Mazda MX-5 sá traustasti

Í hinni árlegu úttekt breska bílaritsins What Car? og Warranty Direct á áreiðanleika bíla er það niðurstaðan, að traustasti bíllinn í Bretlandi í dag er Mazda MX-5. Athugunin náði til rúmlega 50.000 bíla.

Bilanatíðni hins sportlega japanska bíls var aðeins 4% en sá sem kom næstbest út var með 15% bilanatíðni. Með öðrum orðum biluðu aldrei 96% á Mazda MX-5. Bíllinn hlaut ennfremur traustleikaeinkunnina 8 sem er einkar góð í ljósi þess að meðaltal allra einstakra bílamódela reyndist 100. Því lægri einkunn því betri bíll.

Ofan á allt þetta var viðgerðarkostnaður MX-5 eigenda lægstur, eða aðeins 165 sterlingspund á ári.

Traustleikaeinkunnin er summa ýmissa þátta, svo sem bilanatíðni, viðgerðarkostnaðar, tíma sem bíll er úr notkun vegna viðgerða, aldurs og ekinna kílómetra.

mbl.is