Kaggi fyrir keisara

Bíllinn er kominn með sjálfstæða fjöðrun að framan sem nýtur …
Bíllinn er kominn með sjálfstæða fjöðrun að framan sem nýtur sín vel í betri aksturseiginleikum á malbikinu. mbl.is/​Hari

Að áeggjan félaga míns ákvað ég að prófa í fyrsta skipti að aka Bláfjallahringinn svokallaða milli jóla og nýars. Veðrið var ekki upp á það besta, rigningarsuddi og hávaðarok og vegurinn grófur eins og gamalt og slitið þvottabretti með fjölmörgum, risastórum drullupollum inn á milli. Þetta væri nú vart í frásögur færandi nema vegna þess hve óvenju vel akandi ég var þessi áramótin.

Ég hafði fengið lánaðan til reynsluaksturs hinn endurhannaða lúxusjeppa Mercedes Benz G-500, G-Wagon, eitt helsta djásnið úr herbúðum Benz og bílaumboðsins Öskju. Bílinn er hægt að fá frá um 23 milljónum, en ég naut þeirra forréttinda að fá hann ríkulega sérútbúinn sem gerði akstursreynsluna óneitanlega enn dýpri og eftirminnilegri. Með þeim búnaði var verðið komið í á fjórða tug milljóna.

Áður en lengra er haldið verð ég að upplýsa að ég hef verið með annað augað á G-Class bílum um árabil því tengdafaðir minn hefur átt, ekki bara einn svona bíl heldur tvo, geri aðrir betur! Bíllinn er ævieign ef vel er með hann farið, sannkölluð „fasteign á hjólum“, svo notuð séu fræg einkunnarorð Volvo.

G-Wagon kom fyrst á götuna árið 1979 og er því með allra elstu bílum á markaðinum með nánast sama útliti alla tíð. Eins og glöggt má sjá á myndunum sem fylgja þessari grein er hann ekki ósvipaður hertrukki í útliti en Benz hélt sem betur fer tryggð við þetta útlitseinkenni við algjöra endurhönnun bílsins, þá fyrstu síðan árið 2002.

Í örsnöggri yfirferð yfir Wikipediu-síðu G-Class komst ég að því að farartækið var einmitt upphaflega þróað fyrir herinn eftir ábendingu frá sjálfum Íranskeisara, en hann ku hafa verið stór hluthafi í Mercedes fyrirtækinu á sínum tíma.

Saumarnir á bak og brott

Eins og ég minntist á hér að framan er 2019 módelið endurhannað frá grunni, og bíllinn er lengri og breiðari en eldri árgerðir, sem allt saman kætir hreintrúaða Benz-aðdáendur. Því meira af þessum bíl því betra! Þó G-Class hafi alltaf verið aðdáunarverður í útliti, er þó eitt og annað smálegt sem pirrað hefur eigendur, mismikið þó auðvitað eftir því hver á í hlut. Einn af göllunum í eldri árgerðum eru til dæmis sýnileg samskeyti og saumar í yfirbyggingunni, sem hafa verið gjörn á að ryðga. Úr þessu hefur nú verið bætt og yfirbyggingin er meira og minna sett saman úr heilum einingum. Þá er framrúðan nú límd í framstykkið sem einnig er kostur, af sömu ástæðu.

Það væri annars að æra óstöðugan að telja upp allar þær úrbætur sem gerðar hafa verið á bílnum, svo margar eru þær, en ég mun að sjálfsögð tæpa á nokkrum í viðbót hér rétt á eftir.

Snúum okkur aftur að akstrinum rétt sem snöggvast. Nú hef ég ekið í nokkrar mínútur á Bláfjallahringnum. Gripið er frábært og spólvörnin heldur mér á mottunni. Rúðuþurrkurnar standa sig prýðilega þó að vatn og eðja frussist upp á rúðuna. Ég skima reglulega eftir góðum stað til smella bílnum í lága drifið og láta hann príla upp eins og eina litla brekku og sýna þar hvers hann er megnugur. Leyfa honum að njóta sín sem þess torfærutrölls sem hann raunverulega er undir fáguðu yfirborðinu, en hægt er að læsa öllum drifum í bílnum.

Þar sem ég ek nú á næstum kolólöglegum hraða eftir sveitaveginum birtist á honum miðjum agnarsmár Suzuki Jimny smájeppi sem þráast við að hleypa stóra bróður framúr. Það fékkst þó fram að lokum.

Á þessu óbyggðaferðalagi mínu nýttist sú frábæra nýjung að bíllinn er kominn með sjálfstæða fjöðrun að framan, sem gerði lífið meira en bærilegt í þessum groddalegu aðstæðum, rétt eins og raunin var á malbikinu.

Myndavél í grilli og undir varadekki

Myndavélar eru að sjálfsögðu hringinn í kringum bílinn sem auðvelda ökumanni alla stjórnun, og meira að segja kviknar á myndavél framan á grillinu á bílnum þegar sett er í lága drifið, til að auðvelda allt utanvegabrölt. Myndavélin aftan á bílnum hefur verið færð á betri stað neðan við varadekkið, en fyrri staðsetning fyrir ofan dekkið, var ekki nógu heppileg. Myndir úr myndavélunum eru skýrar og góðar, og nutu sín vel í afþreyingar- upplýsingakerfinu í mælaborði bílsins sem er einfaldlega það flottasta og aðgengilegasta sem ég hef séð. Um það fjallaði ég á síðasta ári þegar ég reynsluók Benz A-Class, og óþarfi að fara í sömu smáatriði hér, þó að í G-Class sé eitt og annað fleira í boði, eins og ýmsar stillingar er snúa að utanvegaakstri. Android Auto og Apple Carplay eru þarna einnig til að tengja farsímana við bílinn.

Margir af þeim sem dáðust að bílnum með mér meðan ég var með hann í láni, veltu upp þeirri þversagnakenndu spurningu, hvort að maður myndi fara í alvöru torfærur á þessum bíl. Myndi maður t.d. þvera Krossána og aka inn í Þórsmörk á bíl sem kostar tugi milljóna króna. Svarið var oftast nei, sem auðvitað er dálítið súrt ef út í það er farið, því bíllinn er einmitt svo einstaklega fær í slíkum aðstæðum.

Þar sem flestir nota bílinn 99% tímans á malbiki, er rétt að dvelja ekki lengur á honum úti í óbyggðum. Á leiðinni heim keyrði ég Reykjanesbrautina, og ákvað að prófa öll þau sjálfvirku stjórntæki sem eru í boði, eins og að láta bílinn elta næsta bíl, Cruise-control, og alla nálægðarvara, og veglínutitrara, sömuleiðis. Skemmst er frá því að segja að ég þurfti hvorki að snerta bremsur né bensíngjöf fyrr en ég var kominn nálægt Kaplakrika í Hafnarfirði. Á leiðinni kveikti ég á nuddinu í sætunum, prófaði fjölmargar stillingar sem í boði voru, hækkaði tónlistina í botn og lét fara vel um mig.

Bílinn er stór og þungur eins og gefur að skilja, um 2,4 tonn, en þar sem vélin er um 422 hestöfl, er þyngdin engin fyrirstaða. G-Class geysist upp í 100 km hraða á klukkustund á aðeins 5,9 sekúndum með sínum dáleiðandi og kappaksturslegu drunum, og níu þrepa sjálfskiptingin sýnir hvers hún er megnug. Í snattinu innanbæjar reyndist bíllinn sömuleiðis sérlega lipur.

Á G-Wagon ertu einfaldlega keisari götunnar, og það er engin tilviljun að keisarafjölskylda samfélagsmiðlanna, Kardashian fjölskyldan bandaríska, ekur svona bifreiðum.

Handbremsan orðin að takka

Hvað daglega umgengni við G-Class varðar þá er gott höfuðpláss bæði frammi í og að aftan, og glæsileiki innra byrðisins endurspeglast í því að allt er leðurklætt frá toppi til táar. Bílinn er hár, þannig að maður þarf að grípa í hann og toga sig upp til að komast í sætið, en á móti er það frábær kostur að sitja jafn hátt og raun ber vitni. Veghljóð er lítið, og útsýni er gott.

Innra byrðinu hefur verið umbylt eins og öðru í þessum bíl og til dæmis er fyrirferðarmikil handbremsan í miðjunni nú orðin að litlum takka. Gott geymslupláss er komið milli sæta, og sömuleiðis tveir glasahaldarar, til viðbótar við rúmgóða vasa fyrir vatnsflöskur í hurðum.

Eins og ég drap á hér á undan þá var bíllinn „minn“ búinn nuddsætum, og þau var hægt að bæði hita upp og kæla niður. Eitt það eftirminnilegasta við sætin er þó hliðarstuðningur sem þau veita í beygjum, en best er að lýsa því þannig að þér líður eins og einhver standi fyrir aftan þig og styðji við þig í hverri beygju. Mjög skemmtilegur eiginleiki.

Nýjung er að farþegar í aftursæti geta stillt hita og loftstreymi sem og hita í sætum.

Það er nánast óþarfi að minnast á það, en skottið býr yfir frábæru plássi. Bensínlokið er enn farþegamegin, en flestir nýir bílar eru með það bílstjóramegin. Hurðirnar eru enn nokkuð þungar og stífar þrátt fyrir nýja hönnun, en sá eiginleiki er að segja má eitt af einkennum þessa bíls. Lenti ég nokkrum sinnum í því að ná ekki að loka þeim nógu vel. Ég þarf greinilega að taka betur á því í ræktinni!

Það kitlar hégómagirndina að láta horfa á sig öfundaraugum úti á götu, og það er einmitt það sem ég upplifði þessa fáu daga um síðustu áramót, innanbæjar og utan, á þessum einstaka lúxusjeppa frá Benz.

Nýr Mercedes-Benz G-Class

» 4,0L V8 bensínvél

» 422 hö / 610 Nm

» 9 þrepa sjálfskipting

» Frá 0-100 á 5,9 sek.

» 210 km/klst hámarkshraði

» Fjórhjóladrifinn

» 18“ álfelgur

» Eigin þyngd: 2.429 kg

» Farangursrými: 454 l

» Mengunargildi: 263-276 g

» Eyðsla: 11,5-12,1 l/100 km

» Verð frá: 23.180.000

Vel fer um bílstjóra og farþega í bílnum. Hiti, kuldi …
Vel fer um bílstjóra og farþega í bílnum. Hiti, kuldi og nudd er í leðurklæddum sætum. mbl.is/​Hari
Ljósin á bílnum voru með í glæsilegri endurhönnuninni auk þess …
Ljósin á bílnum voru með í glæsilegri endurhönnuninni auk þess sem rúðuþurrka að aftan hefur fengið betri stað sem og myndavél. mbl.is/​Hari
Vel fer um bílstjóra og farþega í bílnum. Hiti, kuldi …
Vel fer um bílstjóra og farþega í bílnum. Hiti, kuldi og nudd er í leðurklæddum sætum. mbl.is/​Hari
Farangursgeymsla Mercedes-Benz G-Class.
Farangursgeymsla Mercedes-Benz G-Class. Haraldur Jónasson/Hari
Vélarhólf Mercedes Benz G-Class.
Vélarhólf Mercedes Benz G-Class. mbl.is/​Hari
Mælaborðið í Mercedes Benz G-Class er með þvi flottasta sem …
Mælaborðið í Mercedes Benz G-Class er með þvi flottasta sem í boði er. mbl.is/​Hari
Mælaborðið í Mercedes Benz G-Class er með þvi flottasta sem …
Mælaborðið í Mercedes Benz G-Class er með þvi flottasta sem í boði er. mbl.is/​Hari
Mælaborðið í Mercedes Benz G-Class er með þvi flottasta sem …
Mælaborðið í Mercedes Benz G-Class er með þvi flottasta sem í boði er. mbl.is/​Hari
Allt er fágað í Mercedes Benz G-Class.
Allt er fágað í Mercedes Benz G-Class. mbl.is/​Hari
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: