c

Pistlar:

1. ágúst 2023 kl. 14:31

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Sósíalísk paradís og flóttamenn á Íslandi

Mál hafa æxlast svo að ástandið í Suður-Ameríkuríkinu Venesúela skiptir okkur Íslendinga miklu. Þaðan hafa þúsundir flóttamanna komið til Íslands, okkur að óvörum. Þetta fólk flýr stjórnarhætti sósíalistastjórnarinnar sem hefur ráðið lögum og lofum í Venesúela í tvo áratugi eða svo. Um ástandið í Venesúela var fjallað hér allmikið í pistlum áður en flóttamannastraumurinn barst hingað en langt er síðan að ljóst var að stefndi í óefni þarna suður frá.madlula

Segja má að vinstri-pópúlismi ráði ríkjum í sumum ríkum Suður-Ameríku og það sást kannski skýrast þegar hinn 77 ára gamli Luiz Inácio Lula da Silva (kallaður Lula) var endurkjörin forseti Brasilíu á síðasta ári eftir að hafa meðal annars afplánað fangelsisvist vegna fjármálasvika og fyrir að hafa þegið mútur. Lula er nú á ný leiðtoginn í hreyfingu vinstri-pópúlista í álfunni og hefur endurnýjað kynnin við kollega sinn í Venesúela, Nicolás Maduro Moros, sem líklega öðrum fremur ber ábyrgð á því hörmungarástandi sem nú ríkir í Venesúela en um 7 milljónir manna hafa flúið þessa sósíalísku „paradís.“

Chávez breytti reglunum

Lula hafði einnig sterk tengs við forvera Maduro, hinn litríka Hugo Chávez. Tímaritið Economist rifjar upp að árið 2005, þegar Lula hafði verið tvö ár í embætti, hefði hann sagt að í Venesúela væri ofgnótt lýðræðis (e. an exess of democrasy). Það var auðvitað hin mestu öfugmæli því á þeim tíma var lýðræði í Venesúela þegar á fallanda fæti vegna ólýðræðislegra stjórnarhátta sósíalista.

Þegar þarna var komið sögu hafði Hugo Chávez kynnt lög sem ætlað var að setja hömlur á það sem sjónvarps- og útvarpsstöðvum væri heimilt að segja um stjórnarmálefni. Þegar kom fram á árið 2007 réðist Chávez í stjórnarskrárbreytingar sem ætlað var að auka völd hans og afnema takmarkanir á valdatíð forseta. Nú tæpum tveimur áratugum síðar hefur Maduro, hinum óvinsæla eftirmanni hans, tekist að nýta sér þessar breytingar til þess að stýra sem einvaldur. Í kjölfarið hefur hagkerfið dregist saman um 75% og lífskjör hrunið og eru nánast óbærileg fyrir stórann hluta landsmanna og hefur leitt af sér einstæðan flóttamannavanda í þessum heimshluta. Þrátt fyrir þetta er viðhorf Lula, nú þegar hann er komin til valda, það sama segir Economist.maduro_lula_2023

Maduro hampað í Brasilíu

Maduro kom í opinbera heimsókn til Brasilíu í lok maí síðastliðins og var það fyrsta heimsókna hans þangað síðan árið 2015. Augljóslega var verið að hnýta hin gömlu bönd sósíalista og myndir birtust af þeim Lula og Maduro brosandi og í faðmlögum og Maduro fékk stórhöfðingjamóttöku. Þó ekki í íslenska Ríkisútvarpinu sem á tíma forvera Lula í embætti hafði talsverðan áhuga á brasilískum málefnum og innti þá heimamenn jafnvel tíðinda. Þeir eru lítt spurðir nú um framferði Lula.

Heimsókn Maduro var hluti ráðstefnu leiðtoga Suður-Ameríkuríkja en Lula var umhugað um að draga upp hagfelda mynd af stjórnarfari Maduro sem meðal annars hefur verið sakaður um að stuðla að fíkniefnasölu. Lula sagði hins vegar að hann væri fórnarlamb einhliða umræðu og áróðurs. Hann sagði fráleitt að draga lýðræðislegt umboð Maduro í efa en síðustu kosningar voru árið 2018 og 60 þjóðríki hafa lýst yfir að þær hafi verið ómarktækar vegna svindls sem var lítt dulið. Fyrri stjórn Brasilíu sleit stjórnmálasambandi við Maduro-stjórnina.

Einnig hafa verið settar fram mjög alvarlega ásakanir á hendur Maduro vegna mannréttindabrota, svo sem pyntinga og mannshvarfa. Á tíma Trump-stjórnarinnar leiddi það til þess að viðskiptabann var sett á Venesúela, bann sem Lula segir nú ósanngjarnt og ólöglegt og krefur bandarísk stjórnvöld um afsökunarbeiðni vegna þessa.

Lula vill vera á stóra sviðinu

Alþjóðlegir fréttaskýrendur hafa talsvert velt fyrir sér stefnu stjórnar Lula í málefnum Venesúela og sumum þykir sem hinn 77 ára gamli forseti Brasilíu hafi kosið að horfa framhjá öfugþróun í Venesúela síðustu 20 ár þegar hann var endurkosinn. Nú telji Lula sig í aðstöðu til að leiða sósíalískrar breytingar í pólitík Suður-Ameríku, meðal annars með Maduro félaga sínum.

En Lula virðist telja sig hafa hlutverk á hinu stóra sviði alþjóðlegra stjórnmála, jafnvel að hann geti komið að lausn á Úkraínu-stríðinu með þátttöku sinni í BRICS samstarfinu en Pútín Rússlandsforseti hefur reynt að nýta sér þann vettvang til þess að hafa áhrif á viðhorf alþjóðasamfélagsins til stríðsins í Úkraínu. Lula hefur látið hafa eftir setningar eins og „Brasilía er komin aftur“ sem yfirlýsingu um að Bolsonaro-tímanum sé lokið og Brasilía geti stutt við baráttuna gegn heimsvaldastefnu Bandaríkjanna. Slíkur sósíalískur barnaskapur er auðvitað vatn á millu stríðsvélar Pútíns en margir hafa efasemdir um að Lula geti breytt miklu, hvorki heima í eigin álfu né á heimsvísu.