Lipur smájeppi frá Ford

Það er gömul saga og ný að bílaframleiðendur bjóða ekki bara upp á stallbak, hlaðbak, skutbíl og jeppa í vöruvali sínu heldur tugi mismunandi tegunda af bílum, allt frá smæstu smábílum til voldugustu jeppa.

Ford eru þar ekki eftirbátar annarra og sé heimasíða Ford á Íslandi skoðuð sést glöggt hve margir bílar eru í raun og veru í boði. Nú hefur þar bæst við valkostur að nafni EcoSport, og fellur hann í flokk einhvers staðar á milli fólksbíls og jepplings; yfirbyggingin er nett (EcoSport er um 50 cm styttri en Kuga stóra systir) enda bíllinn á sömu grind og Ford Fiesta, en um leið er veghæðin feikileg, svo vel hæfir jeppa.

Ekki leitað langt yfir skammt

Þegar hönnun EcoSport er skoðuð tilsýndar blasir við að hönnunardeildin hjá Ford hefur afráðið að sækja ekki vatnið yfir lækinn því bíllinn sver sig rækilega í ættina. Svipurinn er sá sami og á jeppunum Kuga og Edge og væri þeim þremur stillt upp hlið við hlið líktust þeir sjálfsagt einna helst rússneskum matryoshka-dúkkum, slík eru líkindin. Það er gott og blessað út af fyrir sig; undirrituðum hefur alltaf þótt lagið fara smærri jeppum Ford betur, Kuga er til að mynda að mínu mati fallegri en Edge, og þar af leiðir að EcoSport er í laglegri kantinum. Hönnunin er engin bylting en bíllinn býður af sér þokka þess sem er rammgert, þétt og traustverkjandi.

Þetta á einkum við framendann, ásjónu bílsins, þar sem fáu er yfir að kvarta nema kannski hversu lygnan sjó hönnunardeildin hefur ákveðið að sigla. Þessi stærðarflokkur bíla er sneisafullur af áhugaverðum kostum um þessar mundir og gerjunin hreint svakaleg, svo ef til vill hefði borgað sig að spila aðeins djarfar? Allt um það, afturendinn er á sömu bókina lærður og lumar reyndar á skemmtilegri gestaþraut sem kalla mætti „finndu út hvernig á að opna afturhlerann“. Það tók blaðamann smá stund af glápi og heilabrotum en loks hafðist það; húnninn er rækilega dulbúinn sem hluti af hægra afturljósi og er það býsna haganlega gert. Þegar afturhlerinn er loks opnaður blasir við farangursrými með hörkufínni opnun.

Stórbætt innrétting, fínt útsýni

Þeir sem muna upprunalega útgáfu Ford af EcoSport muna sem er að þar var ekki farin frægðarför. Hér kveður hins vegar við allt annan tón og þó að talsvert sé um plastið þá er innréttingin samt sem áður lagleg á að líta, með veglegan upplýsingaskjá og lágstemmda, smekklega hönnun. Tengimöguleikar eru bæði fyrir IOS- og Android-kerfi svo nútíminn er til staðar. Sætin eru fín, alltént leðursætin sem voru í bílnum sem prófaður var.

Ökumaður situr býsna hátt í EcoSport og útsýni hans er fínt til allra átta. Heldur þrengra er um farþega í aftursæti og fullorðnum finnst sjálfsagt að sér vegið þar, satt best að segja. Börn eru eftir sem áður í ágætis málum hvað plássið varðar. Farangursrýmið er 355 lítrar sem telst þokkalegt en ekkert meira en það.

Léttur og nettur í akstri

Bílar í þessum flokki hafa almennt fengið heitið „borgarjeppar“ hér á landi og sem slíkur er EcoSport fínn. Hann hefur ágætis upptak og togið á fyrsta hluta snúningssviðsins er ágætt en svo hægist um og hann er um 11 sekúndur í hundraðið. Það mun þó ekki skipta langstærstan hluta kaupendahópsins neinu máli. Þegar ekið er á stofnbrautum milli sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu siglir hann þægilega um þó að heldur sé veghljóðið áberandi. Þá tekur hann á sig nokkurn halla þegar farið er skarpt inn í hringtorg, til að mynda, enda þyngdarpunkturinn í hærra lagi.

Beygjuradíusinn er á hinn bóginn skemmtilega knappur sem gerir það að verkum að akstur um knappar götur, til dæmis í Þingholtunum, er leikur einn.

Það má þó vera að það standi þessum lipra smájeppa að einhverju leyti fyrir þrifum að bera orðið sport í nafni sínu, því hann er bara mátulega sportlegur hvað varðar útlit og aksturseiginleika, ekki síst þegar rifjað er upp að hann er byggður á grind hinnar framúrskarandi Ford Fiestu eins og framar greindi. Svo fremi sem ökumaður stillir væntingum í hóf og býst ekki við sprækum sportbíl eða bíl jafn leikandi í akstri og Fiestan er, og þá verðurðu að líkindum sátt/-ur við Ford EcoSport. Verðið er auk þess í skaplegra lagi, ekki síst með tilliti til staðalbúnaðar (á bilinu 2.750 þús. til 3.490 þús).

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: