c

Pistlar:

3. desember 2023 kl. 20:17

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Þúsund doktorar og félagslegur hreyfanleiki

Ísland er til þess að gera fámennt land með stutta sögu viðskipta. Sjálfstæð peningastefna var lengst af erfið þegar landið treysti nánast á eina útflutningsgrein. Aflabrestur, versnandi markaðshorfur eða jafnvel hrun markaða gat leikið efnahag landsins grátt. Þetta sást síðast þegar síldin hvarf nánast á einum vettvangi en þá stóð hún undir um fjórðungi af útflutningstekjum landsmanna. Í framhaldinu hófu landsmenn uppbyggingu orkufreks iðnaðar til að renna fleiri stoðum undir tekjustreymi landsins. Iðnaður og nú síðast ferðaþjónusta hafa eflt aukið fjölbreytileika atvinnustarfsemi í landinu.doktorar

Framan af var háskólaumhverfi einhæft og langskólagengnir fáir. Lengi vel lærðu menn til prests og lögfræði, nánast einu atvinnumöguleikar menntaðs fólks voru innan embættismannakerfisins. Þetta mótaði skipan embættismanna og starfsemi hins opinbera. Þegar menn tala um að allir sýslumenn hafi verið sjálfstæðismenn ber að líta á að flestir sem lærðu lögfræði voru úr þeim flokki, ef ekki, þá voru þeir framsóknarmenn. Síðar átti tilvist sérstakra „mannréttingalögfræðinga“ eftir að breyta þessu. Samhliða því að lögfræði hætti að vera eingöngu praktískt starf fengu vinstri menn sína lögfræðinga.

Aukin háskólamenntun og fleiri opinberir starfsmenn

En um leið og háskólamenntuðum fjölgaði tók opinberum starfsmönnum einnig að fjölga. Alla lýðveldissöguna hefur verið rætt um frændsemi og afleidda spillingu. Það er ekkert nýtt og margir stjórnmálamenn hafa rekið stjórnmál sín á þeim forsendum að þeir séu utan þessa frændgarðs og séu að berjast gegn spillingu. Hugmyndir um félagslegan hreyfanleika eru til þess að gera nýjar af nálinni en eiga þó við í íslensku samfélagi. Þær birtast meðal annars í aðgengi að menntun. Í dag má segja að flestir sem hafi löngun og getu til þess geti lokið doktorsprófi. Efnahagsleg staða hefur hverfandi áhrif þó að doktorsnám geti verið kostnaðarsamt og þeir sem það stunda fórni hugsanlega einhverjum tíma í lífsgæðakapphlaupinu.

Fyrir stuttu greindi Háskóli Íslands frá því að ríflega 80 doktorar hefðu brautskráðst frá skólanum á síðustu 12 mánuðum og var þeim fagnað á árlegri Hátíð brautskráðra doktora sem fram fór í Hátíðasal skólans á fullveldisdaginn. Hugsanlega er þessi dagur tekin undir það vegna þess að einhverjir sjá tengsl menntunar og fullveldis. Í það minnsta eflir menntun styrk og sjálfstæði viðkomandi. Þetta var í tólfta sinn sem hátíð sem þessi er haldin.

Um leið tóku þeir doktorar sem brautskráðst hafa frá skólanum á undanliðnum 12 mánuðum við gullmerki skólans og að þessu sinni eru þeir 83 talsins. Doktorarnir koma af öllum fimm fræðasviðum skólans og í hópnum eru 34 karlar og 49 konur eða um 60% brottskráðra. Þetta hlutfall hefur verið konum í hag sem og fjöldi háskólagráða undanfarin áratug.

Þúsundasti doktorinn

Sameiginlegar doktorsgráður með öðrum háskólum eru tvær talsins auk þess sem á árinu brautskráðist nemandi sameiginlega frá tveimur fræðasviðum skólans. Hvorki fleiri né færri en 37% doktoranna eru með erlent ríkisfang. Brautskráðir doktorar frá stofnun Háskóla Íslands telja nú á annað þúsund en sá áfangi náðist í fyrra að þúsundasti doktorinn brautskráðist frá skólanum. En einokun Háskóla Íslands hefur verið rofin og fleiri háskólar útskrifa doktora. Þetta er ein leið til að meta möguleika fólks til félagslegs hreyfanleika en menntun gefur fólki færi á æðstu stöðum, þá óháð uppruna og ætterni. Þetta verður að hafa í huga þegar

Karl Marx fjallaði mikið um sögulega framvindu. Hann skrifaði: „Mennirnir skapa sjálfir sögu sína, en þeir skapa hana ekki að vild sinni, ekki við skilyrði sem þeir hafa sjálfir valið, heldur við þau skilyrði sem þeir hitta fyrir sér, þeim eru fengin, þeir hljóta í arf. Arfur allra liðinna kynslóða hvílir sem farg á heila lifenda." (Úrvalsrit II, bls. 119). Sú hugsun að maðurinn sé í háður umhverfi sínu um leið og hann skapar það varð líklega eitt meginstef félagsvísinda á 20. öld. Við höfum hins vegar íslenskt máltæki sem segir að sumir geri allt úr engu á meðan aðrir geri allt að engu. Íslenskt samfélag gefur flestum tækifæri óháð uppruna, það skiptir miklu.