Krefjast tugprósenta hækkana

Þessi mynd frá faraldursárinu 2020 gæti gengið í endurnýjun lífdaga …
Þessi mynd frá faraldursárinu 2020 gæti gengið í endurnýjun lífdaga verði af verkfalli flugmanna Norwegian sem krefjast launahækkana er þykja út úr kortinu miðað við hefðbundnar hófsemishækkanir á norskum vinnumarkaði. AFP

Hætt er við verkfalli tæplega 20 flugmanna norska flugfélagsins Norwegian þar sem enn hefur ekki samist með norsku vinnuveitendasamtökunum NHO Luftfart og flugmannastéttarfélaginu Parat.

Fyrr í vikunni tókst þó að afstýra fjölmennu verkfalli starfsfólks flugvallanna Gardermoen við Ósló og Flesland í Bergen með samningum Fellesforbundet við NHO Luftfart en talsmenn hins síðarnefnda lýsa kröfum flugmanna sem algjörlega út úr kortinu. Krefjast þeir launahækkunar á bilinu 25 til 38 prósent á meðan þeir samningar sem nú hafa náðst innan fluggeirans fela í sér meðalhækkun upp á 5,2 prósent – sem telst mikil hækkun miðað við norska kjarasamninga.

Norskir flugstjórar þéna að meðaltali 1,4 milljónir króna á ári, jafnvirði um 18,3 milljóna íslenskra króna, en Norwegian-flugstjórar vilja nú 1,9 milljónir í grunnlaun á ári, það er 24,8 milljónir íslenkra króna. Deilan er á borði ríkissáttasemjara.

Flugmenn setið eftir í 15 ár

„Við verðum því miður að segja að mikið ber í milli,“ segir Erik Lahnstein, forseti NHO Luftfart, við norska ríkisútvarpið NRK, „að þeir fari fram á margfalda hækkun miðað við launaramma geirans er krefjandi. Það er von okkar að samkomulag náist um eitthvað sem er í líkingu við það sem tíðkast á norskum vinnumarkaði,“ bætir hann við.

Forsetinn bendir enn fremur á að fluggeirinn eigi að baki mjög erfitt tímabil sem ekki síst hafi komið illa niður á Norwegian sem fékk hundrað milljarða króna skuldir afskrifaðar, jafnvirði rúmlega 1.300 milljarða íslenskra króna. Bendir hann enn fremur á að skandinavíska flugfélagið SAS standi nú í enn einni fjárhagslegri endurskipulagningunni, nýja flugfélagið Flyr hafi orðið gjaldþrota og Widerøe hafi ekki komist upp fyrir núllið í fjögur ár.

Formaður stéttarfélags flugmanna Norwegian segir vegalengdir milli landa ekki einu …
Formaður stéttarfélags flugmanna Norwegian segir vegalengdir milli landa ekki einu vegalengdirnar sem blasi við flugmönnum félagsins er þeir setjast við stjórnvölinn, þar fari einnig verulegar fjarlægðir upp í laun erlendra starfssystkina þeirra. AFP

Alf Hansen, formaður stéttarfélags flugmanna Norwegian, bendir hins vegar á að flugmenn hafi setið eftir í fimmtán ár miðað við hækkanir annarra stétta fluggeirans.

„Við höfum nánast staðið í stað í launum í mörg ár eða verið með launin í frysti,“ segir Hansen, „stjórnendur okkar hafa ekki átt möguleika á að fylgja með í launahækkunum annarra. Þess vegna stöndum við nú mun aftar en þeir sem notið hafa hefðbundinna hækkana í faginu.“

Bendir hann enn fremur á að vegalengdir milli landa séu ekki þær einu sem hans fólk standi frammi fyrir þegar það horfi til erlendra flugstjóra, þar nemi vegalengdir í launum mörg hundruð þúsund norskum krónum á ári.

Frestur NHO Luftfart og Parat til að ná samningum er til miðnættis annað kvöld, föstudag.

NRK
Dagbladet
Nettavisen

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK