Í frisbí á Mazda Mx-5

Ekki reyna þetta heima. Eða úti á vegum.
Ekki reyna þetta heima. Eða úti á vegum.

Sumir eru betri í frisbí en aðrir, það er bara þannig. Alveg eins og sumir sportbílar eru skemmtilegri í akstri en aðrir. Einhvern veginn þannig er þemað í þessu frisbímyndbandi sem Mazda í Bretlandi lét gera á dögunum.

Í því ákveða nokkrir vinir að skella sér út í sólina og skemmta sér ærlega með einum frisbídiski og tveimur MX-5 blæjubíl. Hljómar eins og ágætis eftirmiðdagur, en sagan er ekki öll sögð.

Tveir frisbíspilaranna eru nefnilega atvinnumenn í því sporti (hvar ætli maður sæki um þá stöðu?) og förinni er heitið á lokaða braut þar sem þeir sýna hreint ótrúlega færni með lítinn plastdisk ... og þó nokkra færni með afturhjóladrifnu sportbílana.

Myndbandið er liður í auglýsingaátaki Mazda sem gæti á íslensku heitið „gaman í sólinni“ og er ætlað að vekja athygli á MX-5, sem er mest seldi sportbíll í heiminum, í sínum flokki. Áhugasamir Bretar geta líka skráð sig í pott og keppt um afnot af MX-5 heilt sumar. Hér með er íslenskum umboðum bent á þann möguleika ...

Fyrir utan að vera fáránlega góðir í frisbí er ljóst að það vantar ekkert upp á fjörið og ánægjuna hjá félögunum í myndbandinu, enda er það meginþemað í því.

Væri til dæmis um þýskan bílaframleiðanda að ræða væri myndbandið líklega allt sýnt hægt og frisbíspilurunum stykki ekki bros. „Zetta var akkúrat zvona zem zetta átti að gerazt,“ myndu þeir segja, og kannski hneigja sig í lokin.

En ekki Mazda, ó nei ...

mbl.is