Tæknitröll í fögrum umbúðum

Nuddsæti, sem fást sem aukabúnaður, eiga að hjálpa til að …
Nuddsæti, sem fást sem aukabúnaður, eiga að hjálpa til að draga úr þreytu á langferðum. mbl.is/​Hari

Eins og flest úr smiðju Mercedes Benz gerir nýr GLE heilmikið fyrir augað, og nær að vera nokkuð rennilegur þrátt fyrir stærðina. En GLE er bæði lengri og breiðari en áður, og í fyrsta sinn fáanlegur í sjö sæta útgáfu.

Innandyra er hann eins og hann á kyn til: vandaður, og efnisval allt fyrsta flokks í farþegarými. Rúmt er um ökumann og farþega, sætin eru til mikillar fyrirmyndar og bjóða til að mynda upp á einhvers konar smánudd með aukabúnaðinum Energizing Coach. Hann á meðal annars að slá á þreytu í langferðum, og reyndist nuddið hið þægilegasta í löngum bíltúr út á land. Hugbúnaðurinn fylgist með líðan ökumanns og aðlagar þægindakerfi bílsins að honum.

Takk fyrir takkana!

Nýi GLE er fyrsti jepplingurinn með upplýsinga- og afþreyingarkerfið MBUX, sem var fyrst kynnt til sögunnar í fyrra í minnsta bróðurnum í Benz-fjölskyldunni, A Class. MBUX-kerfið lærir smám saman inn á ökumann og aðlagar viðmótið að hegðun hans. Leggur til dæmis leiðina í vinnu á minnið og getur stungið upp á fljótlegri leið heim lendi maður í umferðarteppu. Ég er afskaplega hrifin af útfærslu Benz á upplýsinga- og afþreyingarskjánum, en tveir skjáir mynda eina samfellu frá mælaborði og yfir á snertiskjá þar sem hægt er að stjórna nánast öllu í bílnum með einum fingri. Stýrikerfið er sömuleiðis vel heppnað, bæði áferðarfallegt og aðgengilegt. Það gladdi samt mitt litla hjarta þegar ég uppgötvaði að Benz-menn hafa ekki farið þá leið að útrýma heiðarlegum tökkum alveg úr stjórnrýminu, en fyrir neðan skjáinn er hægt, til dæmis, að stjórna hitastiginu í bílnum upp á gamla mátann. Vilji maður ekki káma út stjórnborðið er líka hægt að stjórna flestu frá stýrinu, eða nota raddstýringu.

Aðstoðarkona með unglingaveiki

Ég hef áður talað um stormasamt samband mitt við ungfrúna sem svarar þegar maður ávarpar bílinn: ,,Hey Mercedes“. Stundum brýst unglingurinn í henni út og þá þarf að þrábiðja hana um aðstoð við dagleg verk eins og að skipta um útvarpsstöð, hækka í miðstöðinni eða finna fljótustu leiðina heim. Í hlutverki leiðsögumanns á hún það líka til að vera með stórkostlega vafasamt mat á því hvenær beygja telst kröpp, og mætti taka því með fyrirvara þegar hún varar mann við ,,smá“ beygju fram undan. Heilt yfir er Mercedes þó afskaplega viðmótsþýð og hjálpfús, og samskiptin myndu vafalaust batna við lengri viðkynningu.

Í fyrstu verður nýr GLE einungis fáanlegur með 245 hestafla dísilvél, en verður síðar í boði með bensínvél og í tvinn-útfærslu. Hestaflatalan fær hjartað svosem ekki til að slá mikið hraðar, en hann er einhvern veginn sprækari en hestafjöldinn gefur til kynna og vélin virðist hæfa þessum bíl ágætlega ef svo má að orði komast. Þá er GLE drekkhlaðinn öryggisbúnaði og akstursaðstoð, ýmist í formi staðal- eða aukabúnaðar. Til að mynda getur þrívíddarmyndavél greint veginn framundan og aðlagað dempara til að draga úr hossi á holóttum vegum. Þá geta tengivagnafælnir ökumenn valið hugbúnað sem stýrir beygjuhorni sjálfkrafa gagnvart aftanívagni, og fengið þannig aðstoð við að bakka hjólhýsinu á sinn stað af sjálfsöryggi og yfirvegun.

Mercedes-Benz GLE

» 2,0 l dísil

» 245 hestöfl/500nm

» Sjálfskiptur 9G-Tronic

» 6,1 l/100 km

» 0-100 km/klst. á 7,2 sek.

» Hámarkshraði 225 km/klst.

» Fjórhjóladrifinn

» Dekk 275/50 R20

» Þyngd 2.170 kg

» Farangursrými 690 l

» Koltvísýringslosun 161 g/km

Verð frá 11.350.000 kr.

Upplýsingaskjárinn er sérdeilis vel heppnaður.
Upplýsingaskjárinn er sérdeilis vel heppnaður. mbl.is/​Hari
Mercedes Benz GLE
Mercedes Benz GLE mbl.is/​Hari
GLE virkar sprækari en hestaflatalan myndi fá mann til að …
GLE virkar sprækari en hestaflatalan myndi fá mann til að búast við. mbl.is/​Hari
Bensín og tvinn-útfærslur eru væntanlegar áður en langt um líður.
Bensín og tvinn-útfærslur eru væntanlegar áður en langt um líður. mbl.is/​Hari
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: