Rennileg raforkubifreið

Lexus kemur inn á rafbílamarkaðinn með japanskan lúxuspakka og hyggst …
Lexus kemur inn á rafbílamarkaðinn með japanskan lúxuspakka og hyggst í leiðinni opna 160.000 hraðhleðslustöðvar í Evrópu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Nýleg könnun J.D. Power á vörumerkjatryggð eigenda lúxusbifreiða leiddi í ljós að engir eru eins trúir sínu merki og eigendur Lexus-bíla. Í öðru og þriðja sæti eru eigendur Mercedes-Benz og BMW.

Niðurstaðan segir manni að þó að sæmilegt úrval sé af hreinum rafbílum í lúxusbílaflokki eru sterkar líkur á að þeir eigendur Lexus-bifreiða sem aðhyllast orkuskipti hafi setið á strák sínum og beðið með að uppfæra sig yfir í hreint rafmagn, þar til þeirra menn mættu til leiks. Og nú hefur það einmitt gerst, því Lexus UX 300e-rafmagnsbíllinn er kominn á markaðinn.

Undirritaður fékk að aka „Premium“-útgáfu bílsins á dögunum (mið–útgáfunni) og varð ekki fyrir vonbrigðum. Þessi sami blaðamaður þykist vita sitthvað um Lexusa eftir að hafa farið alla leið til sólskinsparadísarinnar Ibiza að skoða gamla og nýja Lexus-bíla á sínum tíma.

Byggður á Lexus UXsportjeppanum

Þessi allra fyrsti rafmagns-Lexus er byggður á Lexus UX-sportjeppanum vinsæla og sækir í 15 ára reynslu framleiðandans af gerð tvinnbíla. Lexus hefur verið leiðandi á því sviði en árið 2005 varð Lexus fyrstur lúxusbílaframleiðenda til að bjóða upp á sjálfhlaðanlegan tvinnbíl, Lexus RX 400h.

Eins og segir í kynningarefni nýja bílsins er tímasetning innkomu hans á markaðinn hárnákvæm. Japanskir framleiðendur biðu að því er virðist þolinmóðir eftir því að hleðsluinnviðir yrðu nógu þroskaðir til að Lexus-eigendur þyrftu ekki að óttast orkuleysi.

Lexus ætlar reyndar að leggja sín þungu lóð á vogarskálarnar í þessum efnum því fyrirtækið hyggst byggja upp stærsta rafhleðslunet í Evrópu með 160 þúsund hleðslustöðvum á næstu misserum, í samstarfi við leiðandi aðila á því sviði, Digital Charging Solutions GmbH.

7,5 sekúndur í hundraðið

En nú er best að hætta þessu rausi og setjast undir stýri á þessum gæðafák. Ég set hann umsvifalaust í sport-akstursstillinguna og það skiptir engum togum að hann rífur sig af stað eins og viljugur klár. Það tekur hann einungis 7,5 sekúndur að ná hundrað kílómetra hraða á klukkustund. Mýktin í akstri er til fyrirmyndar, hann liggur vel í beygjum og er lipur í hvívetna.

Það væsir heldur ekki um mann í Takumi-handverksleðursætunum, en þau eru jafn þægileg og þau eru lagleg.

Þar sem ég lét augun renna yfir stjórnklefann rak ég fljótlega augun í ASC-stillinguna (Active Sound Control) vinstra megin við stýrið og þrýsti á hnappinn. ASC hermir eftir vélarhljóði í venjulegum bíl og til dæmis þegar maður gefur bílnum vel inn er hljóð spilað úr hátalara á bak við mælaborðið sem á að herma eftir alvöru drunum. Eðli málsins samkvæmt gefur rafbíll ekki frá sér neitt vélarhljóð. Satt að segja heyrði ég lítinn mun, hvort sem ég var með þetta kveikt eða ekki.

Lauflétt snerting

Sjáöldur mín reikuðu einnig upp í loftið og staðnæmdust við smekklega hönnuð lesljósin, en þau eru einkar þægileg í notkun. Aðeins þarf lauflétta snertingu til að kveikja og slökkva á þeim.

Bíllinn er að sjálfsögðu búinn öllum helstu viðvörunar- og eftirlitskerfum, eins og akreinavörum og myndavélum. Upplýsingaskjárinn er smekklegur og stýring á miðstöðinni er aðgengileg. Hægt er að geyma tvær flöskur í miðjunni hjá gírstönginni og einnig er pláss fyrir flöskur í hurðum.

Lexus gengur töluvert langt í því að færa manni fjölbreytt stjórntæki fyrir upplýsingakerfið, útvarpið o.s.frv. Til dæmis hefur ökumaður takka og tól rétt við fingurgómana þegar hann hvílir hægri höndina á geymsluhólfinu á milli sætanna, en einnig er stýrisspjald í miðjunni. Persónulega finnast mér öll þessi tæki til að stjórna sömu hlutunum stundum vera aðeins of mikið af því góða.

Hanskahólfið í bílnum er frekar lítið, en skottrými er stærra en í venjulegum UX: 367 lítrar í þeim rafmagnaða miðað við 320 lítra í hefðbundnum UX.

Í aftursætinu er sæmilega rúmt um tvo fullorðna, höfuðpláss og fótarými er ágætt og í miðjunni er hægt að fella niður brík og leggja frá sér drykki. Bíllinn opnast sjálfkrafa þegar gengið er að honum; nóg er að snerta húninn.

USB-tengi eru frammi í og aftur í og allir ættu að geta hlaðið síma sína á ferð vandræðalaust.

18 tommu felgur

Það þarf enginn að skammast sín fyrir að láta sjá sig á þessum bíl. Ytra byrðið er einstaklega gæjalegt með 18 tommu felgum og hið einkennandi teinagrill. Bíllinn býður upp á fjarstýrðan afísingarbúnað og miðstöð, eitthvað sem Íslendingar kunna vafalaust vel að meta.

Hægt er að hlaða ökutækið frá 0-80% á 50 mínútum í hraðhleðslu, en í heimarafstöð má fullhlaða á átta klukkustundum.

Bíllinn er kannski ekki sá ódýrasti en minnst búna útgáfan kostar 8,5 milljónir króna. Lexus segir að eigendur fái peningana fljótt til baka, miðað við verðlag í Bretlandi, því þeir spari um 500 þúsund kall á ári í eldsneytiskaup (3.000 pund), og hér á landi er sú tala líklega eitthvað hærri.

Uppgefin dægni bifreiðarinnar er 315 km. Gaman er að skoða og bera saman verð per kílómetra á vefsíðunni veldurafbil.is, þar sem drægninni er deilt í verð ökutækisins. Þar má sjá að Lexus UX 300e stendur eðlilega töluvert langt að baki smærri bílum á þennan mælikvarða, en er í námunda við bíla eins og Jaguar I Pace, Audi e-tron 50 Quattro og Tesla Model S Plaid. Verð á hvern kílómetra í drægni Lexus UX 300e er 26.952 kr.

Ef lesandi er Lexus-manneskja geri ég fastlega ráð fyrir að hann hafi áhuga á þessum nýja rafbíl, en fyrir hina, þá gæti Lexus UX 300e líka verið spennandi kostur, einkum vegna þess hve vel búið ökutækið er að innan, ásamt því að vera tandurhrein og rennileg raforkubifreið.

Lexus UX 300e

» Stærð rafhlöðu: 54 kWh

» Gerð gírskiptingar: Direct CVT þrepalaus sjálfskipting

» Drif:Framhjóladrifinn

» Afl (hö og Nm): 204 hestöfl, Rafmótorinn skilar 150kW og 300 Nm togi

» Hröðun 0-100 km/klst.: 7,5

» Hámarskhraði: 160 km/klst.

» CO2-losun g/km: 0

» Rafdrægni: 305 km

» Eigin þyngd: 1.680 kg

» Stærð farangursrýmis (sætisbök upprétt frá gólfi upp í loft): 486 lítrar

» Umboð: Lexus Ísland

» Grunnverð: 8.490.000 kr.

» Verð eins og prófaður: 9.390.000 kr.

Bifreiðin er á 18 tommu felgumsem gerir mikið fyrir útlitið.
Bifreiðin er á 18 tommu felgumsem gerir mikið fyrir útlitið. mbl.is/Kristinn Magnússon
Sjálfvirkt háljósakerfi hjálpar öku-mönnum að koma fyrr og betur auga …
Sjálfvirkt háljósakerfi hjálpar öku-mönnum að koma fyrr og betur auga ágangandi vegfarendur og bíla í myrkr mbl.is/Kristinn Magnússon
Undir húddinu eru 204 hestöfl. Mótorinn skilar 150 kW og …
Undir húddinu eru 204 hestöfl. Mótorinn skilar 150 kW og 300 Nm togi. mbl.is/Árni Sæberg
Skottrýmið í Lexus UX 300e er meira en í venjulegum …
Skottrýmið í Lexus UX 300e er meira en í venjulegum Lexus UX. mbl.is/Kristinn Magnússon
Gírstöngin fer vel í hendi. Í bílnum er Direct CVT …
Gírstöngin fer vel í hendi. Í bílnum er Direct CVT þrepalaus sjálfskipting.
Það væsir ekki um mann í Takumi-handverksleðursætunum.
Það væsir ekki um mann í Takumi-handverksleðursætunum. mbl.is/Árni Sæberg
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: