G fyrir geggjun

Með ómótstæðilegan persónuleika en svolgrar í sig bensíninu.
Með ómótstæðilegan persónuleika en svolgrar í sig bensíninu. jósmynd/Youssef Diop

Ég gat ekki annað en hlegið þegar ég sá hann fyrst. Þarna stóð hann, á planinu hjá Mercedes-Benz í Stuttgart, fagurblár, risastór og vígalegur AMG G63.

Því hvað er annað hægt en að hlæja þegar 563 hestafla sportbílavél er skellt í hreinræktaðan torfærujeppa? Og hvað er annað hægt en að brosa þegar maður ræsir vélina og heyrir hljóð sem minnir á ítalskt tryllitæki frussast út úr púströrunum sitt hvorum megin við farþegarýmið?

Bíll fyrir rappara

Mig hafði lengi langað að prófa þennan bíl; gamla góða Geländewagen. Það er fyrst og fremst útlitið á honum sem hefur heillað mig; einhver ekta þýsk skynsemi á bak við það að handsmíða bíl sem hefur meira eða minna litið eins út frá árinu 1979. G-class er ekki endilega fallegasti bíllinn á götunni, en hann hefur sígilt útlit sem stenst tímans tönn á meðan flestir aðrir bílar – sama hvað þeir eru flottir þegar þeir koma fyrst á götuna – fara smám saman úr tísku. Mér finnst svo einstaklega gáfulegt að kaupa svona bíl, sem mun líta jafn vel út í innkeyrslunni að tíu árum liðnum og hann gerir í dag.

Hver er það svo sem kaupir svona bíl? Ég hugsa að G-class laði að sér tvo gjörólíka hópa. Annars vegar eru það íhaldssamir ökumenn sem vilja áreiðanleika og lágstemmdan glæsileika. Hins vegar eru það rapparar sem vilja láta á sér bera. Gaman að segja frá því að rapparinn Usher ók einmitt G-class þegar hann svínaði fyrir mig suður á Miami Beach hér um árið. Rappararnir hugsa ég að fari inn á heimasíðu Mercedes-Benz í leit að flottum bíl og velji G-class því hann lendir efst á lista þegar bílunum er raðað frá þeim dýrasta til þess ódýrasta.

AMG-útgáfan af þessum eðla jeppa er greinilega gerð til þess að höfða til síðarnefnda kaupendahópsins. Hún er nefnilega allt annað en íhaldssöm og lágstemmd og alls ekki ódýr.

Þegar hurðirnar hljóma fallega

Skemmtilegustu bílarnir gæla við skilningarvitin. Og það gerir AMG G63 um leið og tekið er í handfangið. Hurðirnar eru eins og hlerar á kafbát og yndislegt bara að heyra hljóðið þegar þeim er lokað. Hurðin, skottið, húddið: Pompf! Blúmpf! Badúmp!

Það er líka skynræn upplifun að sitja í vandlega saumuðu, leðurklæddu bílstjórasætinu og anda að sér öllum lúxusinum um borð, grípa þétt um fíngert stýrið og finna hvernig málmurinn í gírskiptiblöðkunum kitlar fingurgómana. Svo ræsir maður vélina og fær gæsahúð. Kveikir á Harman Kardon-hljómtækjunum og bassahátalarinn lætur innyflin víbra. Út á hraðbrautina. Bensíngjöfin í botn og 200 km/klst. í hvelli. Dire Straits. „Money for nothing“. Toppurinn á tilverunni. Svona á lífið að vera.

Ekki fyrir leggjalanga

Hvernig er svo að aka þessum jeppa sem heldur að hann sé skriðdreki? Það er furðuauðvelt. Ökumaður situr hátt og ekki erfitt að átta sig á umfangi bílsins. Það sem truflaði helst var að sætið virðist gert fyrir menn sem eru ekki jafn háir til mittisins og undirritaður, og átti ég erfitt með að láta fæturna hvíla þægilega á pedölunum. Sem betur fer er AMG G63 búinn mjög góðri sjálfvirkri hraðastjórnun svo þegar komið var út á stofnæðar og hraðbrautir gat ég stýrt fartinni með litla putta vinstri handar.

Leiðsögukerfið stenst ekki alveg samanburð við það nýjasta og besta, en gerir sitt gagn. Þá mætti bakkmyndavélin vera betri, enda ekki hægt að sjá mikið í baksýnisspeglinum þegar varadekkið hylur hálfa afturrúðuna.

Krafturinn er hrikalegur og alveg stórmerkilegt hvað þessi stóri, kubbslaga og þungi bíll fer létt með að ná miklum hraða. Lóðréttu fletirnir eru ekki til þess gerðir að minnka vindmótstöðuna en AMG-vélin hlær bara að því. Þegar komið er upp í 200 km hraða byrjar að hvína í loftinu sem brotnar á hvössum útlínum bílsins, en þá er bara að hækka í græjunum.

Pláss fyrir pallettu

Farþegarýmið er ekki það stærsta, hirslurnar af skornum skammti og varla að hanskahólfið rúmi meira en eigendahandbókina. Vösum fyrir flöskur er ekki til að dreifa, nema við fætur farþegasætisins frammí, en þar er niðurfellanlegur flöskuhaldari sem minnir á vasa á snókerborði. Á móti kemur að skottið er risastórt og munar litlu að þar megi koma fyrir heilli pallettu. Að vísu verður að gæta þess, hvort sem á að hlaða pallettum eða töskum í skottið, að skotthurðin er stór og sveiflast út á við. Ef farið er með G-class í innkaupaferð er því vissara að láta afturendann vísa út úr bílastæðinu, ella eiga á hættu að geta ekki opnað nema litla rauf á skottinu.

Verst af öllu er bensíneyðslan. Það er ekki fyrir fólk á blaðamannalaunum að reka svona bíl, og með ólíkindum hvað tankurinn gat verið fljótur að tæmast. Á pappírnum á eyðsla í blönduðum akstri að vera 13,9 l/100 en með bensínið í botni á þýsku hraðbrautunum fást allt aðrar og verri eyðslutölur. Tankurinn rúmar 96 lítra og var orðinn nær tómur eftir um 350 km akstur.

En skortur á sparneytni er hluti af persónuleika þessa bíls. Hann er svo yfidrifinn á alla vegu að það myndi ekki passa ef hann svolgraði ekki í sig bensíninu. AMG G63 er bíll sem hunsar alla pólitíska réttsýni, grætir umhverfisverndarsinna, gefur frat í alla skynsemi og fer sínar eigin leiðir. Hann er óstöðvandi og stingur alla af. Konungur allra vega, á sínum eigin forsendum.

Hver getur staðist þannig bíl?

Handsmíðuð AMG vélin hlær að þýsku hraðbrautunum.
Handsmíðuð AMG vélin hlær að þýsku hraðbrautunum. Ljósmynd/Youssef Diop
Sigilt útlitið hefur haldist nær óbreytt frá árinu 1979.
Sigilt útlitið hefur haldist nær óbreytt frá árinu 1979. mbl.is/Youssef Diop
Enginn skortur er á tökkum.
Enginn skortur er á tökkum.
Ökumanni finnst hann ósigrandi á bak við stýrið.
Ökumanni finnst hann ósigrandi á bak við stýrið. Ljósmynd/Youssef Diop
G-Class lætur ekkert stoppa sig.
G-Class lætur ekkert stoppa sig.
Leiðsögukerfið er komið til ára sinna.
Leiðsögukerfið er komið til ára sinna. Ljó´smynd/Youssef Diop
Ekki er stórum hirslum fyrir að fara en útsýnið er ...
Ekki er stórum hirslum fyrir að fara en útsýnið er gott í allar áttir.
Lágvaxnir þurfa að príla upp í fram- og aftursætin og ...
Lágvaxnir þurfa að príla upp í fram- og aftursætin og ökumaður má ekki vera leggjalangur.
Flöskuhaldarinn er óvenjulegur.
Flöskuhaldarinn er óvenjulegur.
Lágvaxnir þurfa að príla upp í fram- og aftursætin og ...
Lágvaxnir þurfa að príla upp í fram- og aftursætin og ökumaður má ekki vera leggjalangur.
Bakpoki í handfarangursstærð hverfur í skottinu.
Bakpoki í handfarangursstærð hverfur í skottinu.
Stýrið er einstaklega vel heppnað
Stýrið er einstaklega vel heppnað
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.790 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »