Í góðum tengslum

Suzuki Across
Suzuki Across mbl.is/Kristinn Magnússon

Samvinna og samstarf er manninum bæði eiginlegt og nauðsynlegt. Það hefur sannast í kórónuveirufaraldrinum. Samstaða um einangrun hefur þar skipt miklu, en í staðinn hittumst við á netfundum, ráðum ráðum okkar, grátum og hlæjum eða skiptumst á skoðunum.

En af hverju að byrja bílagrein á þessum hjartnæmu og tilfinningaþrungnu nótum? Jú, sá sem hér er til umfjöllunar er fyrsti afrakstur samstarfs tveggja japanskra bílaframleiðenda: Toyota og Suzuki. Ökutækið heitir Suzuki Across, en þegar því er ekið undir fána Toyota heitir það RAV4 Plug-in Hybrid.

Segja má til gamans að nafnið Across vísi einnig til samveru og tengslamyndunar. Bifreiðin ferjar okkur „yfir“ og „á milli“ til funda með vinum, ættingjum eða samstarfsfólki.

Kemst 75 kílómetra á rafmagni

Sjálfur kom ég lítt undirbúinn, grímuklæddur og kaldur inn í sýningarsal Suzuki í Skeifunni eftirmiðdag einn í nóvember til að sækja bílinn, í þeim tilgangi að fá reynsluakstur yfir helgi. Þegar ég hafði skimað yfir salinn rak ég fljótlega augun í Acrossinn, og fyrsta hugsunin var hvernig á því stæði að samkeppnisaðili hefði smyglað sér inn í sýningarsalinn. Ekki leið þó á löngu þar til ég komst að því hvernig í pottinn var búið, auk þess sem mér var sagt að samstarfið væri í raun tvíhliða. Suzuki fær Toyota-bíla en Toyota fær Suzuki-bíla til að selja undir eigin merki.

Eins og nafnið gefur til kynna er Suzuki Across sportjeppi sem brennir jarðefnaeldsneyti en nýtir sér einnig rafmagn. Því hleður hann inn á sig á ferð, en einnig er hægt að stinga honum í samband í þartilgerðar hleðslustöðvar, heima og heiman. Á rafmagninu einu saman má aka honum 75 kílómetra, eins og tilgreint er í kynningarefni með bílnum.

Grillið skilur bílana að

Áður en ég fer út í nánari útlistanir á bílnum er best að geta þess helsta sem skilur bílana tvo að, annað en það augljósa, að Suzuki-merkið sé komið upp þar sem Toyota-merkið var áður. Stóri munurinn er grillið, en framendinn á Suzuki skartar mun stærra grilli en Toyotan gerir, og gefur bílnum þar með sterkara og meira einkennandi Suzuki-yfirbragð. Þá er stýrið ólíkt, en aðrir hlutir eru minna sýnilegir.

Verð Suzuki Across er rétt tæpar 8,6 milljónir króna, sem er álíka verð og er á RAV4-bílnum hjá Toyota. Miðað við uppgefna meðaleyðslu upp á einn lítra á hundraðið, og miðað við þægindin sem boðið er upp á í bílnum, þá má segja að verðið sé viðunandi, enda vegur eldsneytissparnaðurinn upp á móti. Auk þess er bíllinn vistvænni en bílar sem eingöngu ganga fyrir jarðefnaeldsneyti.

Einhver gæti velt fyrir sér hvorn bílinn eigi að kaupa, Across eða RAV4. Þar gæti fyrrnefnt úlitsatriði ráðið einhverju um, eða einfaldlega þjónustustig umboðanna, ímynd og eða tryggð kaupenda við annað hvort fyrirtækið.

Heldur vel utan um mann

Upplifun mín af því aka bílnum þann tíma sem ég hafði hann var góð. Þetta er bíll sem „heldur vel utan um mann“ í ýmsum skilningi þess orðs. Maður finnur fyrir öryggi, ekki bara út af öllum nýmóðins akstursvörnunum, heldur fylgir akstrinum ákveðin mýkt og trauststilfinning, hvort sem er í kröppum sveigjum eða í lengri siglingu úti á vegi.

Sætin eru þægileg, úr gervileðri, svört með rauðum röndum. Innréttingin er öll í sama stíl, dökk með rauðum saumum, líkt og maður kannast við úr öðrum japönskum farartækjum. Þessi bílaþjóð er þekkt fyrir gott handverk.

Mér finnst alltaf betra að hafa meiri kraft en minni í bílum. Hér skortir ekki aflið. Þrjú hundruð og sex hestöfl ættuð úr 2,5 lítra vél bifreiðarinnar.

Ökutækið er á nítján tommu gæjalegum álfelgum, og skarpar línur einkenna ytra útlitið. Upp í hugann koma eldingar, örvar og ofurhetjur, sem gefa mér þá kennd að bíllinn sé hvikur í akstri, nútímalegur, með á nótunum og til í allt.

Across er búinn margvíslegum þægindum. Til dæmis er hægt að sveifla fætinum undir bílinn að aftan til að opna hlerann. Það er einkar þægilegt þegar maður er með fangið fullt af dóti. Sætin frammi í eru rafdrifin, sem er alltaf mikill lúxus og það sama má segja um hita í sætum og stýri.

Opnast er tekið er í húninn

Aðgengi að og ræsing á bílnum er lyklalaust, og til dæmis opnast hann við það eitt að grípa í húninn. Bifreiðin stöðvast sjálfkrafa þegar hún finnur fyrirstöðu að framan, sem er eitt af mörgum öryggistækjum í Across.

Í innra rýminu er nóg pláss fyrir flöskur og dósir, hvort sem það er í hurðum, á milli sæta eða í niðurfellanlegri brík í miðju aftursætinu. Hanskahólf er ekki stórt, en það er bætt upp með opinni hillu fyrir ofan hólfið. Hillan hentar einkar vel undir sóttvarnagrímur og latexhanska á þessum síðustu og verstu tímum.

Pláss frammi í og aftur í er prýðilegt, hvort sem er fyrir fætur eða höfuð, og útsýni ágætt einnig.

Hvort sem þú ert að fara upp í bústað að vetrarlagi, eða í matarinnkaup á sólríkum sumardegi með rúðurnar skrúfaðar niður, ertu í fínum málum á Suzuki Across. Þetta er fyrirmyndar-samstarfsverkefni, sem selst að mér skilst eins og heitar lummur þessa dagana.

Suzuki Across GLX

» Stærð rafhlöðu: 18,1 kWh

» Vél: 2,5L Plug-in Hybrid

» Gerð gírskiptingar: E-CVT (sjálfskiptur)

» Drifbúnaður: E-Four

» Afl: 306 hestöfl - Rafmótorinn að framan skilar 134kW og 270Nm togi

» Rafmótorinn að aftan skilar 40kW og 121Nm togi

» Hröðun: 0-100 km/klst. - 6

» Hámarskhraði: 180

» CO2 losun: 22 g/km

» Eyðsla í blönduðum akstri: Rafdrægni 75 km. Meðaleyðsla: 1.0

» Eigin þyngd: 1.940 kg.

» Stærð farangursrýmis: 490 lítrar - 1.604 lítrar

» Umboð: Suzuki

» Verð eins og prófaður: 8.590.000 kr.

Suzuki Across
Suzuki Across
Suzuki Across
Suzuki Across mbl.is/Kristinn Magnússon
Suzuki Across
Suzuki Across
Suzuki Across
Suzuki Across
Suzuki Across
Suzuki Across mbl.is/Kristinn Magnússon
Suzuki Across
Suzuki Across
Suzuki Across
Suzuki Across
Suzuki Across
Suzuki Across mbl.is/Kristinn Magnússon
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: