„Þetta er hófleg arðsemi og á réttum stað“

Lilja Björk Einarsdóttir bankastjóri Landsbankans.
Lilja Björk Einarsdóttir bankastjóri Landsbankans. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans, segir að arðsemi bankans á fyrsta ársfjórðungi hafi verið hófleg þegar horft sé til aðstæðna á markaði og varðandi verðbólgu og vaxtastig. Hún segir líklegt að vextir hækki áfram lítillega áður en hægt verði að sjá fram á vaxtalækkun og að verðbólga muni hjaðna hægar en áður var gert ráð fyrir. Lilja segir hins vegar stöðuna hér á landi almennt góða, en að helsta vandamálið snúist um þá sem ekki ná að komast inn á fasteignamarkaðinn og að vaxtastig þurfi að lækka svo sá hópur eigi möguleika á því að kaupa fyrstu íbúð.

Í gær upplýsti Landsbankinn, auk hinna stóru viðskiptabankanna, um afkomu fyrsta ársfjórðungs. Var hagnaður bankans á þessum fyrstu þremur mánuðum ársins samtals 7,8 milljarðar og jókst um 140% frá sama tímabili í fyrra þegar hagnaðurinn var 3,2 milljarðar. Var arðsemi eigin fjár bankans 11,1%.

Á pari við sambærilega banka

Lilja segist ánægð með afkomuna í núverandi landslagi. „Arðsemi bankans er á pari við það sem við eigum að ná fyrir banka af okkar tegund og sambærilegir bankar eru að ná. Þetta er hófleg arðsemi og á réttum stað.“ Þá bendir hún á að arðsemiskrafa á banka gæti aukist samhliða aukinni verðbólgu. Segir hún þegar horft sé til verðbólgu og staðan sett í sögulegt samhengi sé afkoman jákvæð. „Að ná þessari 11% arðsemi er ásættanlegt.“

Verðbólga hefur verið að dansa í kringum 10% síðustu mánuði og segir Lilja að ef hún reynist þrálát sé 11% arðsemi ekkert mjög góð afkoma, enda vilji eigendur fyrirtækja jafnan sjá afkomu umfram verðbólgu. „Við verðum samt að horfa í gegnum verðbólguskaflinn og sjá að þetta er góð langtímalending.“ Varðandi það stóra stökk sem var frá sama ársfjórðungi í fyrra segir Lilja það skýrast af stórum hluta af sveifluliðum eins og eign bankans í Eyri sem hafi lækkað afkomuna í fyrra umtalsvert.

Telur verðbólguna hjaðna hægar en spáð var

Lilja er bjartsýn á að verðbólga hjaðni á næstunni, en segir þó útlit fyrir að lækkunartakturinn verði hægari en áður hafði verið spáð. Tengt því gerir hún ráð fyrir að vextir muni eitthvað hækka á næstunni áður en landsmenn fari að sjá vaxtalækkanir á ný.

Vandinn snýr meira að þeim sem ekki komast inn á markaðinn

Með hækkandi vöxtum hafa áhyggjur af því hvort að lántakendur muni geta staðið undir hækkandi greiðslubyrði. Lilja segir að um helmingur þeirra sem sé með óverðtryggð fasteignalán hjá bankanum sé með breytilega vexti og því hafi hækkandi vextir bein áhrif á þá. Hinn helmingurinn sé með fasta vexti, en „um það bil helmingur af því losnar á næsta ári og það sem eftir stendur á því þarnæsta og fer yfir á breytilega vexti. Það er mikið metnaðarmál að reyna að ná vöxtum niður fyrir þann tíma.“

Starfsfólk er þegar flutt yfir í nýjar höfuðstöðvar Landsbankans, en …
Starfsfólk er þegar flutt yfir í nýjar höfuðstöðvar Landsbankans, en gert er ráð fyrir að flutningarnir klárist í þessum mánuði. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„En ég held að vandamálið sem rætt er um varðandi verðlag og verðbólgu snúi aðeins meira að þeim sem eru ekki á fasteignamarkaðinum og fólki sem nær ekki að komast á fasteignamarkaðinn.“ Segir Lilja bankann reyna að vera með hagstæð kjör fyrir fyrstu kaupendur, en að hann ráði ekki við allar breyturnar og að vaxtastig þurfi að lækka svo stór hluti þess hóps komist inn á fasteignamarkaðinn til að byrja með.

Hún segir stöðuna á byggingarmarkaði hins vegar góða og nefnir að bankinn sé um þessar mundir að fjármagna verkefni þar sem í byggingu séu 4.500 íbúðir um allt land. Segir Lilja ganginn í íbúðabyggingu nokkuð jafnan og góðan og þrátt fyrir vaxtahækkanir sé ekki mikil sveifla þar, líkt og hafi verið á árunum eftir fjármálahrunið. Hún tekur hins vegar fram að talsverð fólksfjölgun sé hér á landi sem geti haft áhrif.

„Langt ferðalag“ að lækka vaxtamuninn

Í uppgjörinu kom fram að vaxtamunur bankans hafi farið hækkandi undanfarið og sé nú 2,8%, samanborið við 2,4% á sama tíma í fyrra og 2,7% yfir allt síðasta ár. Spurð hvort komi til greina að draga úr vaxtamuninum segir Lilja að horfa þurfi til þess að bankinn hafi undanfarið fengið mjög góða ávöxtun á lausafjáreignir bankans og þessi góða ávöxtun hafi áhrif á vaxtamuninn. Hún segir vaxtamuninn að öðru leyti hafa haldist í takti við hækkanir Seðlabankans á stýrivöxtum. Þá segir hún bankann alltaf vera að ná betri árangri í rekstinum og yfir nokkurra ára tímabil hafi rekstrarkostnaður sem hlutfall af meðalstöðu heildareigna lækkað úr yfir 2% í 1,4%. „Það er langt ferðalag að geta lækkað okkur í vaxtamun,“ segir hún.

Heldur starfsfólkinu á tánum

Fyrir nokkrum misserum kom á markaðinn nýr sparisjóður, Indó, og fór í samkeppni með hefðbundnu bankana um veltureikninga og fleira. Um þessa  samkeppni við ný fyrirtæki með litla yfirbyggingu segir Lilja að gott sé að sjá þróun á þessum markaði og að það haldi starfsfólki Landsbankans á tánum. „Við getum aldrei hvílt okkur,“ segir hún.

Lilja segir aðspurð um þróun starfsmannafjölda í ljósi þessarar samkeppni og aukinnar sjálfvirknivæðingar að undanfarin ár hafi starfsemin tekið nokkrum breytingum. Þannig hafi framlínustarfsfólk í auknum mæli farið að veita þjónustu í síma og rafrænt og að útibúin væru mun samtengdari en áður. „Það er búið að gjörbreyta þjónustu bankans,“ segir Lilja. „En hvort að þetta þýði breytingu á fólki, við sjáum til, en það eru engar stórvægilegar breytingar hjá bankanum fram undan,“ segir hún en bætir við að í stað stórra breytinga sé hins vegar mikið um minni breytingar.

Nýju höfuðstöðvarnar eru rétt hjá Hörpu og Seðlabankanum.
Nýju höfuðstöðvarnar eru rétt hjá Hörpu og Seðlabankanum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Stóra málið er að bæta lánhæfi ríkissjóðs

Nýlega hafa bankar bæði í Bandaríkjunum og Evrópu átt við erfiðleika að stríða og þrír bankar í Bandaríkjunum fallið og einn verið yfirtekinn. Lilja segir óróleikann á erlendum mörkuðum helst skila sér hingað í gegnum fjármögnun bankanna erlendis frá. „Við erum lítið land og athyglin beinist að öðru,“ segir hún um áhrifin af auknum óróleika. „Við erum ein af fjölmörgum röddum sem erum að reyna að ná athygli og sýna að við séum land sem geti tekið við áföllum. [...] Mikilvægt er að bæta lánhæfismat ríkissjóðs,“ segir hún, en það myndi „beina jákvæðri athygli hingað sem við nytum góðs af í fjármögnun.“

Á mjög góðum stað þrátt fyrir verðbólgu

Lilja segir að þrátt fyrir háa vexti og verðbólgu sé staðan hér hins vegar langt frá því að vera slæm. „Við erum með mjög sterkan útflutningsiðnað í ár. Ég held að það sé leitun að tímabili sem sé jafnsterkt í útflutningsgeiranum hjá okkur. Þrátt fyrir verðbólgu þá erum við á mjög góðum stað. Það er engin orkukrísa og við erum með sterkan ferðamannaiðnað og við erum búin að byggja upp kaupmátt til margra ára þrátt fyrir að nú kreppi aðeins að. Þá er staðan á Íslandi auðvitað mjög góð.“

Heildarkostnaður verður kynntur síðar

Nýlega hóf Landsbankinn að flytja starfsemi sína úr Kvosinni yfir í nýtt húsnæði bankans við Reykjastræti 6. Upphaflega var áætlað að heildarkostnaður verkefnisins væri um 11,8 milljarðar, en umtalsverðar vísitöluhækkanir gætu hafa haft sitt að segja um aukinn kostnað. Spurð um heildarkostnað verkefnisins núna segir Lilja að enn sé verið að klára uppgjör og samtöl við verktaka. Segir hún ekki tímabært að tjá sig um lokatöluna enn sem komið er, en að það verði gert þegar hún liggi fyrir.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK