Hæfilegur skammtur af fútti

Ekki amaleg fjölskyldumynd. Corolla í þremur útfærslum með dómkirkjuna í …
Ekki amaleg fjölskyldumynd. Corolla í þremur útfærslum með dómkirkjuna í Palma í baksýn. Úthugsuð mottan í skottinu er gott dæmi um skemmtilega nálgun Toyota við hönnun bíla. Ljósmyndir/Ásgeir Ingvarsson og Toyota

„Ekki fleiri leiðinlega bíla“ – skrifaði Akio Toyoda í orðsendingu til starfsmanna Toyota fyrir nokkrum árum. Akio, forstjóri fyrirtækisins og barnabarnabarn Kiichiro Toyoda sem stofnaði japanska iðnaðarrisann árið 1937, hafði kveikt á perunni: þó svo að bílarnir frá Toyota séu þekktir fyrir gæði, endingu, og notagildi þá þarf góður bíll að vera meira en þægilegur og öruggur málmhólkur sem flytur fólk frá A til B.

Akio sá væntanlega að eins og stundum vill gerast hjá risafyrirtækjum hafði skapast sú tilhneiging hjá Toyota að forðast allar öfgar og áhættu; fara hinn lítt spennandi meðalveg. Vandinn við meðalveginn, eins öruggur og hann gæti virst í fyrstu, er að ökumenn þyrstir í smá fútt: þeir vilja bíl sem fær hjartað til að slá örar. Ökutæki sem gerir ferðalagið skemmtilegra.

Eins og Japana er von og vísa biðu undirsátar Akio ekki boðanna, og sést það vel á nýjustu kynslóð Toyota Corolla, sem blaðamenn fengu að skoða á Mallorca á dögunum. Er varla hægt að finna leiðinlegan fersentimetra á nýju Corolunni, hvort sem hún er í hlaðbaks-, stallbaks- eða skutbílsútfærslu.

Þvert á móti: Innra með mér býr lítill jakkafataklæddur japanskur skrifstofumaður (sem stundum heldur að hann sé samúræi). Þegar ég þykist vera óttalega fyndinn brýst hann fram við mismikla kátínu heimilismeðlima og talar eins og Mickey Rooney gerði í hlutverki hr. Yunioshi í myndinni Brekfast at Tiffany‘s.

Þar sem ég sá nýja Corollu-hlaðbakinn á bílastæðinu við flugvöllinn í Palma, kyssilega rauðan með svörtu þaki, heyrði ég litla skrifstofumanninn segja, af mikilli innlifun: „suuuuge!“

Suge, fyrir þá sem ekki vita, er japönsk upphrópun sem mætti lauslega þýða sem bræðing af „æðislegt!“ og „en frábært!“

Með öryggisbúnað úr dýrum lúxusbílum

Eins og með flesta nýja bíla í dag er yfir fáu að kvarta í nýju Corolunni. Engir áberandi vankantar, akstursupplifunin fín og krafturinn hæfilegur. Eigandinn fær heilmikið fyrir peninginn, allt er úthugsað og eins og það á vera. Að setjast í ökumannssætið minnir á að bregða sér í klæðskerasniðna skyrtu: allt er á sínum stað, hvorki of né van. Hljóðkerfið prýðilegt, leiðsögukerfið ágætt, og olli það mér helst ama að treglega gekk að fá sjálfvirku hraðastillinguna til að virka.

„Wabi-sabi“ hvíslaði japanski skrifstofumaðurinn, og vísaði þar til þeirrar japönsku lífsspeki að það býr viss fegurð í því þegar hlutir eru ekki alveg gallalausir.

Á móti kemur að Corolan er hlaðin fullkomnum öryggisbúnaði sem fyrir aðeins nokkrum árum var aðeins hægt að finna í dýrustu lúxusbifreiðum og þá aðeins ef búið var að borga heilmikið aukalega fyrir. Þannig eru fjarlægðarskynjarar framan á bílnum sem senda viðvörun ef hætta er á árekstri við bíl eða vegfaranda, og undirbúa hemlana til að grípa af krafti þegar stigið er á bremsuna. Og ef ökumaður bregst ekki við þá hemlar Corollan sjálf – hægir ýmist ferðina eða stoppar með öllu. Sjálfvirk hraðastilling (e. adaptive crusie control) er líka staðalbúnaður, og myndavélar sem vakta umhverfið vara við ef ökumaður virðist vera að skipta um akrein án þess að hafa gefið stefnuljós. Getur Corollan meira að segja hér um bil ekið sér sjálf, fylgt umferðinni og haldið sig innan akreina. Ef vegamerkingar eru ekki nógu greinilegar, eins og er allt of alengt á íslenskum vegum, eltir kerfið einfaldlega næsta bíl á undan.

Þar með er upptalningunni fjarri því lokið og er t.d. búið að gera yfirbygginguna þannig að hún er í senn 60% stífari, þökk sé nýrri hönnun og smíðaaðferðum, og tekur betur við og dreifir höggum á allar hliðar. Meira að segja húddið er þannig úr garði gert að það gefur eftir – fjaðrar næstum því – til að draga úr högginu ef ökumanni tækist einhvern veginn, þrátt fyrir allar varnirnar, að rekast utan í gangandi vegfaranda.

Motta sem leynir á sér

Ef ætti að finna einn veikleika í viðbót, þá er það að rafhlöðurnar sem fylgja tvinn-vélinni ganga á rýmið í skottinu, svo að á tvinn-hlaðbaknum er á mörkunum að pláss sé fyrir eina ferðatösku í fullri stærð án þess að fella þurfi niður bökin á aftursætunum. Gæti því þurft að beita aðferðum japanska mínimalistans Marie Kondo þegar raðað er í skottið, handleika hvern hlut og hugsa: „kveikir hann gleði?“ Eða einfaldlega aðra vélargerð, því valið stendur á milli 1,8 l og 2,0 l tvinn-véla annars vegar og 1,2 l og 1,6 l túrbó-bensínvéla hins vegar, með allt niður í 3,3 l eldsneytisnotkun á hundraðið og allt upp í 132 hestöfl.

En talandi um skottið, þá verðskuldar farangursmottan sérstaka athygli. Raunar verðskuldar hún hönnunarverðlaun, og er rannsóknarefni af hverju bílahönnuðum hugkvæmdist ekki fyrir lifandis löngu að gera svona sniðugar mottur. Margir lesendur kannast við þann vanda að setja þarf alls kyns hluti í skottið: viðkvæma muni sem ekki má rispa eða óhreinka, jafnt sem molduga blómapotta, blautar vöðlur og kafloðna hunda með forugar loppur. Hingað til hefur þurft að velja á milli þess að annaðhvort hafa á gófli skottsins grófa plastmottu sem ræður við óhreinindin, eða mjúka mottu sem fer betur með fínu ferðatöskurnar.

Lausn Toyota er nokkurs konar Homeblest-motta, sem er góð báðum megin. Á annarri hliðinni er hún teppalögð, með því að snúa mottunni við kemur í ljós óhreinindavæn plastmotta. Hvílík gargandi snilld!

Toyota Corolla Tólfta kynslóð

» 1,8l / 2,0 l tvinnvél

eða 1,2 l / 1,6 l bensínvél með forþjöppu

» 90/132/85/97 hestöfl

» Fæst bæði bein- og

sjálfskiptur

» Minnst 3,3 l /100 km

í blönduðum akstri

» 0-100 km / klst minnst 7,8 sek. með 2,0 l tvinnvél

» Hámarkshraði 180 km/klst. tvinn, 200 km/klst. bensín

» Framhjóladrifinn

» Dekk: ýmsar stærðir

í boði

» Eigin þyngd frá 1.185 kg til 1.370 kg

» Farangursrými frá 313 l til 598 l með aftursætin uppi

» Koltvísýringslosun frá 101 g/km með tvinnvél,

en frá 132 g/km með

bensínvél m.v. WLTP

» Hlaðbakur frá: 3.990.000 kr.

» Stallbakur frá: 3.990.000 kr.

» Skutbíll frá:

4.190.000 kr.

Skutbíllinn á að henta vel fólki með virkan lífsstíl, með …
Skutbíllinn á að henta vel fólki með virkan lífsstíl, með pláss fyrir hundinn, hjólið og hnakkinn. Ljósmyndir/Ásgeir Ingvarsson og Toyota
Ökumaður er eins og blóm í eggi á bak við …
Ökumaður er eins og blóm í eggi á bak við stýrið.
Eins og sést er ágætis pláss í skottinu á bensínútgáfu …
Eins og sést er ágætis pláss í skottinu á bensínútgáfu hlaðbaksins.
Aftursæti hlaðbaksins henta ekki leggjalöngum.
Aftursæti hlaðbaksins henta ekki leggjalöngum.
Toyota Corolla
Toyota Corolla
Toyota Corolla
Toyota Corolla
Toyota Corolla
Toyota Corolla
Nýja Corollan ætti að falla vel í kramið hjá íslenskum …
Nýja Corollan ætti að falla vel í kramið hjá íslenskum kaupendum.
Upplýsingagjöf til ökumanns er til fyrirmyndar.
Upplýsingagjöf til ökumanns er til fyrirmyndar.
Framrúðu-skjárinn sýnir m.a. leyfilegan hámarkshraða.
Framrúðu-skjárinn sýnir m.a. leyfilegan hámarkshraða.
Hlaðbakurinn er svo sannarlega töffaralegur í útli.
Hlaðbakurinn er svo sannarlega töffaralegur í útli.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: