Allt maxað í Maxus

Maxus-merkið var stofnað árið 2011. SAIC-fyrirtækið sjálft var stofnað árið …
Maxus-merkið var stofnað árið 2011. SAIC-fyrirtækið sjálft var stofnað árið 1958. Maxus

Það var ágætistilbreyting að stíga upp í flugvél í byrjun mánaðarins, langþreyttur sem maður var orðinn og veðurbarinn eftir lægðahrinu síðustu vikna og mánaða, og fara á vit ævintýranna í Ósló, höfuðborg Noregs. Þar er veður jafnan mun stilltara og fyrirsjáanlegra en hér á Íslandi.

Í ljósi gífurlegra hækkana á jarðefnaeldsneyti síðustu daga og vikna vegna stríðsátaka í heiminum og fleiri áhrifaþátta var tilgangur ferðarinnar göfugur – að skoða hinn umhverfisvæna al-rafmagnaða jeppling frá Kína, Maxus Euniq6.

Það er gaman að bæta því hér við að Norðmenn eru komnir lengra en við Íslendingar í rafvæðingu bílaflotans. Hleðsluinnviðir styrkjast dag frá degi og 90% allra nýrra bíla sem seldust á síðasta ári voru rafbílar.

Stærsti skráði framleiðandinn

Kínverjar verða sífellt atkvæðameiri í framleiðslu rafbíla eins og á fleiri sviðum og margir þekkja vafalaust Polestar-bílinn sem framleiddur er þar í landi sem og MG og BYD svo einhverjir séu nefndir.

Framleiðandi Maxus er einmitt sá sami og framleiðir MG, SAIC Motor (Shanghai Automotive Industry Corporation) í Shanghai. Fyrirtækið, sem er í örum vexti og er stærsti skráði bílaframleiðandi í Kína með meira en 5,6 milljónir seldra ökutækja í heimalandinu eingöngu árið 2020, framleiðir einnig evrópska rafbíla fyrir kínverskan markað. Þá má geta þess að fyrirtækið er sjöundi stærsti bílaframleiðandi heims um þessar mundir.

Eins og fram kom í kynningu á bílnum hjá gestgjöfum mínum, RSA bílaumboðinu í Ósló, er Maxus-bíllinn orðinn söluhæsti rafbíllinn í Danmörku, en RSA fer með sölu bílsins á öllum Norðurlöndunum ásamt Póllandi. Er rífandi gangur á öllum vígstöðvum, samkvæmt forsvarsmönnum RSA.

Það er þægilegt að sitja í Euniq6 og auðvelt að …
Það er þægilegt að sitja í Euniq6 og auðvelt að fara inn og út. Hægt er að stilla framsætið á sex mismunandi vegu. Maxus

Kom síðasta haust

Forstjóri RSA sagði á kynningunni að fyrirtækið hefði byrjað með Maxus-merkið fyrir þremur árum á norska markaðnum og bíllinn hefði strax náð sterkri stöðu. Söluvöxtur væri mikill og góður en Maxus Euniq6 hóf síðan innreið sína á norska markaðinn síðasta haust.

Áður en fyrrnefnd kynning hófst, sem fór fram í húsakynnum elsta og virtasta golfklúbbsins í Noregi, og þótt víðar væri leitað, Oslo Golfklubb, gat maður barið fleiri stífbónaða Maxus-bíla augum. Norska sólin lék við alla viðstadda og það glampaði á glæsilegan bílaflotann.

Til dæmis var þarna alrafmagnaður og bráðlaglegur fimm manna pallbíl, Maxus e-T90, sem væntanlegur er á markaðinn undir lok þessa árs. Einnig var á stæðinu sjö manna „strumpastrætó“ sem er nú þegar kominn á markaðinn, bæði hér á Íslandi og annars staðar.

Enn fremur eru ýmsar aðrar týpur á leiðinni frá Maxus, atvinnubílar og fleira spennandi.

Maxus-jepplingurinn er hins vegar væntanlegur hingað til lands innan skamms, samkvæmt upplýsingum frá ferðafélögum mínum hjá Suzuki-umboðinu.

Fáir rafmagnaðir jepplingar

Á Íslandi hefur rafbílavæðingin gengið vel síðustu misseri og sífellt fleiri stökkva á þann vagn. Jepplingar hafa þó ekki verið fáanlegir í neinum mæli hingað til og því er það fagnaðarefni að þessi nýi Maxus nemi hér bráðum land.

Íslendingar eru og hafa lengi verið ákaflega ginnkeyptir fyrir jepplingum. Þeir standa hærra upp frá götunni, það er auðvelt að stíga inn í þá og fara út úr þeim og þeir ráða oft betur en hefðbundnir fólksbílar við ófærð og aðra veðurfarslega óáran eins og þá sem við höfum fengið góðan skammt af á landinu síðustu mánuði.

Fer 420 km

Euniq6 er með 70kWt rafhlöðu sem nær að fleyta bílnum 345 – 420 km á hleðslunni samkvæmt upplýsingum frá framleiðanda. Hann er 177 hestöfl og eigin þyngd er 2.285 kg. Það þýðir að bíllinn er nokkuð þungur og maður fann aðeins fyrir því í stuttum reynsluakstrinum eftir kynninguna, þótt akstursreynslan hafi verið alveg prýðileg. Maður átti auðvelt með að skilja af hverju bíllinn er jafn vinsæll í Noregi og Danmörku og raun ber vitni.

Eins og framleiðandinn ítrekar í öllum kynningargögnum var áhersla lögð á að „maxa“ sem flesta hluti, og má þar nefna innra rýmið, skottið, fótapláss og tækni þannig að sem mest fáist fyrir peninginn.

Í bílnum er sem sagt gott skott, 754 lítrar. Veghæðin er 19 sm, skotthlerinn er rafdrifinn og hægt að opna hann innan frá og í bílnum er 12,3 tommu snertiskjár með fínasta viðmóti. Okkur sem vorum í bílnum gekk þó ekki nógu vel að finna aðra útvarpsstöð en Gullbylgju þeirra Norðmanna, en það var svo sem ekki bílnum að kenna.

Maxus er hinn laglegasti bíll, enda nýtur hann mikilla vinsælda …
Maxus er hinn laglegasti bíll, enda nýtur hann mikilla vinsælda á Norðurlöndunum. Maxus

64 litir í boði

Bíllinn er 4.735 mm langur, 1.860 mm breiður og 1.736 mm hár. Hægt er að stilla ljósastemmninguna innandyra og velja þar á milli 64 lita, sem gæti gert aksturinn ákaflega ljúfan og rómantískan þegar kvölda tekur. Þá er hægt að stilla ýmsa fleiri hluti eins og til dæmis „fylgdu mér heim“ eiginleikann, þegar ljósin á bílnum lifa eftir að honum er lagt. Í boði er 30, 60 eða 90 sekúndna lýsing. Það ætti að hjálpa manni að komast klakklaust alla leið að útidyrunum með innkaupapokana, börnin og húslyklana í fanginu.

Þá er í bílnum boðið upp á Apple Car Play en ekkert leiðsögukerfi er innifalið. Því er eins gott að hver noti það sem hann er sjálfur með í símanum.

Bíllinn hleður sig í hraðhleðslustöð frá 30% til 80% á 35 mínútum sem mér finnst harla gott og boðið er upp á þráðlausa símahleðslu inni í bílnum.

Það er engu logið þegar sagt er að maður fái mikið fyrir peninginn því verðið er aðeins frá 379.900 norskum krónum, sem útleggst sem 5,6 milljónir íslenskra króna. Það finnst mér ekki vera neitt sérstaklega hátt verð fyrir nýjan rafbíl af þessari stærð.

Á kynningunni var bíllinn borinn saman við ýmis önnur og þekktari bílamerki eins og Volvo og þar mátti til dæmis sjá að bíllinn er 4,4 sm styttri en Volvo-jepplingur með svipaða holningu.

Að lokum er rétt að geta þess að Euniq6 er framhjóladrifinn, en von er á fjórhjóladrifinni útgáfu árið 2024.

Maxus Euniq6

» 130 kV rafmótor

» Framhjóladrifinn

» 177 hö/310 Nm

» Hámarkshr.: 160 km/klst.

» Koltvísýringslosun: 0 g/km

» Stærð rafgeymis: 70 kWst

» Drægni: 354 km í bl. akstri

(WLTP)

» Eigin þyngd: 1.885 kg

» Hæð undir lægsta punkt: 190 mm

» Farangursrými: 754 l

» Umboð: Vatt ehf.

/ Suzuki bílar

» Verð: Liggur ekki enn fyrir

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.090 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »