Íslandsbanki spáir einnig myndarlegri lækkun

Gangi spá Íslandsbanka og Landsbankans eftir mun verðbólgan lækka úr …
Gangi spá Íslandsbanka og Landsbankans eftir mun verðbólgan lækka úr 6,8% í 6,1% í þessum mánuði. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Greiningardeild Íslandsbanka spáir því að tólf mánaða verðbólga muni í þessum mánuði lækka nokkuð myndarlega, eða úr 6,8% niður í 6,1%. Er greiningardeildin þar með sammála spá Landsbankans sem gerir einnig ráð fyrir að verðbólgan fari niður í 6,1% þegar Hagstofan birtir tölur sínar fyrir apríl mánuð á síðasta degi vetrar, 24. apríl.

Íslandsbanki gerir ráð fyrir að vísitala neysluverðs hækki um 0,6% milli mánaða, en verðbólgan er tólf mánaða breyting vísitölunnar. Þrátt fyrir hækkun vísitölunnar milli mánaða þýðir það lækkun á verðbólgu, þar sem hækkun vísitölunnar í apríl í fyrra var nokkuð meiri, eða um 1,3%.

Íslandsbanki spáir því að reiknuð húsaleiga muni vega þyngst til hækkunar að þessu sinni, en einnig að flugverð muni hækka, líkt og tíðkast um páska.

Þessi hækkun á reiknaðri húsaleigu kemur m.a. til vegna eftirspurnarþrýstings sem stafar af íbúðarkaupum Grindvíkinga. Að öllum líkindum mun þó draga úr eftirspurnarþrýstingi á ný eftir því sem líður á árið að því er bankinn spáir.

Einnig er gert ráð fyrir að breytt aðferðafræði við útreikning á reiknuðu húsaleigunni muni trúlega koma til með að minnka sveiflur á henni og verðbólga muni sökum þess líklega mælast heldur minni á seinni hluta árs.

Samkvæmt spá Íslandsbanka fyrir komandi mánuði er gert fyrir að ársverðbólgan lækki svo niður í 6% í maí og 5,6% í júní, en hækki örlítið og verði 5,8% í júlí. Langtímaspá gerir svo ráð fyrir að verðbólgan verði í kringum 5% um áramót og taki eftir það að lækka skarpt.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK