Eini rafleigubíllinn á Íslandi

Bíllinn er mjög hentugur fyrir tvo farþega með farangri að ...
Bíllinn er mjög hentugur fyrir tvo farþega með farangri að sögn Snæbjörns. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Af þeim sex hundruð leigubílum sem starfræktir eru á Íslandi er líkast til aðeins einn þeirra að fullu knúinn rafmagni. Það er bíll sem Snæbjörn Magnússon ekur um götur Akureyrar en hann hefur ekið leigubíl í 21 ár.

Spurður út í hvað hafi valdið því að hann hafi ákveðið að kaupa rafbíl til leigubílaaksturs segir Snæbjörn að hann hafi alltaf haft mikinn áhuga á tækni og nýjungum sem henni fylgja.

„Í fyrra keypti ég tveggja ára gamlan Nissan Leaf sem ég notaði í eigin þágu en með kaupunum vildi ég kynna mér virkni rafbíla. Sá bíll var með minni rafhlöðunni, 24 kW, og mér leist mjög vel á hann. Það var svo núna í ár sem ég fjárfesti í nýjum bíl af þessari sömu tegund en keypti hann með stærri rafhlöðunni sem er 30 kW. Hann er gefinn upp fyrir 250 km drægni en mér sýnist af reynslunni að hann sé í raun með drægni upp á 180-200 km.“

Bíllinn er af svokallaðri Tekna+ undirtegund en hann er búinn öllum helstu þægindum.

Næg drægni fyrir starfsemina

Snæbjörn segir að sú drægni dugi sér í langflestum tilvikum og að hann hafi aðeins einu sinni þurft að koma bílnum í hraðhleðslu seinni part dags til að geta lokið vaktinni og þá hafi hann þurft að staldra við í 10 mínútur til að koma 60 km aukahleðslu á bílinn.

„Ég er búinn að keyra bílinn mjög mikið síðan ég fékk hann um miðjan maí eða um 2.400 kílómetra. Alla jafna dugar hleðslan vel. Um helgar keyri ég hins vegar Toyota Highlander tvinnbíl. Það skýrist í raun af því að helgarvaktirnar eru oft mjög langar og þá er ég að keyra um og yfir 200 kílómetra. Þá er betra að vera með bíl sem hefur meiri drægni. Maður vill vera alveg öruggur um að koma viðskiptavininum á áfangastað, jafnvel þótt langt sé liðið á vaktina.“

Hleður bílinn heima hjá sér

Snæbjörn er mjög ánægður með bílinn sem hann fékk um ...
Snæbjörn er mjög ánægður með bílinn sem hann fékk um miðjan maí. mbl.is/Skapti Hallgrímsson


Bílinn hleður Snæbjörn heima við á kvöldin og yfir nóttina og hann segist alltaf koma að honum fullhlöðnum að morgni.

„Ég notast við 10 ampera hleðslu og það dugar meira en vel. Ég á einnig búnað sem keyrir á 16 amperum en ég hef aldrei notað hann. Hef einfaldlega ekki þurft þess.“

Snæbjörn segir að Highlanderinn frá Toyota hafi einnig reynst vel og að hann sé sáttur með tvinntæknina.

„Highlanderinn er frá 2008 og hefur komið mjög vel út. Þá hef ég einnig verið með Toyota Prius tvinnbíl og hann var mjög skemmtilegur. Ég er búinn að prófa ýmislegt í tengslum við rafmagnsvæðinguna í bílageiranum,“ bætir hann við í léttum tón.

Ótrúlegur kraftur í bílnum

Hann sparar ekki lýsingarorðin þegar hann er spurður út í hvernig nýi rafbíllinn kemur út í rekstrinum.

„Þetta er frábær bíll. Hann er í raun eins og sjálfskiptur nema hvað krafurinn og snerpan er meiri og kemur inn alveg um leið og maður gefur bílnum inn. Svo er rekstrarkostnaðurinn í raun hlægilegur. Hann eyðir um 15-17 kW á hverja hundrað km og hvert kW kostar mig um 14 krónur. Það þýðir að akstur hverja 100 km kostar um 224 krónur. Það er eins og að vera á bíl sem eyðir svona 1,2-1,3 lítrum á hundraði.“

Þá segir Snæbjörn að það sé ekki síður skemmtilegt að hugsa til þess að bíllinn sé gerður út á innlendum orkugjöfum.

„Bíllinn vekur töluverða eftirtekt og fólk er ánægt með þetta, ekki síst út af því að bíllinn er umhverfisvænn.“

Hyggst halda sig við rafmagnið

Hann segir reynsluna af nýja rafbílnum vera slíka að hann geri ekki ráð fyrir að fara aftur á bensín- eða dísilbíl.

„Þessi bíll er með um 200 km drægni og nú er farið að kynna bíla með 40 til 60 kW rafhlöðum. Þá sé ég engan tilgang í því að kaupa bíl sem gengur fyrir eldsneyti sem mengar og er auk þess flutt inn til landsins. Fólk hefur haft áhyggjur af því hvernig þessar rafhlöður virka en þessi bíll sem ég keypti núna er með átta ára ábyrgð á rafhlöðunni og það ætti að róa fólk töluvert.“

Snæbjörn segist ekki viss um hvað félögum hans á Bifreiðastöð Oddeyrar þyki um að hann skuli nú þeysast bæjarenda á milli á rafmagninu einu saman.

„Menn eru oft dálítið fastheldnir og margir virðast veðja á dísilinn enn þá. En þetta mun smátt og smátt breytast. Það munu eflaust margir taka tvinnbíla á borð við Mitsubishi Outlander eða Volkswagen Passat. Þá kynnast menn tækninni jafnt og þétt eins og ég gerði og að lokum verðum við eflaust allir komnir á rafmagnið.“