VW svindlaði á útblástursprófum

Volkswagen Passat á bílasölu í Chicago.
Volkswagen Passat á bílasölu í Chicago. mbl.is/afp

Umhverfisverndarstofnun Bandaríkjanna, EPA, greindi frá því á föstudag að háþróuðum hugbúnaði hefði verið komið fyrir í ýmsum gerðum Audi- og Volkswagen-bifreiða til þess að gefa blekkjandi mælingu í útblástursprófunum.

Er um að ræða dísilútgáfur af tegundum á borð við Passat, Bjöllu og Audi A3.

Hugbúnaðurinn gat skynjað hvenær verið var að gera útblástursmælingu og breytt virkni vélarinnar á meðan til að minnka gildi nituroxíðs í útblæstri. Á götum úti reyndust bílarnir, sem stóðust prófanir eftirlitsaðila inni á rannsóknarstofum, dæla út skaðlegum efnum í útblæstri í allt að 40 sinnum meira magni en leyfilegt er.

Financial Times segir að í besta falli geti VW vænst þess að þurfa að greiða margra milljarða dala sekt og lenda í ónáð hjá bæði bandarískum stjórnvöldum og neytendum líka. Er heldur ekki loku fyrir það skotið að þeir sem bera ábyrgð á svindlinu verði dæmdir til fangelsisvistar og að kaupendur bílanna sem um ræðir höfði skaðabótamál á hendur fyrirtækinu.

Winterkorn biðst afsökunar

Þýski bifreiðarisinn hefur viðurkennt að svindlið hafi átt sér stað. Martin Winterkorn, forstjóri Volkswagen AG, sendi frá sér yfirlýsingu á sunnudag þar sem hann baðst afsökunar á atvikinu og sagði stjórn fyrirtækisins taka málið mjög alvarlega.

Hefur VW verið fyrirskipað að endurkalla 482.000 bifreiðar á bandaríska markaðssvæðinu. Ekki þykir þó stafa öryggishætta af bílunum sem um ræðir, og verður því áfram löglegt að aka þeim og selja.

Bloomberg segir málið líklegt til þess að raska áætlunum Volkswagen um að styrkja stöðu sína í Bandaríkjunum, öðrum stærsta bílamarkaði heims. Hefur VW lagt meiri áherslu á dísilvélar en aðrir framleiðendur og reynt að höfða til bandarískra neytenda með því að markaðssetja dísilknúnu bílana sem hagkvæman valkost sem mengi lítið. ai@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: