Adidas fellur frá kröfu sinni

AFP

Þýski íþróttavörurisinn Adidas hefur ákveðið að falla frá kröfu sinni um að Black Lives Matter-hreyfingin í Bandaríkjunum hætti að nota þrjár samsíða rendur í markaðsefni sínu. Á mánudag fór Adidas fram á það við bandarísku einkaréttar- og vörumerkjastofnunina að hún myndi banna hreyfingunni að nota rendurnar, sem hafa verið einkennismerki Adidas í yfir 70 ár, í efni sínu. 

Í dag, miðvikudag, greindi Adidas svo frá því að fallið hafi verið frá kröfunum. Gaf fyrirtækið enga skýringu af hverju fallið hafi verið frá þessum kröfum. 

Þá neitaði talsmaður að svara spurningum fjölmiðla þegar eftir því var leitast. 

Á markaðsefni BLM eru þrjár gular rendur.
Á markaðsefni BLM eru þrjár gular rendur. Ljósmynd/Black Lives Matter Global Network Foundation

Black Liver Matter Global Network Foundation (BLMGNF) hefur verið aðsópsmesti hópurinn í Black Lives Matter-hreyfingunni. Hreyfingin berst fyrir réttindum svartra, en hópurinn sótti um einkaleyfi í Bandaríkjunum árið 2020, til þess að fá að nota þrjár gular rendur á markaðsefni sínu. Þar á meðal eru föt og taupokar. 

Í upphaflegri kröfu sinni til einkaréttar- og vörumerkjastofnunar Bandaríkjanna sagði að rendurnar væru mjög líkar þeim sem Adias hefur notast við í hönnun sinni undanfarna áratugi. 

BLMGNF hafði frest til 6. maí næstkomandi til að svara kröfu Adias. 

Tapaði fyrir Thom Browne

Black Lives Matter-hreyfingin á rætur sínar að rekja til ársins 2012, en hreyfingin myndaðist í kjölfar andláts þeldökks 17 ára manns, Trayvon Martin að nafni. Árið 2020 óx hreyfingunni svo fiskur um hrygg í kjölfar mótmæla eftir dauða George Floyd. 

Í janúar á þessu máli tapaði Adidas máli sínu fyrir lúxusvörumerkinu Thom Browne. Taldi þýski íþróttavörurisinn að fjórar rendur í merki Browne væru of líkar þremur röndum Adidas. 

Í gögnum málsins kom fram að Adidas hefur höfðað yfir 90 sambærileg mál og lagt fram yfir 200 kröfur þess efnis frá árinu 2008.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK