„Álagning er ekki há“

Guðrún Aðalsteinsdóttir framkvæmdastjóri Krónunnar segir álagningu á matvöru ekki háa …
Guðrún Aðalsteinsdóttir framkvæmdastjóri Krónunnar segir álagningu á matvöru ekki háa líkt og Gréta María Grétarsdóttir, forstjóri Heimkaupa og fyrrum framkvæmdastjóri Krónunnar sagði í samtali við mbl.is. Samsett mynd

Guðrún Aðalsteinsdóttir, framkvæmdastjóri Krónunnar, segir álagningu verslunarinnar ekki háa að teknu tilliti til kostnaðar. Svarar hún þar með Grétu Maríu Grétarsdóttur, forstjóri Heimkaupa og fyrrverandi framkvæmdastjóra Krónunnar, sem sagði álagningu á  matvörumarkaði háa á Íslandi í samtali við mbl.is í gær. 

Þá segir Guðrún verðlagskannanir sýna að Krónan sé með samkeppnishæf verð, spurð um orð Grétu þess efnis að Bónus sé eina verslunin á lágvöruverðsmarkaði.

Ummælin lét Gréta falla í tengslum við áform móðurfélags Heimkaupa um að setja á fót verslun sem miði að því að fara í samkeppni á lágvöruverðsmarkaði. Við það tilefni sagði hún jafnframt að afkomutölur risa á matvörumarkaði bera með sér að þörf væri á að hrista upp í markaðnum.  

Elskum virka samkeppni 

„Við í Krónunni elskum virka samkeppni og bjóðum Heimkaup velkomið í samkeppni á lágvöruverðsmarkaði,“ segir Guðrún. 

Hún telur að verðlagseftirlit ASÍ sýni að Krónan sé með samkeppnishæf verð á lágvöruverðsmarkaði. 

„Það er okkar daglega verkefni að veita okkar viðskiptavinum vörur á lægsta mögulega verði. Það sést best á verðlagskönnunum ASÍ að við erum fyllilega samkeppnishæf í verði á vörum á lágvöruverðsmarkaði," segir Guðrún.

En hvað á þá fyrrum framkvæmdastjóri við þegar hún segir að Bónus sé eina lágvöruverðsverslunin. Hún var áður framkvæmdastjóri hjá Krónunni. Finnst þér ómaklega vegið að Krónunni í þessu samhengi?

„Það sem mér finnst skipta máli í þessu er að láta verkin tala. Það höfum við í Krónunni gert. Við erum hér fyrir viðskiptavininn og bjóðum fjölbreytt vöruúrval á lægsta mögulega verði. Það er okkar verkefni á hverjum degi,“ segir Guðrún.

2-3 krónur sitja í hagnað 

Gréta talar líka um að álagning sé há. Hvað finnst þér um slíkan málflutning?

„Það sem skiptir máli í þessu er að rekstarumhverfi er krefjandi á Íslandi og álagning er ekki há þegar horft er til rekstarkostnaðar. Af hverjum 100 krónum sem koma í kassann hjá okkur, þá sitja 2-3 krónur eftir í hagnað. Það er hlutur eigenda sem er að stærstum hluta lífeyrissjóðir í landinu,“ segir Guðrún.   

Þá bætir hún við að aðfangakeðjan sé löng og margir sem komi að verðmyndun á vöru. 

Samkvæmt 9 mánaða uppgjöri í ársreikningi Festi var hagnaður félagsins 1,2 milljarðar kr. og um 296 milljónum króna meiri en á sama tíma árið 2022.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK