Hraðskreiðasti stallbakur heims

Bentley Flying Spur hinn nýi er öllu kröftuglegri útlits en ...
Bentley Flying Spur hinn nýi er öllu kröftuglegri útlits en forverinn. Hér er um öndvegis lúxusbíl að ræða

Bentley hefur svipt hulunni af splunkunýjum Flying Spur stallbak en hann er sagður nýr frá grunni. Vonast Bentley til að með honum standi neytendum til boða liprasti, kvikasti og tápmesti hálúxus-ferðabíll sem fyrir peninga megi fá.

Hér er á ferðinni frumburður þriðju kynslóðar Flying Spur. Hann deilir undirvagni með síðustu útgáfu Bentley Continental GT og Porsche Panamera.

Tæknilega hefur Flying Spur verið búinn til með það í huga að liðsinna ökumanni sem mest við stjórnun hans. Þannig beygja öll hjólin fjögur, til dæmis. Fjórhjóladrifið er þeirrar náttúru að bíllinn aftengir afturhjóladrifið í venjulegum stöðugum akstri. Hann er búinn hraðskiptri tvíkúplaðri átta hraða sjálfvirkri skiptingu.

Þegar Spur hinn nýi kemur á götuna á næsta ári verður þar á ferð hraðskreiðasti stallbakur heims, með 330 km/klst. hámarkshraða. Hann verður búinn nýjustu útgáfu 6,0 lítra tvíforþjappaðri W-12 vél Bentley. Skilar hún 626 hestöflum eða 10 fleiri en í fyrri kynslóð bílsins. Með allt þetta afl til afnota tekur það Flying Spur hinn nýja aðeins 3,7 sekúndur að komast úr kyrrstöðu á 100 km ferð, eða rúmlega hálfri sekúndu fljótar en forverinn.

Bentley mun byrja að taka við pöntunum í nýjan Flying Spur með haustinu. Ekkert hefur enn sem komið er verið látið uppi um verðmiðann, en búist er við að greiða þurfi eitthvað ögn meira en fyrir forverann, hvers byrjunarverð er 230.000 dollarar, eða jafnvirði um 29 milljóna króna, fyrir skatt.

Flying Spur verður heimsfrumsýndur á bílavikunni í Monterey í norðanverðri Kaliforníu í ágúst næstkomandi.

agas@mbl.is

Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.790 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »