Keik og kröftug Kuga

Það er enginn skortur á sportlegum jeppum í smærri kantinum á markaðnum þessi misserin og jeppinn – í hinum ýmsu afbrigðum – er í reynd orðinn að hinum hefðbundna heimilisbíl. Sumar fjölskyldur þurfa mikið rými á meðan aðrar gera kröfu til skemmtilegra aksturseiginleika. Ford Kuga er valkostur sem felur í sér bráðskemmtilegan akstur um leið og það fer vel um farþega.

Sver sig í Ford-ættina

Það leynir sér ekki að Kuga er úr Ford-fjölskyldunni enda beinlínis um litla bróður Ford Edge að ræða. Undirrituðum finnst Kuga reyndar betur heppnaður hvað yfirbygginguna varðar; litli bróðir er í laglegri og einhvern veginn réttari hlutföllum á meðan stóra bróður vantar einhvern herslumun. Kuga hefur sem sé útlitið með sér og er býsna fótógenískur, eins og meðfylgjandi myndir sýna.

Þéttur og verklegur að innan

Þótt Kuga sé ekki með stærri jeppum þá er jeppataugin býsna römm í honum. Allt innra byrðið er rammgert og sterklegt, bæði á að líta og viðkomu. Það er að einhverju leyti á kostnað fágunarinnar og fagurfræðinnar; það er dagljóst að það var ekki Ítali sem hannaði mælaborð og innréttingu. En það hentar Kuga í reynd vel og kannski er honum bara best borgið án þess að vera með eitthvert óþarfa pjatt. Það er það sem kalla mætti „no nonsense“ yfirbragð yfir öllu. Upplýsingaskjárinn er einfaldur í notkun og auðlært á kerfið, stýrið þétt og traustvekjandi og óneitanlega fær maður á tilfinninguna að það sé „gott í þessu“ – það er ekki að fara að hrikta í neinu í náinni framtíð. Til þess er frágangurinn of góður og of vel vandað til verka.

Furðulega sprettharður!

Það kom undirrituðum skemmtilega á óvart hversu öflugur Kuga reyndist vera; reyndar er hann beinlínis bráðskemmtilega sprækur. Bíllinn sem prófaður var er af Titanium S týpunni og hann gladdi bara heilmikið. Auk þess fékk ég að prófa hann í fannferginu hér um daginn og þá dugði hann hörkuvel og fór allt sem hann var beðinn um. Þegar þiðna tók og götur voru auðar var gaman að smella gírstönginni í S, sem er sportstillingin, og þá erum við að tala saman. Upptakið er ljómandi og togið svo fínt að furðu sætir.

Það eina sem mætti kannski finna að er að farangursrýmið er í minna lagi fyrir jeppa, en Kuga er í þesslegum stærðarflokki að þeir sem vilja meira rými í skottinu miða sjálfsagt á stærri bíl. Þegar allt er sett upp á strik er hér kominn bíll með miklum búnaði, snarpur og skemmtilegur í akstri þar sem sterklegur og rammgerður frágangur er í öndvegi. Fínn kostur svo fremi sem ekki er gerð of rík krafa um fágaða hönnun að innan.

Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.790 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »