Græða vel á hverjum bíl

Með einföldum reikningi hafa menn komist að því að hreinn gróði Ferrari af hverjum seldum bíl  er ótrúlega mikill.

Samkvæmt útreikningum háskólans í Duisburg í Þýskalandi var afgangur Ferrari af hverjum seldum bíl á fyrri helmingi ársins 69.000 evrur þegar allur tilkostnaður hafði verið dreginn frá.

Jafngildir þetta  um 8,5 milljónum íslenskra króna sem gróði Ferrari af hverjum bíl nam.

Með sama tommustokknum reyndist hagnaður Porsche af hverjum bíl 17.000 evrur (2,1 milljónir króna) og afgangur Maserati á bíl var  5.000 evrur (620.000 krónur).  Að meðaltali var hreinn gróði af þýskum lúxusbílum 3.000 evrur, eða nálægt 10% af söluverði þeirra.

Til samanburðar tapaði Tesla 11.000 evrur á hverjum seldum bíl sínum.

Porsche ætlar að þéna betur af hverjum bíl í framtíðinni því fyrirtækið hefur sett sér sem rekstrarmarkmið að auka rekstrargróða sinn um sem svarar tveimur milljörðum evra á ári fram til 2022. Verður þessum markmiðum fyrst og fremst náð með aðhaldi og auknum sparnaði, að því er forstjórinn Oliver Blume segir í þýskum fjölmiðlum.

mbl.is