Nýr á landinu og stendur keikur

Highlander var kynntur til sögunnar á Íslandi á þessu ári …
Highlander var kynntur til sögunnar á Íslandi á þessu ári en hann hefur átt góðu gengi að fagna í Bandaríkjunum undanfarna áratugi. Enn bætist því í mikla flóru svokallaðra E-SUV bíla á landin mbl.is/Árni Sæberg

Toyota Highlander var kynntur í fyrsta sinn í Vestur-Evrópu í janúar á þessu ári. Þessi bíll hefur notið mikilla vinsælda víða um heim frá því hann kom fyrst á markað um aldamótin, og þá ekki síst í Bandaríkjunum.

Jeppinn stendur Íslendingum til boða í þremur útgáfum, í röð eftir aukabúnaði og verði: GX, VX og svo Luxury-útgáfan. Fékk blaðamaður að reyna VX-útgáfuna í nokkra daga.

Þegar gengið er að Highlander er fyrsta hugsunin sú að hann hafi öfluga eða sterka nærveru, ef þannig má að orði komast um bíla almennt. Hann stendur keikur og það er erfitt að týna honum á bílastæðinu, þar sem afturendinn er ef til vill mest áberandi eða einkennandi fyrir bílinn. Hliðarspeglarnir halla sér sjálfkrafa út á við þegar bíllinn er tekinn úr lás.

Gott útsýni og nóg af plássi

Stórt og skínandi Highlander-merki mætir manni á gólfinu við hliðina á sætinu um leið og maður opnar bílstjóramegin. Og þegar sest er í ökumannssætið situr maður hátt og nýtur góðs útsýnis yfir umferðina í allar áttir. Sæti bílstjóra er mjög þægilegt og rafstýringin virkar vel til að haga því eftir eigin smekk, en í VX- og Luxury-útgáfunum man sætið eftir stillingum ökumanna. Þar að auki er farþegasætið fremst rafdrifið sömuleiðis, í sömu útgáfum.

Aftursætin eru að sama skapi rúmgóð og nóg pláss fyrir lúna fætur á löngum bílferðum. Færa má aftursætin auðveldlega fram og aftur á sérstökum sleða, ásamt því að bakinu má halla bæði aftur á bak og fram á við.

Sjálfstæður mótor að aftan

Highlander er í flokki svokallaðra E-SUV-bíla, þar sem Land Cruiser hefur óneitanlega verið í forystu hvað varðar vinsældir hér á landi undanfarna áratugi. Með útgáfu Highlander hér á landi býður Toyota því upp á enn fleiri lausnir í einum kröfuharðasta og vinsælasta bílaflokknum.

Vélin er 2,5 lítra blendingsvél, knúin bensíni og rafmagni. Þessi blendingur er þó frá Toyota sem þýðir að það er bíllinn sjálfur sem býr til það rafmagn sem knýr hann svo áfram. Hann býður því ef til vill ekki upp á sams konar eldsneytissparnað og þeir blendingar sem stungið er í samband til að hlaða. Saman skila bensínið og rafmagnið 244 hestöflum. Kerfið notar auk þess rafmótor að aftan, sem vinnur sjálfstætt frá aðalrafmótornum, til að beina auknu afli til afturhjólanna og vinna gegn því að framhjólin missi grip.

Jeppinn býður upp á þægilegt rými fyrir allt að sjö fullorðna, með góðu fótarými við öll sæti. Farangursrýmið er hægt að aðlaga eftir þörfum með því að leggja niður aðra eða þriðju sætaröð og búa þannig til meira pláss. Rými upp á heila 1.909 lítra fæst þannig með því að leggja niður báðar aftari sætaraðirnar, auk þess sem þá eru meira en tveir metrar frá afturhlera og að framsæti.

Í raun vantar hvergi pláss til að geyma ýmiss konar hluti. Fyrir framan framsætin er fjöldi góðra hólfa sem til þess eru gerð. Á milli framsætanna er sömuleiðis mjög djúpt og mikið farangurshólf. Efst í því er þráðlaus hleðslustöð, þar sem ekki þarf að gera annað en að leggja símann á stamt yfirborðið og ýta á takka, þá er síminn farinn að hlaða sig. Hleðslustöðin er staðalbúnaður, sem kemur satt að segja á óvart. Hún kemur flestum án efa vel að notum.

Þrjár akstursstillingar

Jeppinn er rúmar átta sekúndur upp í hundraðið og þá munar töluvert um Sport-stillinguna, þar sem hröðunin er tilfinnanlega meiri. Velja má á milli þriggja stillinga; Normal-, Eco- og Sport-, og stillir bíllinn aksturseiginleika og afkastagetuna eftir því sem bílstjórinn sækist eftir. Hægt er að nota allar akstursstillingarnar með EV-stillingunni til að gera aksturinn um leið hljóðlátari og útblásturslausan í það sinn, en það ræðst auðvitað af hleðslu rafhlöðunnar og öðrum akstursskilyrðum.

Gljáandi viðarklæðning að innan kemur fallega út að mati blaðamanns. Skjárinn fyrir miðju er átta tommur að stærð, þar sem koma má fyrir feikimiklum upplýsingum. Í Luxury-útgáfunni stækkar hann þó í 12,3 tommur, þar sem meðal annars má stýra 11 hátalara JBL-hljóðkerfinu sem fylgir þeirri útgáfu. Óhætt er að segja að það láti vel finna fyrir sér. Hinar útgáfurnar láta sér nægja sex hátalara, þótt uppfæra megi kerfið án þess að hækka sig um útgáfu.

Afturhlerinn tekur við sér

Í öllum útgáfunum er þó að finna staðalbúnaðinn Apple Carplay og Android Auto, en reynsla ökumanns hefur sýnt að hugbúnaður Apple getur reynst algjört þarfaþing, enda kominn frá til þess gerðu fyrirtæki frekar en sem aukaafurð bílaframleiðanda. Afturhlerinn sér um að loka sér sjálfur, ef stutt er á til þess gerðan takka. Hann tekur þó einnig við sjálfur og lokar, ef bílstjórinn gleymir því á hvaða öld hann lifir og byrjar að loka af eigin handafli.

Í akstrinum liggur Highlander vel á veginum og svarar hratt og örugglega þegar tekið er í stýrið. Ekkert svokallað dautt svæði til að tala um, og ökumaður fær þá tilfinningu að hann hafi góða stjórn á bílnum. Stýrið er líka létt í hendi sem gerir það að verkum að manni finnst bíllinn ekki endilega svo stór, þótt hann sé það vissulega. Veghæðin sæmir einnig öflugum sportjeppa en hún er 20,3 sentimetrar.

Þrátt fyrir afl og stærð bílsins er eyðslan samt hófleg eða frá 5,8-8,2 lítrum á hverja 100 kílómetra. Blendingsfyrirkomulagið gerir þetta meðal annars að verkum, það er þegar bíllinn fer niður á við getur hann hætt að nota jarðefnaeldsneytið og þess í stað hlaðið inn á sig rafmagni, og sömuleiðis þegar hemlað er.

Vel einangraður

Hljóðeinangrunin er mjög góð og heldur sér vel líka þegar bíllinn er kominn á mikinn hraða. Þegar á heildina er litið er Highlander stór sportjeppi með ágæta aksturseiginleika og mikið innanrými, og akstursupplifunin mjög ánægjuleg. Forvitnilegt verður að sjá hvernig þessum bróður Land Cruiser verður tekið hér á landi.

Toyota Highlander

» Árgerð 2021

» 2,5 lítra fjögurra strokka línuvél, knúin bensíni og rafmagni

» Rafstýrð stiglaus

gírskipting

»Fjórhjóladrifinn

» 244 Din hö. / 239 Nm

» 0-100 km/klst. á 8,3 sek.

» Hámarkshraði:

180 km/klst.

»CO2 : 149-163 g/km (blandaður)

» 6,6-7,2 l/100 km

(blandaður)

» Eigin þyngd:

2.015-2.130 kg

» Farangursrými. 305 til 838 l

» Umboð: Toyota á Íslandi

» Grunnverð:

10.690.000 kr.

» Verð eins og prófaður: 11.690.000 kr.

Nægt rými er í bílnum að aftan og hlerinn sér …
Nægt rými er í bílnum að aftan og hlerinn sér sjálfur um að opna og loka, jafnvel þó að bílstjórinn gleymi sér. mbl.is/Árni Sæberg
Highlander fæst í nokkrum litum hér á landi. Þetta eintak …
Highlander fæst í nokkrum litum hér á landi. Þetta eintak er prýtt gljáandi svörtum lit eins og myndirnar sýna. mbl.is/Árni Sæberg
Vélin er knúin áfram af hvoru tveggja bensíni og rafmagni. …
Vélin er knúin áfram af hvoru tveggja bensíni og rafmagni. Bíllinn býr sjálfur til rafmagnið á meðan ekið er. mbl.is/Árni Sæberg
Stöndugur afturendi er einna mest einkennandi fyrir útlitið.
Stöndugur afturendi er einna mest einkennandi fyrir útlitið. mbl.is/Árni Sæberg
Á milli framsætanna er feikimikið pláss og djúpt geymsluhólf.
Á milli framsætanna er feikimikið pláss og djúpt geymsluhólf. mbl.is/Árni Sæberg
Margmiðlunarskjárinn fyrir miðju er átta tommur að stærð. Luxury-útgáfunni fylgir …
Margmiðlunarskjárinn fyrir miðju er átta tommur að stærð. Luxury-útgáfunni fylgir stærri skjár eða upp á 12,3 tommur.
Fella má niður báðar aftari sætaraðirnar til að fá allt …
Fella má niður báðar aftari sætaraðirnar til að fá allt að 1.909 lítra farangursrými.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »