Góður bíll gerður betri

Nýtt ár hefur í för með sér nýja áfanga fyrir þýska sportbílasmiðinn Porsche. Er fyrsti fulltrúi þriðju kynslóðar af Porsche Cayenne-jeppanum að koma á götuna um þessar mundir, í þremur mismunandi útgáfum, Cayenne, Cayenne S og Cayenne Turbo. Víst er að nýgræðingurinn mun fara langt með að styrkja yfirburðastöðu Porsche í lúxusjeppaflokki enn frekar.

Hlýtur hann margt í arf frá forvera sínum en þó ólíkur líka því hann er byggður upp af nýjum undirvagni og klæðning er öll úr áli. Með því hefur tekist að létta bílinn um 65 kíló, miðað við forverann. Það ásamt öflugri vélum hefur skilað sér í afar snörpum og einstaklega skemmtilegum bíl sem í meðförum er lifandi og leikinn.

Á blaðamannafundi fyrir reynsluakstur Cayenne S á Krít sögðu talsmenn Porsche aksturseiginleika hins nýja bíls betri en forverans. Að því stuðlaði m.a. nýþróaður átta hraða gírkassi með tvöfaldri kúplingu, rafeindastýrt stöðugleika- og fjöðrunarkerfi þar sem loft hefur tekið við af þrýstivökva, öflugar nýjar bremsur og mismunandi stór dekk; breiðari að aftan, svipað og gerist um sportbíla. Er á þetta var látið reyna var ljóst að viðstaddir voru í engu sviknir um ágæti bílsins.

Hárnákvæmur í stýrinu

Hönnun hins nýja Cayenne er fágaðri en forverans en markar fremur framvindu þeirrar fyrri en byltingu. Þá er ekki loku fyrir það skotið að eitthvað hefur hún tekið mið af Macan-jeppanum og er ekki leiðum að líkjast. Undir skinninu er flest mjög breytt og tæknilegar nýjungar út um allt í vél- og öryggiskerfum bílsins.

Einstaklega athyglisverð viðbót í þessum nýja liðsmanni Porsche er að bíllinn beygir á öllum fjórum hjólum. Það skilar sér ekki aðeins í 60 sentimetrum minni beygjuradíus heldur sérdeilis nákvæmni í beygjum, öruggri rásfestu og afburða stöðugleika, t.d. þegar skipt er um akreinar á mikilli ferð. Afturhjólin vísa þó aldrei meira en þrjár gráður að hámarki til hægri eða vinstri, en samt munar um það. Svo vel hefur verkfræðingum Porsche tekist upp með rafeindastýrðan fjöðrunarbúnaðinn að aldrei hef ég ekið bíl með jafn skarpa stýrissvörun. Liggur við að stýrishjólið lesi hugsanir því ólíkt venjulegum bílum liðu engar millisekúndur frá því tekið var í stýrið og þar til bíllinn beygði. Hann svaraði á ljóshraða og það án þess að vagga og sannaði rafeindastýrð veltiviðspyrnan þar ágæti sitt. Þessa skemmtilegu kosti Porsche Cayenne S fékk ég tækifæri til að meta vel og rækilega í reynsluakstri í bröttum og bugðóttum þjóðvegum á austurhluta grísku eyjarinnar Krít, ekki bara á malbiki heldur og malarslóðum líka.

Góður utan vegar

Í snarbröttu landslagi Krítar fengust ákjósanlegar aðstæður til að prufukeyra Cayenne S. Betri áskorun og aðstæður fengust vart til að reyna á krafta jeppans og notagildi. Til utanvegaraksturs er sérstakur hamur valinn sem felur í sér að bíllinn lyftir sér um nokkra sentímetra. Rafeindastýringar vélbúnaðarins fylgjast og vel með átaki hjólanna og stýra því til að koma í veg fyrir skrik eða spól. Var klifur og lækkun á gróflega hrjúfum og þröngum krákustígum inn á milli ólífutrjáa leikur einn fyrir bílinn í þessari stillingu.

Á vegum úti gat Cayenne S-jeppinn rekið fram brjóstkassann, þanið hann út og staðið undir nafni. Fimlega fór hann um fjallabrekkurnar fyrir atbeina hinnar öflugu 2,9 lítra tvíforþjöppuðu vélar, sem rumdi af afli og lipurlegum afköstum þegar á þurfti að halda. Og stöðugleikakerfin svínvirkuðu. Hvernig sem reynt var fékk ég hann aldrei til að leita út undan sér eða yfirstýra í kröppum beygjum upp eða niður fjöllin þótt inn í þær væri sótt nokkuð hratt.

Minni en aflmeiri vélar

Nýþróaðar vélar sem bjóðast í hinum nýja Cayenne eru talsvert öflugri en í forveranum. Er um tvær bensínvélar að ræða, V6 og V8. Í grunnbílnum verður þriggja lítra hverfilblásin sex strokka vél er skilar 340 hestöflum, 40 fleirum en áður. Í öðru lagi 2,9 lítra sex strokka 440 hesta vél með tvöfaldri forþjöppu fyrir Cayenne S. Sú vél skilar S-bílnum á 100 km/klst ferð úr kyrrstöðu á niður í 4,9 sekúndur, eftir búnaði, en topphraði hans er 265 km. Þennan tíma má svo minnka um tvö sekúndubrot til viðbótar með sérstökum sportpakka. Þriðja útgáfan, Cayenne Turbo er með 550 hestafla V8 vél og tekur hinum fram að snerpu og afkastagetu. Í öllum tilvikum er að ræða nógsamlega mikið afl til að koma bílnum skjótt á góða ferð. Þótt aðeins sé boðið upp á bensínvélar í byrjun mun Porsche framleiða með tíð og tíma Cayenna með dísilvél og tvíorkuaflrás.

Allar útgáfur Cayenne-jeppans verða með virku fjórhjóladrifi og ökumaður hefur úr fjórum aksturshömum að velja eftir aðstæðum; normal, sport, sport plús og loks skraddarasniðinn ham að óskum bílstjórans. Hinn nýþróaði Tiptronic S gírkassi felur í sér hraðvirkari skiptingar en áður og sportlegri hlutföll í lægri gírunum, sem kemur sér vel bæði á vegum sem utanvegar. Ferðalög eru þægileg í efri gírum og yfirgírinn, sá áttundi og efsti, tryggir hagstæða eldsneytisnotkun og afslappaðan hraðbrautarakstur.

Eins og fyrr segir er Cayenne léttari en áður, vegur 1.985 kíló. Á ný tegund rafgeymis, litíumjóna fjölliðugeymir, sinn þátt í þyngdarminnkuninni, eða 10 kíló. Hjólahafið er hið sama og á forveranum, eða 2,895 metrar, en lengd bílsins er hins vegar 6,3 sentímetrum meiri. Það skilar sér í auknu innanrými og allt að 770 lítra flutningsrými, sem er 100 lítrum meira en í forveranum. Með því er þessi þægilegi og sportlegi alhliða kraftmikli jeppi hentugri til daglegs brúks en áður en stækkunin næst með tilfærslu aftursætabekkjarins.

Í arf frá Panamera

Að innanverðu hefur Cayenne fengið sama upplýsinga- og hljómkerfi sem þróað var fyrir Porsche Panamera, þar á meðal 12,3 tommu aðgerðaskjá. Venjulegur snúnings- og hraðamælir er í mælaborði en til hvorrar hliðar 7 tomma skjáir er sýna margskonar upplýsingar um aksturinn og vélkerfin sem ökumaður getur m.a. kallað fram á stýrishjólinu. Loks er að finna hitamyndavél sem greint getur dýr sem gangandi vegfarendur í myrkri.

Porsche Cayenne sá fyrst dagsins ljós 2002 og 15 árum seinna voru 770.000 jeppar á götunni af fyrstu tveimur kynslóðunum. Markaði bíllinn þáttaskil enda fyrsti lúxusjeppinn til að birtast á bílamarkaði. Nýi liðsaukinn býr yfir betra jafnvægi milli krafts sportbíls og þæginda ferðabíls auk betri akstursfærni utanvegar. Annars myndi ég ekki tíma að bregða mér mikið af vegunum á svona úrvalsbíl. Cayenne hefur alltaf verið bíll sem framleiðendur stórra lúxusjeppa hafa tekið mið af og reynt að keppa við. Keppinautar á borð við Range Rover Sport, BMW X5 og Mercedes-Benz GLE hafa hoggið nærri, en Cayenne hinn nýi skilur nú við þá, alla vega um sinn, með léttari, mjóslegnari, straumlínulegri og hraðskreiðari bíl. Eitt það besta við bílinn er að Porsche hefur gert góðan bíl betri.

agas@mbl.is

Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.790 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »