Metfjórðungur tekna hjá Marel

Marel átti metfjórðung á fjórða ársfjórðungi.
Marel átti metfjórðung á fjórða ársfjórðungi. mbl.is/Hjörtur

Tekjur Marel á fjórða fjórðungi síðasta árd námu um 489 milljónum evra eða 74 milljörðum íslenskra króna en um er að ræða metfjórðung tekna hjá fyrirtækinu.

Marel færist nær rekstrarmarkmiði um fjórtán til sextán prósent EBIT framlegð í lok árs 2023 en kostnaðarþekja skilaði sér í hærri EBIT-framlegð sem nam um 9,2 milljörðum króna sem samsvarar 12,4% af tekjum.

Ein fjölda aðgerða sem skilaði sér í hærri EBIT-framlegð var að fækka starfsfólki hjá fyrirtækinu um fimm prósent á síðasta ári.

Þetta kemur fram í ársreikningi fyrirtækisins. 

26% aukning á tekjum

Hagnaður á ársfjórðungnum nam 18,5 milljónum evra eða 2,8 milljörðum króna. Frjálst sjóðstreymi batnar á milli ársfjórðunga hjá fyrirtækinu og nam um 1,5 milljörðum króna.

Tekjur hjá Marel á síðasta ári námu um 258 milljörðum króna sem er 26 prósent aukning en hagnaðar nam um 8 milljörðum króna. 

Jafnframt kemur fram að stjórn fyrirtækisins mun leggja til við aðalfund félagsins þann 22. mars að hluthafar fái greiddan arð fyrir rekstrarárið 2022 sem samsvarar 20 prósent af hagnaði ársins. Áætluð heildararðgreiðsla nemur því um 1,77 milljörðum króna og er í samræmi við 20-40% arðgreiðslustefnu

Horfur til langs tíma góðar

Að því sem fram kemur í ársreikningnum er bætt rekstrarafkoma drifin áfram af hærri tekjuvexti byggðum á fjárfestingum í sjálfvirkni og stafrænum lausnum í framleiðslu, aðfangakeðju og þjónustu, auk bættrar kostnaðarþekju og skilvirkni í afhendingu á vörum og þjónustu til viðskiptavina.

„Árið 2022 var ár umbreytinga fyrir Marel, en röskun á aðfangakeðjum og breytt neytendahegðun hefur haft veruleg og varanleg áhrif á alla virðiskeðju matvælaframleiðslu. Þrátt fyrir áskoranir og óvissu í ytra umhverfi lokum við árinu með metfjórðungi,“ er haft eftir Árna Oddi Þórðarsyni forstjóra Marel í tilkynningu.

„Horfur til langs tíma í okkar geira eru áfram góðar og við horfum til áframhaldandi innri og ytri vaxtar til þess að ná fjárhagsmarkmiðum okkar fyrir árið 2023 og vaxtarmarkmiðum fyrir árið 2026. Bætt arðsemi og öflugt sjóðstreymi eru forsendur þess að við náum settu marki.“

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK