Tap Strætó meira en hálfum milljarði umfram áætlun

Tap Strætó bs. nærri tvöfaldaðist frá síðasta rekstrarári.
Tap Strætó bs. nærri tvöfaldaðist frá síðasta rekstrarári. mbl.is/Sigurður Bogi

Tap af rekstri Strætó bs. á síðasta ári nam um 834 milljónum króna en áætlun gerði ráð fyrir neikvæðri niðurstöðu af rekstri um 242 milljónir króna. Tap af rekstri Strætó var því um 592 milljónum umfram áætlun ársins.

Um er að ræða tæplega tvöfalt tap miðað við síðasta rekstrarár þegar það nam um 439 milljónum króna. Framkvæmdastjóri lagði ársreikninginn fram til samþykktar á dögunum.

Í fundargerð Strætó segir að stjórn vilji vekja athygli á að fjárhagsstaða Strætó sé slæm og brýnt sé að leyst verði úr henni til framtíðar. Þá segir að rekstrarhæfi félagsins sé einungis tryggt til skemmri tíma samanber áritun endurskoðenda félagsins.

Tekjuaukning ekki skilað sér

Í skýrslu stjórnar og framkvæmdastjóra kemur fram að lakari afkoma skýrist af því að sú tekjuaukning sem fjárhagsáætlun ársins gerði ráð fyrir hafi ekki skilað sér. Það megi rekja til vaxandi verðbólgu, olíuverðhækkana, kjarasamningsbundinna launahækkana og styttingu vinnuvikunnar.

Enn fremur kemur fram að þeir þættir sem höfðu áhrif á lakari afkomu á síðasta ári auk heimsfaraldurs kórónaveiru hafi haft mikil fjárhagsleg áhrif á starfsemi félagsins síðustu tvö ár og hafi fjárhagsstaða Strætó rýrnað verulega.

Aukin framlög eigenda

Strætó bs. er í eigu sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu: Reykjavíkur, Kópavogs, Hafnarfjarðar, Garðabæjar, Mosfellsbæjar og Seltjarnarness.

Eigendur lögðu félaginu til 520 milljónir króna í október á síðasta ári og samþykktu í nóvember að auka rekstrarframlag um 520 milljónir króna vegna yfirstandandi rekstrarárs. Þannig er rekstrarhæfi Strætó af reglulegri starfsemi tryggt en þó einungis til skamms tíma.

Styrkja þarf fjárhag félagsins til framtíðar

Segir í skýrslunni að styrkja þurfi fjárhag félagsins til framtíðar og að eigendur og ríki þurfi að leita allra leiða til að bæta reksturinn, ekki einungis til að mæta sveiflum í rekstri, heldur einnig til að mæta auknum kröfum um sjálfbærni, orkuskipti í samgöngum og verkefni tengdum eflingu almenningssamgangna svo sem Borgarlínu.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK