Seðlabankinn þurfi að hafa trú á hagkerfinu

Ari Fenger, formaður Viðskiptaráðs, á fundinum í dag.
Ari Fenger, formaður Viðskiptaráðs, á fundinum í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ari Fenger, formaður Viðskiptaráðs, kallar eftir að Seðlabankinn hafi trú á hagkerfinu.

Í ræðu sinni á árlegum Peningamálafundi Viðskiptaráðs í dag sagði hann að stýrivaxtahækkanir séu víðs vegar farnar að bíta.

Það hægir á einkaneyslu og fjárfestingu og húsnæðismarkaðurinn hefur kólnað.

Stýrivaxtahækkanir farnar að hafa veruleg áhrif

Vék hann að varnaðarorðum peningastefnunefndar Seðlabankans sem sagði í tilkynningu með vaxtaákvörðun sinni í gær að verðbólguvæntingar væru enn háar og þess vegna gæti þurft að herða taumhald peningastefnunnar enn frekar.

„Í því sambandi finnst mér rétt að hvetja Seðlabankann að hafa meiri trú á hagkerfinu. Áhrifin af vaxtahækkunum síðustu tveggja ára eru enn að koma fram. Við þurfum líka að horfa til lengri tíma og átta okkur á því hversu harkalega lendingu húsnæðismarkaðarins á að knýja fram en stýrivaxtahækkanir eru farnar að hafa veruleg áhrif,“ sagði Ari.

Laun hækkað þrefalt meira hér

Þá vék hann að stöðunni á vinnumarkaði á Íslandi og því að laun hafi hækkað þrefalt meira en þekkist á Norðurlöndunum og á Evrusvæðinu undanfarið. Sagði hann það gleymast þegar bent er á hvernig öðrum þjóðum hefur tekist upp í baráttunni við verðbólguna.

„Það hefði ekki átt að koma neinum á óvart að 7% launahækkanir í kjarasamningum hefðu áhrif, ekki síst á jafn þöndum vinnumarkaði og við búum við. Árshækkun launavísitölu í september var næstum 11%. Það eru launahækkanir langt umfram það sem samrýmist verðbólgumarkmiðum Seðlabankans og því sem eðlilegt er að vænta af framleiðnivexti.“

Sýna að þau skilji vandann

Ari sagði stjórnmálamenn kalla eftir að atvinnulífið axli ábyrgð og sagði hann að sama skapi þyrftu þau sem stjórni að sýna að þau skilji vandann og vilji gera sitt til að ná tökum á ástandinu.

„Ég vil brýna þau sem stjórna ríkisfjármálunum að missa ekki sjónar á langtímamarkmiðunum; að ná tökum á verðbólgunni og að skapa viðunnandi vaxtaumhverfi og meiri efnahagslegan stöðugleika.“

Sagði hann ýmsar leiðir til að sýna að það sé vilji til að leggja lóð á vogarskálarnar, bæði í baráttunni við verðbólgu og til að liðka fyrir kjarasamningnum. Ein aðgerð væri að frysta krónutölugjöld rétt eins og var gert árið 2014 og 2015. Það væru skýr skilaboð um að ríkið vildi leggja sitt af mörkum til að sporna gegn verðbólgu. Þá sagði hann mikilvægt að lækka tryggingagjald. Það væri mikilvægt innlegg í komandi kjaraviðræður.

Ari sagðist sakna þess að stjórnmálamenn tali upp atvinnulífið í stað þess að tala það niður.

„Við erum öll saman í þessari baráttu og hagsmunir fyrirtækja og launafólks eiga saman. Öflug fyrirtæki þýða betri lífskjör og meiri tekjur til hins opinbera.“

Segir hugmyndir Vilhjálms ganga lengra en þjóðarsáttin 1990

Þá vék formaður Viðskiptaráðs tali sínu að komandi kjarasamningum. Hann sagðist auðvitað vona það besta en viðurkenndi að sporin hræða.

„Kjarasamningar síðasta vetur voru dýrir skammtímasamningar og þar á undan gerðum við dýra langtímasamninga. Ég vona að allir sem sitja við borðið átti sig á því hvað er undir.“

Ari ræddi hugmyndir Vilhjálms Birgissonar, formanns Starfsgreinasambandsins, um, þjóðarsátt. Hann sagði Vilhjálm hafa sett fram hugmyndir um 2,5% hámarkshækkanir á laun og verðlag en Ari sagði að slíkur samningur myndi ganga miklu lengra en þjóðarsáttin 1990.

Hann sagði að á þeim tíma hafi ríkisstjórnin ábyrgst að verð landbúnaðarafurða héldist óbreytt og stéttarsamband bænda hafi ábyrgst með sérstökum samningi að búvörur myndu ekki hækka að vissum skilyrðum uppfylltum.

Sagði hann að ekki hafi verið minnst á bann við hækkun almenns verðlags en það hafi verið allra hagur að halda aftur af hækkunum. Sagði hann aðila samningsins hafa gert ráð fyrir að verðlagshækkanir yrðu um 6-7% á fyrra ári samningsins en laun myndu hækka um 5%.

„Lægri verðbólga og lægra vaxtastig eru raunverulegar kjarabætur“

„Það var sem sagt bókstaflega gert ráð fyrir að laun héldu ekki í við verðlag. Það er einmitt það sem gerst hefur í ríkjunum í kringum okkur. Þar hefur kaupmáttur rýrnað lítillega en á móti kemur hafa þau ríki náð verulegum árangri í baráttunni við verðbólguna.

Við þurfum að vera raunsæ í nálgun okkar. Það er okkar allra hagur að ná tökum á efnahagsástandinu. Lægri verðbólga og lægra vaxtastig eru raunverulegar kjarabætur og það er það sem við eigum að stefna að með raunhæfum aðferðum. Ég vona að okkur takist að komast í gegnum kjarasamninga án kostnaðarsamra átaka á vinnumarkaði.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK