Sameina mörg fyrirtæki á einum stað

Kolbeinn segir svæðið kjörið undir bílatengda starfsemi.
Kolbeinn segir svæðið kjörið undir bílatengda starfsemi. Eggert Jóhannesson

Nýr verslunar- og þjónustukjarni bílaáhugafólks er að taka á sig mynd í gamla Garðheimahúsinu við Stekkjarbakka 6 og verður opnaður þann 1. júní næstkomandi.

Kolbeinn Blandon, framkvæmdastjóri bílasölunnar Diesel.is, leiðir verkefnið og segir hann að hugmyndin sé að skapa stað þar sem fólk hafi gaman af að líta við og þar sem ólík fyrirtæki með bílatengdan rekstur geti myndað saman sterkari heild.

Húsnæðinu hefur verið gefið nafnið Bílheimar og verða þar undir einu þaki Hljóðlausnir, Ljósameistarinn, Bílaforritun, Reykjavíkurbón, Rafmagnsbílar.is og vitaskuld Diesel.is. Þá eru viðræður við filmuísetningarfyrirtæki á lokametrunum. „Þegar komið er inn í húsið tekur á móti fólki sameiginleg setustofa þar sem fólk getur fengið sér kaffi, og þá eru hér í næsta nágrenni bensínstöð, bíla- og dekkjaverkstæði og þvottastöð og má því finna hér á einum reit nánast alla þá þjónustu sem við kemur bílum,“ útskýrir Kolbeinn.

Notaleg sameiginleg aðstaða verður innréttuð fyrir viðskiptavini.
Notaleg sameiginleg aðstaða verður innréttuð fyrir viðskiptavini. Eggert Jóhannesson

Tilurð verkefnisins er sú að annar bílasali kom að máli við Kolbein og lagði til að þeir tækju Garðheimahúsið á leigu en blómaverslunin sem var þar til húsa um árabil var flutt yfir á Álfabakka seint á síðasta ári. „Hann eiginlega platar mig hingað inn en dettur svo út sjálfur þannig að ég sit uppi einn með húsnæðið,“ segir Kolbeinn glettinn. Afréð Kolbeinn þá að reyna að safna fjölbreyttum hópi fyrirtækja á einn stað og fékk hugmyndin strax góðar viðtökur.

„Það eru uppi hugmyndir um að hér á þessu svæði rísi á endanum íbúðabyggð en það hefur ekki fengist samþykkt enn þá og vonum við að ekkert verði af þeim plönum enda svæðið mjög heppilegt undir bílatengda starfsemi,“ segir Kolbeinn og lætur það fljóta með að bílasölurnar á svæðinu búi svo vel að geta lokað lóðinni yfir nóttina enda sé búið að girða hana af.

Það skapar hagræði fyrir neytendur að hafa fjölbreytta þjónustu á einum stað en Kolbeinn segir ætlunina líka að skapa samvirkni á milli fyrirtækjanna í Bílheimum með sameiginlegum tilboðum. „Allir hér í húsinu munu bjóða upp á einhvers konar pakka þannig að ef viðskiptavinur verslar hjá einu fyrirtækinu þá geti hann t.d. fengið mjög góð kjör á bílaþvotti eða filmuísetningu hjá því næsta og útkoman sú að allir græða.“ ai@mbl.is

Greinin birtist upphaflega í Bílablaði Morgunblaðsins þriðjudaginn 21. maí.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: