c

Pistlar:

15. apríl 2024 kl. 20:46

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Trúarleg skautun Miðausturlanda

Um öll Miðausturlönd má sjá hlutfall kristinna manna meðal íbúa fara lækkandi sem er skýrt merki um að hin trúarlega skautun í þessum heimshluta sé að aukast verulega. Tölurnar vekja undrun. Það má fyrst nefna að kristnum mönnum hefur fækkað jafnt og þétt í Tyrklandi síðan seint á 19. öld þegar þeir voru á milli 20% og 25% íbúanna. Í þá daga var þetta svæði hluti af Ottómanveldinu sem stundum var einnig kallað Tyrkjaveldið en það var fjölþjóðlegt ríki. Í dag eru kristnir aðeins um 100 þúsund af 84 milljónum íbúa Tyrklands sem eru aðallega súnni-múslímar.bjargakrist

Líbanon er með hæsta hlutfall kristinna manna í Miðausturlöndum, en deilt hefur verið um nákvæman fjölda í mörg ár. Magnús Þorkell Bernharðsson prófessor segir í bók sinni um Miðausturlönd að kristnir í Líbanon hafi verið 78% landsmanna fyrir fyrri heimsstyrjöld en séu núna um 25% landsmanna. Þessi tala er talsvert á reiki. Árið 2018 áætlaði CIA World Factbook að kristnir væru 33,7% íbúa Líbanons. Þessi tölfræði er ekki traust í fleiri löndum en í Egyptalandi er talið að hlutfall kristinna íbúa hafi fækkað úr því að vera 10% landsmanna niður í um 5 til 8%. Kristnir menn í Egyptalandi kallast koptar og eru lítill minnihlutahópur. En koptar eru eigi að síður stærsti kristni hópurinn í Miðausturlöndum. Kveikt hefur verið í kirkjum í Egyptalandi og lífi kristinna ógnað en í nýlegri skýrslu bandarískra stjórnvalda er talið að staða þeirra hafi heldur batnað og dregið úr áhrifum öfgaíslamista.

Kristnir að hverfa í Sýrlandi?

Allar eru þessar breytingar sársaukafullar og hafa stundum komið í kjölfar gríðarlegra fólksflutninga og mannfalls, svo jaðrar við þjóðarmorð. Í Sýrlandi hefur hlutskipti kristinna verið erfitt en þeir voru 17% landsmanna árið 1910 en eru innan við 1% núna. Á 7. öld þurftu margir kristnir menn í Sýrland að borga fyrir þau forréttindi að búa undir vernd kalífadæmisins. Ef þeir vildu ekki borga áttu þeir tvo aðra kosti: Þeir gætu snúist til íslam eða, eins og sumar túlkanir á sáttmálanum milli múslímskra valdhafa og kristinna þegna þeirra gefa til kynna, „horfast í augu við sverðið.“middle east

Magnús Þorkell er með áhugaverða lýsingu á breytingunum þar í bók sinni. Hann heimsótti vin sinn í Aleppo, stærstu borg Sýrlands árið 1993. Vinurinn tilheyrði sýrlensku rétttrúnaðarkirkjunni og fór með Magnús í göngutúr á sunnudagsmorgni. Gengið var á milli kirkna í Aleppo sem stóðu þétt og voru þéttsetnar. Magnús undraði sig á hve ólíkir söfnuðirnir voru sem voru þarna í þröngu sambýli. Ólík tungumál voru notuð í helgihaldinu og skreytingar og klæðnaður fólks ólíkur milli söfnuða. Nokkrir af þessum söfnuðum höfðu starfað þarna í næstum 2000 ár eða frá fyrstu öldum kristninnar skrifar Magnús Þorkell. Sennilega hafi þeir verið meðal elstu safnaða heims og eins nálægt frumkristni og hægt sé að ímynda sér.

„En nú er öldin önnur. Nú hafa flestir meðlimir safnaðanna flúið land eða látið lífið í borgarstyrjöldinni. Margar kirknanna hafa verið eyðilagðar og heyra nú sögunni til,“ skrifar Magnús Þorkel. Hann segir að það sé ekki aðeins í Sýrlandi þar sem þessi eyðilegging hefur átt sér stað. Í Mosul í norðurhluta Íraks hafi 30 kirkjur verið skráðar árið 2010. En í kjölfar þess að liðsmenn Íslamska ríkisins (ISIS) náðu völdum í borginni réðust þeir á allar kirkjur bæjarins. Þeir fóru ránshendi um allt sem þeir töldu verðmæti og ofsóttu og myrtu kristna Íraka. Magnús Þorkell segir að stór hluti hina kristnu íbúa Mosul hafi ekki séð sér annað fært en að flýja. Rétt eins og Aleppo séu sárafáir kristnir menn eftir í Mosul en þeir hafa búið þar alveg síðan á 3. öld.help-iraqi-christians-700x475-1

Minnihlutahópar ofsóttir

Magnús Bernharður segir að það séu ekki aðeins kristnir sem eigi í vök að verjast. Svipað sé uppi á teningnum með aðra minnihlutahópa, svo sem Kúrda, drúsa, Assýrubúa, aleva og meðlimi Bahá'í-hreyfingarinnar. Verst var líklega farið með jasídana en það sem dundi á þeim var einstaklega grimmúðlegt og ofbeldisfull.

Magnús Þorkell bendir á að breytingar á félagsgerð og stjórnmálum Miðausturlanda hafi verið gífurlega miklar á 21. öldinni og gerst hratt. Telur hann að varla hafi orðið jafnviðamikil umskipti í annan tíma. Hann bendir á ábyrgð vesturveldanna og sérstaklega Bandaríkjamanna. Um leið virðist trúarlegt ofstæki á heimasvæðinu hafa grafið um sig og eytt mörkum milli stjórnmálahreyfinga og hryðjuverkasveita eins og á við um Hamas, Hizbolla og Húta og fleiri sveitir á svæðinu sem hafa verið til umræðu hér í pistlum. Þessar sveitir og íslamískir trúarleiðtogar gera öðrum fremur kristnum og öðrum trúarhópum nánast ólíft í löndum þar sem kristið fólk hefur lifað síðan í frumkristni. Á sama tíma fjölgar múslimum hratt á Vesturlöndum og taka sér sífellt aukið rými í samfélagsgerðinni þar.