Roc & ról í boði Volkswagen

Það renna flest vötn bílabransans til snaggaralegra borgarjeppa með reffilegu yfirbragði um þessar mundir. Allir vildu Qashqai kveðið hafa og bæta um betur með litum og litasamsetningum sem einkum er beint að kaupendum í yngri aldurshópum.

Þetta á bæði við um evrópska og asíska framleiðendur og margt gott að finna í flórunni sem rúllar af færiböndunum og út á göturnar þessa dagana. Í efri þrepum virðingarstigans er útspil Volkswagen smájeppi sem hlotið hefur nafnið T-Roc. Hér er um alveg nýtt módel að ræða og VW hefur tekist býsna vel upp í fyrstu atrennu.

Raunverulega sportlegur sportjeppi

Síðan Volkswagen varð uppvíst að því að hafa rangt við í útblástursprófunum hefur framleiðandinn tekið sig á og svarað ágjöfinni með því að rúlla út hverjum nýja bílnum á fætum öðrum. Hér er ekki aðeins átt við uppfærslur á borð við nýjan VW Touareg-jeppa heldur alveg nýja bíla; fólksbílinn Arteon, pallbílinn Amarok, sjö sæta jeppann Atlas og þann sem hér er til umfjöllunar, sportjeppann T-Roc. Þau hjá VW mega eiga það að hönnunardeildin þeirra fer mikinn þessa dagana því hver og einn framangreindra er hörkuflottur að sjá og ef aksturseiginleikar og búnaður er í takt við útlitið hjá hverjum bíl fyrir sig er gósentíð framundan, eftir nokkur erfið misseri í kjölfar útblásturshneykslisins. Þetta á klárlega við um T-Roc, smáan en knáan borgarjeppa sem er blessunarlega nógu sportlegur að sjá til að maður staldri við og skoði hann betur. Í fyrstu virðist hann náskyldur stóru bræðrunum Tiguan og Touareg en sé að gáð lumar hann á persónulegum einkennum sem ljá honum sterkan svip. Tvennt fangar augað öðru fremur; skemmtilega hannaðar ljósgjarðir utan um loftinntök í framstuðara, og svo reffilegur halli á afturrúðunni. Sé hliðarsvipur bílsins skoðaður sést þetta glögglega og hann fær dýnamískan svip fyrir bragðið, og minnti undirritaðan í svip á Porsche Macan hvað þetta varðar, sem er einmitt með talsvert meiri afturrúðuhalla en stóri bróðirinn Cayenne. VW T-Roc er fáanlegur í einum 17 litum og einnig með hvítt eða svart þak, eftir gerðum bílsins, og svarar þannig kröfum markaðarins um áberandi liti og yfirbragð.

Hressilegur allur að innan – í takt við óskir nútímans

Innanstokks er T-Roc með áþekkan svip og fleiri bílar sem komið hafa fram á sjónarsviðið hin seinni ár og eiga að mæta kröfum ungra kaupenda um lifandi, töff og nútímalega innandyrahönnun. Þannig er aðallitur bílsins einnig áberandi sem og umgjörð mælaborðsins og skondið að rifja upp að það sem þótti flippað fyrir fáeinum árum þykir engum tiltökumál í dag. Skærgulur, rauður eða blár litur í innréttingu hefði einhvern tímann þótt hálfgerður anarkismi í innanrými nýs bíls en er orðinn að staðalhönnun í dag þegar flokkur smærri fólksbíla og jepplinga er annars vegar. Þetta er út af fyrir sig glott og blessað, maður kippir sér ekki upp við þetta lengur og satt að segja kemur liturinn vel út í innréttingu T-Roc. Innréttingin er í öllum aðalatriðum bráðvel heppnuð, með alla þá snjalltengimöguleika sem ökumaður getur óskað sér og gott hljóðkerfi fyrir tónlistarunnendur. Stýrið er flott, í hófsamlegum „cut-off“ stíl (hefði jafnvel verið meira afgerandi í þá átt, í takt við hressilegar innréttingar) og stjórntæki öll skýrt og þægilega sett fram. Útsýnið er gott og það sem einna mest er um vert, það er ótrúlega rúmt um ökumann og farþega. Fótarými farþega í aftursæti er til að mynda hreint ótrúlegt.

Dúndurskemmtilegur í akstri

Það var með mikilli ánægju að undirritaður komst að því af eigin raun, er bíllinn var prófaður í síðasta mánuði í Lissabon og nærsveitum, að þau fögru fyrirheit sem útlit bílsins og innanrými gefa eru öll sömul efnd þegar ekið er af stað. Reyndar er farið fram úr væntingum þegar öflugasta vélin, heil 190 hestöfl, var prófuð og þá var glatt á hjalla á hraðbrautunum. T-Roc er ekki bara sprækur og meðfærilegur í akstri heldur er hann líka stórskemmtilegur á ferð og steinliggur á vegi. Reyndar er munur á mismunandi gerðum því VW býður, eins og framleiðandinn á hefð til, upp á fjölmargar vélarstærðir. Spannar úrvalið allt frá 115 hestafla þriggja strokka vél með eins lítra sprengirými upp í áðurnefnda 190 hestafla bensínvél. Ekki gafst færi á að prófa minnstu vélina, sem eflaust er fín til síns brúks, en bæði 150 og 190 hestafla bílarnir voru dúndurskemmtilegir, ekki síst sá síðarnefndi. Skiljanlega fylgir sá böggull þar skammrifi að verðið er talsvert hærra en á ódýrustu gerðunum. Verðið er nefnilega frá tæplega 3,3 milljónum og upp í rétt röskar 5 millur. Þess má í framhaldinu geta að í aflminnstu útfærslunum er bíllinn aðeins boðinn með framhjóladrifi, miðlungsvélarstærðin 150 hestöfl gefur kaupendum val um drifbúnað og öflugasta útgáfan er einungis í boði fjórhjóladrifin.

Hvaða gerð sem væntanlegir kaupendur kunna að kjósa sér þá er Volkswagen T-Roc einn allra skemmtilegasti kosturinn í sínum flokki, hinum sístækkandi „mini-crossover SUV“, sem prófaður hefur verið á þessum vettvangi, hörkubíll fyrir peninginn, og það sem vitaskuld mest er um vert – hann er hrikalega fallegur.

Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.790 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »