Lítill áhugi á skuldabréfum Reykjavíkurborgar

Einar Þorsteinsson, verðandi borgarstjóri, og Dagur B. Eggertsson, fráfarandi borgarstjóri, …
Einar Þorsteinsson, verðandi borgarstjóri, og Dagur B. Eggertsson, fráfarandi borgarstjóri, við myndun nýs meirihluta í fyrravor. mbl.is/Kristinn Magnússon

Reykjavíkurborg tókst ekki að sækja sér aukið lánsfé í skuldabréfaútboði sem fram fór í gær, miðvikudag. Borgin hafði boðið út bréf í tveimur skuldabréfaflokkum en tilboðin voru á þannig kjörum að borgin hafnaði þeim öllum.

Lítill áhugi var á útboði Reykjavíkurborgar í gær, en aðeins bárust tilboð fyrir rétt rúmlega 1,3 milljörðum króna. Heildartilboð í verðtryggða skuldabréfaflokkinn RVK 53 1 voru samtals 135 milljónir króna að nafnvirði á bilinu 3,15%-3,19%. Ákveðið var að hafna öllum tilboðum. Flokk­ur­inn var síðast boðinn út í fe­brú­ar og var þá öll­um til­boðum, að nafn­v­irði 300 millj­ón­ir, tekið á kröf­unni 3%. Í útboði á flokkn­um í janú­ar var til­boðum tekið fyr­ir um 1,5 millj­arða á kröf­unni 2,88%.

Þá bárust heildartilboð í óverðtryggða flokkinn RVKN 35 1 fyrir 1.050 milljónir króna að nafnvirði á ávöxtunarkröfunni 8,49%-8,63%. Þar var öllum tilboðum einnig hafnað. Flokk­ur­inn var síðast boðinn út í fe­brú­ar og var til­boðum að nafn­v­irði um 1,2 millj­arðar króna tekið á kröf­unni 8,4%. Í útboði á flokkn­um í janú­ar var til­boðum að nafn­v­irði sam­tals 300 millj­ón­ir tekið á kröf­unni 7,63%.

Heimild Reykjavíkurborgar til lántöku á árinu nemur 21 milljarði króna. Heildarlántaka ársins, fyrir útboðið í gær, nemur rúmlega 16,3 milljörðum króna. Borgin hefur sótt um 10 milljarða króna í skuldabréfaútboðum á árinu en auk þess dregið á sex milljarða króna lánalínu sína hjá Íslandsbanka. Sú lánalína hefur nú verið nýtt til fulls, eins og Morgunblaðið greindi frá í síðustu viku. Þá var greint frá því í apríl sl. að borgin hefði fullnýtt sex milljarða króna lánalínu sína hjá Landsbankanum. Að öllu óbreyttu mun Reykjavíkurborg því ekki sækja aukið lánsfjármagn til bankanna eins og sakir standa.

Reykjavíkurborg hefur gengið erfiðlega að selja skuldabréf á árinu. Eins og áður hefur verið fjallað um hætti borgin við skuldabréfaútboð með skömmum fyrirvara í apríl af ótta við litla þátttöku á markaði, eins og raunin er nú. Það var þá annar mánurðinn í röð þar sem borgin hætti við útboð.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK