Fullkomlega raunhæfur sem heimilisbíll

„Ég fékk Niro afhentan á flugvellinum í Nice til reynsluaksturs um sveitir Suður-Frakklands. Þrátt fyrir tæknilegt innvols er Niro við fyrstu sýn í raun merkilega venjulegur í útliti og lítur svona sirka nákvæmlega út eins og maður ímyndar sér hefðbundinn heimilisbíl í stærri kantinum, sem verður að mestu notaður í innkaupaferðir, skutl á íþróttaæfingar og annað snatt. Snotur, þó það drjúpi ekki af honum kynþokkinn. Þetta er allavega ekki bíll til að aka löturhægt niður Laugaveginn og baða sig í athygli.

Óvæntir aksturseiginleikar

Útlitið kallar kannski ekki á að aka löturhægt niður Laugaveginn …
Útlitið kallar kannski ekki á að aka löturhægt niður Laugaveginn og baða sig í athygli, en Kia e-Niro dugar vel til síns brúks sem farartæki heillar fjölskyldu.


Að því sögðu þá er rafútgáfan af Niro merkilega skemmtileg í akstri. Hann er líklega ekki að fara að vinna kappakstur en hröðunin er ekkert til að skammast sín fyrir; 7,8 sekúndur í hundraðið, og kom nokkuð skemmtilega á óvart fyrir bíl af þessari þyngd. Til að ná þessari drægni þarf eðlilega rafhlöðu í stærri kantinum sem vigtar heil 450 kíló, og allt í allt er bíllinn nærri 1.800 kíló. Þessi aukna þyngd hefur hins vegar sína kosti. Hönnuðir Niro komu rafhlöðunni fyrir undir gólfi bílsins, sem skilar sér í lægri þyngdarpunkti og því liggur rafbíllinn mun betur en tvinnútgáfur hans. Þetta uppgötvaðist á endalausum guðdómlega hlykkjóttum vegum í fjöllunum fyrir ofan frönsku Rívieruna. Þar var Niro settur í sviggírinn á rennisléttu lýtalausu malbiki og rúllaði í gegnum hverja beygjuna á fætur annarri á mun meiri hraða en ég hefði fyrirfram talið mögulegt. Samferðamenn mínir gáfust raunar upp á undan bílnum og lauk stórsviginu með töluverðri bílveiki.

Stillanleg sjálfskipting

Það tekur u.þ.b. eitt gott hamborgarastopp að fá 80% hleðslu.
Það tekur u.þ.b. eitt gott hamborgarastopp að fá 80% hleðslu.


Hér er játning væntanlega við hæfi. Þrátt fyrir að ég stappi nærri því að vera dvergvaxin, og sé ekki sérstaklega burðug líkamlega þá er einn líkamshluti hlutfallslega í töluverðri yfirvigt: bensínfóturinn. Og árið 2018 (og væntanlega um ókomin ár) þá er ekkert sérstaklega smart að eyða tugum lítra af bensíni á hverja hundrað kílómetra bara vegna þess að maður á erfitt með að hemja sig að spítta á milli ljósa eða beygja á kröppum fjallvegum. Ökuníðingar þessa heims ættu því að gleðjast yfir rafbílavæðingunni, þar sem slíkt aksturslag er ekki nándar nærri jafn slæmt á rafbíl og bensínhák. Niro, eins og rafmagnsbíla er siður, hleður orku aftur inn á rafhlöðuna þegar bremsað er. Með stöng á stýrinu er hægt að skipta milli nokkurra stiga sjálfvirkrar hemlunar þegar fæti er lyft af inngjöfinni, og með hana á efstu stillingu skilaði Niro til baka merkilega miklu af þeirri orku sem fór í svigið. Raunar lækkaði hún sáralítið, talan í mælaborðinu sem sýnir þá kílómetra sem eftir eru af drægni, og stundum minna en sem nam akstri. Vopnuð þessum upplýsingum spændi ég fram úr endalausum hópum af spandexklæddum hjólreiðamönnum, sem þvældust fyrir á fjallvegunum án minnsta snefils af samviskubiti, enda alveg jafn umhverfisvæn. ,,So long suckers!“

Kemst jafn langt og hann segir

Skottið er mjög rúmgott og hægt að fella aftursætin niður.
Skottið er mjög rúmgott og hægt að fella aftursætin niður.


Uppgefin drægni Niro er sem fyrr segir 455 kílómetrar, og það samkvæmt nýjum og nákvæmari mælingum sem ætlað er að sýna raunhæfari drægni en verið hefur. Þrátt fyrir að hafa haft takmarkaða trú á því að það stæðist þá verður að segjast að drægnin lækkaði almennt í nokkuð beinu hlutfalli við ekna kílómetra, og það þrátt fyrir að bíllinn hafi í ferðinni sjaldnast verið stilltur á annað en sport mode, orkufrekustu stillinguna. Ólíkt bensínbræðrum sínum eyða rafmagnsbílar minna innanbæjar þegar þeir geta endurheimt hluta orkunnar, og í slíkum akstri er uppgefin drægni Niro allt að 615 kílómetrar. Það er því hæpið að fólk lendi mikið í því að keyra um með lífið í lúkunum og fimm kílómetra eftir á mælinum í leit að næstu hleðslustöð. Gerist það hinsvegar er hægt að hlaða Niro upp í 80% á um fimmtíu mínútum í hraðhleðslustöð, svona sirka einu hamborgarastoppi í næstu vegasjoppu.

Innandyra er Niro afskaplega rúmgóður, og ætti auðveldlega að geta farið vel um fjóra fullorðna og allt þeirra hafurtask í langferðum. Sökum þess hvar rafhlaðan er staðsett situr ökumaður eilítið hærra í raf-Niro en tvinnútgáfum bílsins, sem veitir gott útsýni yfir veginn. Bíllinn er, verandi rafknúinn, hljóðlátur og veghljóð, sem oft vill verða ærandi þegar ekkert er vélarhljóðið til að skyggja á það, er merkilega lítið. Niro er líka ríkulega útbúinn af öryggiskerfum og hinni ýmsu aðstoð við ökumann. Skynjarar nema til dæmis akreinamerkingar og hægt er að stilla bílinn þannig að hann leiðrétti stefnu sjálfkrafa sé hann að fara út af akrein án þess að stefnuljós hafi verið gefið.

Snjall skriðstillir

Ökumaður situr örlítið hærra en í sprengihreyfilsútgáfunum.
Ökumaður situr örlítið hærra en í sprengihreyfilsútgáfunum.


Þá er hann búinn svokölluðu ,,smart cruise control“ sem heldur fyrirfram ákveðinni fjarlægð frá næsta bíl og bremsar eftir þörfum án aðstoðar ökumanns. Það viðurkennist að mér leið alls ekki vel þegar bæði þessi kerfi voru prófuð í einu á 130 kílómetra hraða á franskri hraðbraut. Hvort tveggja virkaði hinsvegar prýðisvel og bíllinn sveigði þegar þurfti og hægði á eða gaf í eftir þörfum. Þetta þýðir þó ekki að ökumaður geti ráðið krossgátur í langferðum, því bíllinn minnir á sig sleppi maður stýrinu of lengi. Öryggiskerfi bílsins nemur líka athygli ökumanns, og bendir honum á að taka sér kaffipásu þyki hún vera orðin takmörkuð.

Niro ætti að vera fullkomlega raunhæfur kostur sem fyrsti bíll á heimili, með næga drægni, gott pláss fyrir farþega og farangur og fínustu aksturseiginleika. Ég kvaddi Niro og hlykkjóttu fjallvegina sem við höfðum spænt gegnum saman að minnsta kosti með töluverðum söknuði. Enda ekki á hverjum degi sem maður hittir bíl sem er hægt að keyra eins og bavíani, með góðri samvisku, og án þess að hafa áhyggjur af því að enda rafmagnslaus úti í móa.

Snyrtilegt hólf fyrir hleðslusnúruna, svo hún flækist ekki fyrir.
Snyrtilegt hólf fyrir hleðslusnúruna, svo hún flækist ekki fyrir.
Rafvæddur Niro kemst nokkurn veginn eins langt á hleðslunni og …
Rafvæddur Niro kemst nokkurn veginn eins langt á hleðslunni og hann segir.
Upplýsingagjöf til ökumanns er góð og margt sem hjálpar við …
Upplýsingagjöf til ökumanns er góð og margt sem hjálpar við aksturinn
Réði e-Niro vel við franska fjallavegi.
Réði e-Niro vel við franska fjallavegi.
E-Niro sýnir vel þær miklu framfarir sem orðið hafa í …
E-Niro sýnir vel þær miklu framfarir sem orðið hafa í smíði rafmagnsbíla á undanförnum árum.
Drægi bílsins er sýnt skýrt og greinilega í leiðsögukerfinu.
Drægi bílsins er sýnt skýrt og greinilega í leiðsögukerfinu.








Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: