlækkun fór fram 7. desember sl. Þá kemur einnig fram að greitt verði fyrir hluti með reiðufé. Tilboðið mun taka til allra hluta í Origo sem ekki eru þegar í eigu tilboðsgjafa eða Origo.

Þá kemur einnig fram að nánari upplýsingar um tilboðið, þar með talið skilmálar þess og skilyrði, muni koma fram í tilboðsyfirliti sem verður birt á næstu vikum að fengnu samþykki Fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands. Tilboðsyfirlitið verður sent til allra hluthafa sem skráðir eru í hlutaskrá Origo á þeim tíma.

Fram kemur að Alfa Framtak telji eðlilegt að skoða hvort að óskað verði eftir afskráningu félagsins úr Kauphöll „til að að skapa aukinn sveigjanleika fyrir þær breytingar sem ráðast þarf í“ eins og það er orðað.

Stærsti hluthafi Origo, samkvæmt hluthafalista félagsins frá því fyrir helgi, er Lífeyrissjóður verslunarmanna með um 13,3% hlut. Þá fer Birta lífeyrissjóður með um 11,1% hlut og Stapi lífeyrissjóður með um 7,3% hlut. Stærsti einkafjárfestirinn í félaginu er Frigus II, sem fer með um 6,2% hlut en félagið er að mestu í eigu Sigurðar Valtýssonar fjárfestis.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK