Eins og djúpur sófi

NX kemur vel út í íslenskum aðstæðum, ekki síður en …
NX kemur vel út í íslenskum aðstæðum, ekki síður en sendnu landslagi Mallorca.

Eitt sinn var sagt um merkan klerk norðan heiða að hann væri svo virðulegur í fasi að það væri næsta víst að hann væri einnig virðulegur í svefni. Það er ekki lítið afrek. Þessi lýsing kom mér í hug þegar ég melti áhugaverðan reynsluakstur á Lexus NX síðastliðið haust á eyjunni Mallorca. Þar voru aðstæður allar hinar ákjósanlegustu, ekki aðeins vegna veðursældar heldur einnig vegna þess að þar má finna þokkalegar hraðbrautir en einnig þrönga sveitavegi, og furðu þéttbyggð þorp þótt landrýmið sé nægt. Það er eins og þéttingarstefna Reykjavíkurborgar hafi verið fundin upp á eyjunni fögru á Miðjarðarhafinu. Nú er ekki víst að Lexus kunni mér miklar þakkir fyrir að líkja NX við prest og vil ég ítreka að samanburðurinn er ekki nema á afar afmörkuðu sviði. Það hefur ekkert með hvítan og svartan búninginn (á einum hinna prufuðu bíla) að gera heldur aðeins þá staðreynd að þótt bílsmiðurinn hafi brotið undir sig nýjar lendur á bílamarkaðnum með þessari nýjustu kynslóð NX, þá heldur bíllinn í sérkenni Lexus, sem eru einmitt virðuleiki og mýkt í miklum mæli. Efist einhver um þessa nálgun mína hvet ég fólk til að setjast upp í bílinn og prófa rúðupissið á honum. Meira að segja það liðast af furðulegri mýkt upp á framrúðuna, án þess að það komi niður á markmiðinu með notkun þess; gluggaþvottinum sjálfum.

Hægt er að fá NX í ýmsum útfærslum, m.a. F-sport …
Hægt er að fá NX í ýmsum útfærslum, m.a. F-sport sem mun kæta ýmsa, þótt klassíkin heilli mig meira

Stóra skrefið

Eins og rætt hefur verið um á þessum vettvangi hafa margir klórað sér nokkuð í hvirflinum síðustu ár yfir því hvað Toyota og Lexus hafa stigið varfærin skref í átt til algjörrar rafvæðingar. Lengi vel var eins og fyrirtækið ætlaði sér einfaldlega að láta tvinntæknina, án utanaðkomandi hleðslu, duga en á því sviði hafa fyrirtækin haft mikla yfirburði, svo að segja í áratugi.

En auðvitað vissu allir innst inni að sú væri ekki raunin og tengiltvinnbílarnir hafa komið fram hjá Toyota og nú er væntanlegur til landsins hreinn rafbíll úr þeirri smiðju, bZ4X, og þá hefur Lexus nú þegar kynnt til sögunnar hreinan rafbíl undir merkjum UX.

Nýr kostur í stöðunni

Nú er komið að tengiltvinntækninni hjá Lexus og byggist að sjálfsögðu á góðum grunni þess sem Toyota hefur gert. Raunar byggist nýi NX-bíllinn á nýjasta undirvagninum sem tekur tillit til ólíkra orkugjafa og er nýttur í fleiri módelum hjá báðum fyrirtækjum. Nefnist hann TNGA (Toyota New Global Architecture). Þar hefur Japaninn farið sömu leið og fleiri framleiðendur á síðustu árum, þ.e. að einfalda framleiðsluna sem mögulegt er með því að kynna til leiks undirvagna sem nýst geta nokkuð ólíkum bílum, sem þó deila stærðarflokki.

Í þessari grein er sjónum fyrst og síðast beint að tengiltvinnbílnum, þ.e. NX 450h+, þótt blaðamaður hafi einnig prófað tvinnbílinn NX 350h. Af hverju er valið augljóst? Rafmagnið er að taka yfir. Langflestir velja nú kostinn þar sem hægt er að hlaða rafmagni á bíl, annaðhvort einvörðungu eða í bland við bensín/dísel, og flest bendir til að sú þróun muni auka hraðann á komandi misserum. Þar hjálpar ekki síst til að eldsneytisverðið hækkar og hækkar og á meðan Pútín hnyklar vöðvana gagnvart nágrönnunum við Svartahaf eru engar líkur á að það gefi eftir. Það var mikil upplifun að setjast upp í NX í fyrtsa sinn. Flest var kunnuglegt frá Lexus en það var gleðilegt að sjá stóran snertiskjáinn, ríflega 14 tommur (hægt er að fá bílinn með minni skjá en mér heyrist á höfðingjunum í Kauptúni að þeir hafi að mestu í hyggju að halda sig við stærri skjáinn, þeir eru vakandi fyrir því sem markaðurinn kallar eftir). En það var þegar lagt var í'ann sem leikar tóku að æsast. Það fyrsta sem gjarnan er nefnt, af þeim sem ekki eru hrifnir af Lexus, er að bílana skorti kraft. Og þótt sú gagnrýni sé stundum of stórkarlaleg, í ljósi þess að bílar á borð við RX státa af 313 hestöflum, þá eru allir meðvitaðir um að miðað við gæði, stærð og verð, þá hefur Lexus spilað á öðrum styrkleikum en hestaflatölum.

Það er kúnst að halda í klassíkina en bústa upp …
Það er kúnst að halda í klassíkina en bústa upp töffaraskapinn um leið. Þarna tekst það vel.

Rafmagnið gerir gæfumuninn

En þarna er hann kominn, NX með rafmótorinn sem grípur inn í að aftan til viðbótar við hefðbundið fjórhjóladrifið. Þar skapast snerpa sem gerir bílinn óvenju sportlegan og snaran í snúningum, sem svalar spyrnuþörfinni í landi þar sem nær aldrei er hægt að keyra hratt eða gefa í svo nokkru nemi! Einhverjir myndu svo ætla að með þessum aukna krafti (309 hestöfl samanborið við 244 í NX 350h) fylgdi minni áreiðanleiki eða kvikari stýring. En sama mýktin og yfirvegunin (og prestlegur virðuleikinn) heldur sér furðuvel. Maður upplifir á akstrinum að maður hafi mjög góða og nákvæma stjórn á tækinu og sýndi það sig m.a. í „bæjarröltinu“ á Mallorca. Sama tilfinning bjó um sig í snjónum hér heima, m.a. í Urriðaholti þar sem þrengslin á götunum eru slík að engu er líkara en reist hafi verið miðaldaþorp fyrir 21. öldina, ofan við Kauptúnið þar sem Lexusinn á einmitt heima.

Rafhlöðuyfirburðir

Eitt er að aka bíl sem er búinn rafmótor og bensínvél. Annað er að eiga við slíkan bíl dags daglega. Það þekkja þeir sem keyptu fyrstu XC90-jeppana frá Volvo sem búnir voru slíkri tækni. Það var rétt að menn stigju á bremsuna og þá var rafhlaðan tóm. En nú hafa framleiðendurnir hver á fætur öðrum kynnt til leiks raunverulegan valkost í rafmagninu og Lexus nýtir sér til hins ýtrasta þá þekkingu og hefð sem fyrirtækið býr yfir í þeim efnum.

Í samkeppni við framleiðendur á borð við BMW og Mercedes-Benz hefur NX yfirburði vegna ógnarstórrar rafhlöðunnar, ríflega 18 kWst. Til samanburðar er rafhlaðan í GLC aðeins 13,5 kWst og í X1 er hún aðeins 10 kWst og í X3 11 kWst. Hin raunverulega rafdrægni er mikil sökum þessa en einnig vegna þess að japanski bílasmiðurinn hefur fyrrnefnda þekkingu til að nýta raforkuna til hins ýtrasta. Þessi stærðarmunur á rafhlöðum er nokkuð sem fólk þarf að líta til þegar það metur ólíka kosti á markaðnum, m.a. með tilliti til verðs.

Í svokallaði Executive-útfærslu kostar bíllinn 10,9 milljónir. Það er auðvitað ekki lítill peningur en miðað við stærðarflokkinn sem hann fyllir er verðlagningin ekki út úr kú. Þá hefur greinilega verið tekin ákvörðun um að taka NX vel búinn til landsins. Má þar nefna að í þessari útfærslu er bíllinn með hituðu leðurklæddu stýri, fjarlægðarskynjurum að framan og aftan og rafdrifnum afturhlera með snertilausri opnun (sem Lexus kallar sparkopnun – væntanlega til að höfða til fótboltafólks). Þá er bíllinn einnig búinn sóllúgu, 360° myndavél og fyrrnefndum 14 tommu skjá.

Fyrir milljón til viðbótar má fara í F-sport-pakkann þar sem felgurnar stækka um tvær tommur í 20 og bíllinn er búinn sportfjöðrun og innanrými sem gerir eitthvað fyrir suma, en þó væntanlega fæsta; sportstýri, og framsæti með auknum hliðarstuðningi, svo sitthvað sé nefnt auk HUD-sjónlínuskjás og viðvörunarljósa í hliðarspeglum fyrir blindsvæði (sem reyndar er slíkur öryggisbúnaður að hann ætti að vera staðalbúnaður í öllum bílum).

14 tommu skjárinn í mælaborðinu miðju kemur mjög vel út …
14 tommu skjárinn í mælaborðinu miðju kemur mjög vel út og er töff.

Stærri en hann sýnist

Annað sem vert er að nefna varðandi NX tengist stærð bílsins. Hann fyllir stærðarflokk sem fólki finnst stundum vera „um ekkert“, þ.e. að þarna sé hvorki kominn fólksbíll né heldur jeppi. Og sannarlega er hann nettur og á að vera það. En hann er stærri en hann sýnist. Þar skiptir innanmálið vissulega öllu. Búið er að stækka NX í allar áttir frá fyrri kynslóð og rafhlaða virðist ekki hafa teljandi neikvæð áhrif á innanrýmið.

Bílstjóri og farþegi frammi í upplifa sig í fullvöxnum jeppa og hvaða manneskja, sem ekki teygir sig í átt að þriðja metranum, getur einnig látið fara vel um sig í aftursætunum, að því gefnu að það sé ekki önnur himnalengja í framsætinu og stilli það í allra öftustu stillingu.

Með nýjum NX 450h+ hefur Lexus rutt sér braut inn á nýjan markað. Hann er táknmynd þeirra breytinga sem Lexus og Toyota hafa nú boðað og ekki nema að litlu leyti hrint í framkvæmd á markaðnum.

Það er ekki ósennilegt að Lexus muni með þessu eignast nýja aðdáendur og að eigendahópurinn yngist að ráði.

Skottplássið er gott og mjög drjúgt þegar aftursæti eru felld …
Skottplássið er gott og mjög drjúgt þegar aftursæti eru felld niður.

Lexus NX 350h AWD

» 309 hestöfl

» 18,1 kWst rafhlaða

» 200 km hámarkshraði

» 135 km hámarkshraði á

rafmagni

» 6,3 sek. í 100 km hraða

» Eyðsla í blönduðum akstri:

1,1 lítri á 100 km

» Drægni á rafhlöðu um 70 km

» Eigin þyngd 2.540 kg

» 554 lítra skottpláss

» Umboð: Lexus á Íslandi

» Verð frá 10.990.000 kr.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: