c

Pistlar:

8. desember 2023 kl. 15:46

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Tveir frumkvöðlar kveðja

Tveir nafntogaðir viðskiptamenn létust í nóvembermánuði, báðir í hárri elli. Þeir skildu eftir sig mikið ævistarf. Páll Samúelsson var þekktastur fyrir að hafa stofnað og byggt upp Toyota umboðið en yfirburðir og vinsældir Toyota bíla á Íslandi er einstök á heimsvísu. Sigurbergur Sveinsson stofnaði Fjarðarkaup í Hafnarfirði sem hefur reynst einstaklega farsælt smásölufyrirtæki. Árangur hans er eftirtektarverður því hann starfaði í heimi þar sem samkeppnin snýst oft um stærð og magninnkaup. Báðir mótuðu þeir fyrirtæki sín án þess að setja persónur sínar í öndvegi. Þeir lögðu áherslu á að veita góða þjónustu á samkeppnishæfu verði. Fjarðarkaup er enn í höndum fjölskyldu Sigurbergs en nýir eigendur stýra nú rekstri Toyota.Skjámynd 2023-12-08 154250

Þegar ævi þeirra Páls og Sigurbergs er skoðuð kemur í ljós að báðir voru af fátæku fólki komnir. Reyndar var uppvöxtur þeirra með þeim hætti að fátt gaf til kynna að þeir yrðu efnamenn síðar. Í það minnsta voru þeir ekki studdir af ættarauði eða fyrirgreiðslu embættismanna. Lífshlaup þeirra var sönnun þess að við lifum í landi sem getur boðið dugmiklu fólki upp á tækifæri óháð stöðu. Hér var fyrir skömmu bent á að menntun getur stutt við félagslegan hreyfanleika en þeir Páll og Sigurbergur sýndu fram á að staðfesta og dugnaður skipta mestu.

Sigurbergur og Fjarðarkaup

Sigurbergur fæddist á kreppuárunum og fór sex ára að aldri í sveit í Selárdal á Vestfjörðum. Stóð til að hann yrði þar í þrjá mánuði en örlögin höguðu því þannig að faðir hans slasaðist þegar til stóð að sækja Sigurberg í sveitina um haustið. Á sama tíma var síðari heimsstyrjöldin að brjótast út. Þess vegna var ákveðið að Sigurbergur yrði um veturinn að Húsum. Þessir áformuðu þrír mánuðir urðu að níu árum, svo vel undi hann sér í sveitinni. Þar lærði hann að fara vel með veraldleg gæði, að sníða sér stakk eftir vexti og hafa báða fætur á jörðinni, skrifar Jóhann Guðni Reynisson í minningagrein um Sigurberg en Jóhann Guðni skrifaði sögu Fjarðarkaupa sem kom út 2010.

Óhætt er að segja að Sigurbergur og synir hans hafi sýnt úrræðasemi og framtakssemi á miklum samkeppnismarkaði. Þrátt fyrir að vera með litla markaðshlutdeild á landsvísu er Fjarðarkaup með sterka stöðu í Hafnarfirði, eða nærri helmingi matvörumarkaðarins þar. Því er óhætt að segja að stjórnendur Fjarðarkaupa hafi hagað sínum rekstri af mikilli skynsemi, fjárfestingar hafa verið í lágmarki en þess gætt að byggja félagið upp hægt og markvist. 

Jóhann Guðni segir að Sigurbergur hafi var alltaf vel með á nótunum um samfélagsleg málefni, verið vel lesinn, haft ákveðnar skoðanir en um leið reiðubúinn að hlusta á hvað aðrir hefðu að segja. Hann hafi verið sanngjarn og heiðarlegur en um leið staðfastur og hafi til dæmis ekki séð ástæðu til að breyta neinu nema það væri augljóslega til góðs og efni til. Og aldrei hafi verið borist á. „Bruðl ekki til í orðabókinni. Aldrei tekið lán. Uppruni hugmyndafræðinnar frá Húsum þar sem húsið var kynt með mó því kolin voru dýr og ekki í boði að fá lánað fyrir kolum í Kaupfélaginu. Aðeins tekið út ef inneign var til. Þetta er kolahagfræðin sem Sigurbergur hafði með sér að vestan og hefur fylgt honum alla tíð síðan,“ skrifar Jóhann Guðni.

Páll og Toyota

Páll Breiðdal Samúelsson fæddist á Siglufirði 10. september 1929 og var því fjórum árum eldri en Sigurbergur. Lífshlaup hans er um margt merkilegt. Barnungur missti hann foreldra sína og var í framhaldi þess komið fyrir á sveitaheimili hjá vandalausum. Vistin var honum svo erfið að alla tíð síðan minntist hann þess tíma með hryllingi. Svangur flesta daga og óhirtur því þrifnaður á fósturheimilinu var lítill. Má nærri geta að hann hefur oft grátið sig í svefn, foreldralaus, hungraður og afskiptur. Erfið ár í uppvexti hafa mótað ungan dreng og vafalaust átt þátt í einlægum vilja Páls til að hjálpa öðrum síðar á lífsleiðinni, skrifar Gunnlaugur Sigmundsson, fyrrverandi alþingismaður sem tengdur var Páli fjölskylduböndum í minningagrein um Pál. 

Páll lauk stuttu námi við Iðnskólann á Siglufirði en eftir það lá leiðin til Reykjavíkur. Páll vann ýmis störf þar, meðal annars við leigubílaakstur hjá BSR og hjá fyrirtæki Vigfúsar Friðjónssonar vinar síns, Íslenskum fiski. Síðar stofnaði Páll ásamt tengdaföður sínum fyrirtækið B. Sigurðsson sf. sem seldi fisk til Danmerkur. Það félag flutti inn ýmsa matvöru og plastkassa fyrir fiskvinnslu og vann þar brautryðjendastarf. Síðar urðu þeir hluthafar í Japönsku bifreiðasölunni og fór svo að Páll og Elín kona hans festu kaup á fyrirtækinu og þann 17. júní 1970 var P. Samúelsson Toyota umboðið á Íslandi formlega stofnað. 

Þekktastur er Páll án efa fyrir að byggja upp glæsilegt fyrirtæki um innflutning á Toyota-bílum en P. Samúelsson hf. varð að stórfyrirtæki, þekkt fyrir góða þjónustu og trausta vöru. Gæði þjónustunnar við viðskiptavini voru Páli efst í huga og er óhætt að telja hann til frumkvöðla í þeim efnum hér á landi. „Það eru ekki bara gæði Toyota-bílanna sem hafa gert þá vinsælasta á Íslandi, maðurinn á bak við þjónustuna var einstakur,“ skrifaði fyrrverandi samstarfsmaður hans. Það er ekki víst að allir átti sig á hvað þurfti að leggja mikið á sig við að markaðssetja Toyotabíla enda þekkja allir Íslendingar gæði þeirra í dag.

Páll var einstaklega starfsamur en hann var þátttakandi í að byggja upp fleiri fyrirtæki: PS fasteignir ehf., Arctic Truck ehf., Kraftvélar ehf., Komatsu-umboð í Danmörku og fánasaumastofa á Hofsósi eru meðal fyrirtækja sem hann kom að auk þess að vera lengi fjárhagslegur bakhjarl Vesturfarasetursins á Hofsósi.

Það er óumdeilt að báðir þessir menn voru frumkvöðlar og um leið farsælir í sínum rekstri um leið og þeir kröfðust alltaf mest af sjálfum sér. Slíkar sögur eru ekki fyrirferðamiklar í fjölmiðlaumræðunni nú og því ekki víst að margir átti sig á því hve mikilvægar fyrirmyndir þeir voru.