Bílaleigurnar mjatla bílum á markaðinn

Kórónuveiran hefur haft mikil áhrif á bílamarkaðinn eins og önnur …
Kórónuveiran hefur haft mikil áhrif á bílamarkaðinn eins og önnur svið efnahagslífsins, ekki síst notaða bíla

Ekki þarf að eyða mörgum orðum á þann efnahagssamdrátt, sem orðið hefur í landinu á undanförnum mánuðum.

Raunar var þegar orðið ljóst í fyrra að gegndarlaus fjölgun ferðamanna var verulega farin að hægja á sér og þá þegar mátti vel merkja að margir fóru varlegar í fjárfestingu og aukin umsvif.

Þá vissi þó enginn hvað í vændum var, en um leið og plágan tók að breiðast út um heiminn má segja að viðbrögðin í velflestum greinum – hér á Íslandi sem annars staðar – hafi verið að halda að sér höndum í öllum fjárútlátum.

Það átti vitaskuld hvergi frekar við en í ferðaþjónustunni, sem á nokkrum vikum lenti í harðari umskiptum en dæmi eru um. Bein áhrif þess á ferðaþjónustu eru þegar mikil og eiga vafalaust eftir að aukast, en sömuleiðis eru afleidd áhrif bæði á starfsfólk, birgja og aðra þjónustustarfsemi mikil.

Það á þó auðvitað við um flest fólk, bæði í ferðaþjónustu og utan hennar, að það veltir aurunum betur fyrir sér í þessu óvissuástandi og leggur ekki í fjárfestingar að óathuguðu máli. Það má berlega sjá á sölu nýrra bíla, en á fyrstu sjö mánuðum ársins seldust 5.673 nýir fólksbílar, eða um þriðjungi færri en á sama tímabili í fyrra.

Bílaleigurnar grynnka á lagernum

Samkvæmt Bílgreinasambandinu fólst samdrátturinn mest í mun færri nýjum bílaleigubílum, en fjöldi þeirra dróst saman um tæp 60%. Fyrstu sjö mánuði þessa árs voru skráðir 1.634 nýir bílaleigubílar, en voru 3.993 á sama tíma í fyrra, sem nemur samdrætti um 59,1%.

Á móti kemur að fjöldi nýrra bíla til einstaklinga og almennra fyrirtækja dróst aðeins saman um 6% á sama tíma. Þar varð raunar verulegur samdráttur framan af ári, en þegar sumraði urðu margir bjartsýnni á ástandið, en þegar allar utanlandsferðir höfðu meira og minna verið blásnar af höfðu margir meira fé handa á milli og langaði út á land, svo bílasalan tók nokkurn kipp (meira í fjórhjóladrifnu en vant er), þótt aftur hafi eitthvað úr henni dregið, eins og gerist jafnan á haustin.

Það er þó ekki aðeins svo að bílaleigurnar séu að minnka við sig í innkaupum. Eins og staðan er nú eru þær allar með alltof mikið af bílum á sínum snærum, verðmæti sem ekki standa undir sér og aukast ekki að verðgildi. Sumar bílaleigurnar eru vafalaust undir það búnar að taka slíkan skell, en það á ekki við um þær allar, sumar hinna smærri eru beinlínis komnar í kröggur. Og allar reyna þær vitaskuld að létta af sér eins og þörf er á og hægt er.

Fyrir stærri leigurnar er það vandalaust og má heita liður í eðlilegri birgðastjórnun, þótt verkefnið nú sé talsvert stærra í sniðum en undanfarin ár. Það mun þá fyrst og fremst felast í hægari endurnýjun, sem að miklu leyti mun snúast um að koma elstu bílunum út, en draga að taka nýja inn. Þegar haft er í huga að samtala eigenda- og umráðaskipta notaðra bíla er um 11.000 á mánuði (talsvert mismunandi eftir árstíðum) blasir við að hófleg fjölgun bílaleigubíla á markaði notaðra bíla þarf ekki að hafa veruleg áhrif, þótt vitaskuld verði áhrifin alltaf einhver, eins og lögmál framboðs og eftirspurnar bjóða.

Það segir sína sögu að liðlega 9.300 færri bílaleigubílar voru í umferð nú í júlí en í sama mánuði í fyrra. Þá höfðu ríflega sexfalt fleiri bílaleigubílar verið teknir úr umferð en árið áður. Alls voru rúmlega 15.600 bílaleigubílar í umferð í júlí, en leita þarf aftur til 2014 til þess að finna færri bílaleigubíla á götunum.

Bílaleigubílarnir hægt á markað

Um 4.500 bílaleigubílar höfðu um liðin mánaðamót verið teknir úr umferð og sú tala hefur ugglaust hækkað eitthvað síðan. Með því að taka bíla úr umferð spari bílaleigurnar sér opinber gjöld og tryggingar, en það segir ekki alla sögu. Alls er búið að taka um níu þúsund bílaleigubíla úr flotanum hjá bílaleigum, en úr tölum Hagstofunnar má lesa að um helmingurinn hafi verið seldur, en hinn helmingurinn sé númerslaus.

Ekki er sjálfgefið að þeir rati allir á markað og alls ekki allir í einu, en hitt má heita öruggt að ekki verða allir þeir bílar númerslausir úti á stæði þar til ferðahömlum er aflétt og ferðaþjónustan tekur við sér á ný.

Það er því sennilegt að mikið af þessum 4.500 bílaleigubílum, sem búið er að skrúfa númerin af, verði sett í sölu á næstu mánuðum. Og fari eins og flestir gera ráð fyrir, að ferðaþjónustan rétti ekki úr kútnum fyrr en næsta sumar, virðist fátt geta komið í veg fyrir að meira eigi eftir að bætast við á næstu mánuðum.

Gengi og lágir vextir hafa áhrif

Ólíkt því, sem gerðist upp úr bankahruni, verða þeir nær allir áfram í landinu. Eftirspurn eftir notuðum bílum á meginlandinu er engu meiri en hér, þótt lágt gengi krónunnar gagnvart evrunni kunni að virðast freistandi í augnablikinu. Þá er og til þess að líta að verð á bílum á Íslandi – notuðum sem nýjum – er hærra en í flestum ríkjum Evrópu, sem einkum má rekja til opinberra gjalda. Gengisþróunin hefur hins vegar einnig þau áhrif að nýir bílar hafa hækkað í verði, en hið sama á ekki við um þá notuðu. Ekki alveg strax, hið minnsta.

Það varð hins vegar ekki aðeins kippur í sölu nýrra bíla þegar samkomubanninu var aflétt í byrjun maí og sumarið tók að brosa við þjóðinni. Sala notaðra bíla tók ekki síður við sér og bílasalar brostu á móti.

Kórónuveiran hefur haft fleiri áhrif á bílamarkaðinn, sem birtast í sögulega lágum vöxtum. Vextir af lánum til bíla- og tækjakaupa hafa lækkað samhliða vaxtalækkunum Seðlabankans, en sú þróun hefur vafalaust einnig örvað söluna. Vaxtakjörin eru vitaskuld mismunandi eftir fjármögnunarhlutfallinu, en gróft á litið má segja að vextir á bílalánum hafi almennt lækkað um tvö prósentustig á þessu ári. Nokkuð mismikið þó og mikilvægt að fólk geri verðsamanburð á lánunum ekki síður en bílunum.

Það er því örugglega hægt að gera betri bílakaup en oft áður á næstu mánuðum, en með því mun bílafloti almennings einnig lækka nokkuð í meðalaldri, þar sem bílaleigubílarnir eru flestir tiltölulega nýlegir, þótt þeir séu vissulega oft meira eknir en hinir. Kannski einhverjir fussi yfir því að þjóðin verði þá á alltof nýjum bílum. Gleymum því samt ekki að í nýrri bílum felst verulegur ávinningur, því þeir verða öruggari, sparneytnari og menga minna með hverri nýrri árgerð. Ef bílaleigurnar ná að grynnka á flotanum og einstaklingarnir fá betri bíla við betra verði, þá græða allir og markaðurinn gerir sitt gagn til að ná jafnvægi.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »