Eins og vorboðinn þegar rafskutlurnar koma

Sigurgeir Högnason og Andri Freyr Magnússon yfirfara rafskutlu á hjálpartækjaversktæði …
Sigurgeir Högnason og Andri Freyr Magnússon yfirfara rafskutlu á hjálpartækjaversktæði Öryggismiðstöðvarinnar. Í baksýn sést Mercedes-Benz V-Class sem starfsmenn eru þessa dagana að sérútbúa með hjálpartækjum og öryggisbúnaði.

Það hefur verið nóg að gera á hjálpartækjaverkstæði Öryggismiðstöðvarinnar síðustu daga þar sem starfsmenn eru í óða önn að gera við rafskutlur sem streyma inn á verkstæðið í yfirhalningu eftir vetrardvala.

„Þetta er eins og vorboðinn þegar rafskutlurnar koma hingað til okkar. Fólk er að taka rafskutlurnar út úr geymslunum eftir veturinn. Rafskutlur eru aðallega fyrir þá sem eiga erfitt með gang og hreyfingu eða þá sem vilja komast lengra og hraðar yfir. Rafskutlurnar hafa verið mjög vinsælar síðustu ár og er alltaf að fjölga,“ segir Andri Freyr Magnússon, sérfræðingur á hjálpartækjaverkstæðinu.

Hann segir að fólk sé aðallega að láta yfirfara rafskutlurnar, skipta um rafgeyma, skipta um og pumpa í dekk, yfirfara bremsur o.fl. þess háttar.

„Við erum búin að fá inn tugi rafskutlna á fyrstu dögunum í maí til að yfirfara. Þetta eru fínar græjur og ná allt að 10 km hraða. Þær mega ekki fara hraðar samkvæmt þeim reglum sem nú gilda er varðar skráningarskyldu hjá Samgöngustofu," segir Andri Freyr.

Öryggismiðstöðin er með samning við Sjúkratryggingar Íslands um viðgerðir hjálpartækja og rekur fullkomið verkstæði að Askalind í Kópavogi.

„Fólk er að koma með allar tegundir hjálpartækja í viðgerð á verkstæðið. Við erum mest að gera við hjólastóla, göngugrindur, rúm og margt fleira auk rafskutlanna. Við erum einnig að breyta bílum fyrir fatlað fólk. Við setjum ýmsan búnað í bílana og breytum þeim svo fatlað fólk geti ekið og ferðast í þeim á þægilegan og öruggan máta. Við sérútbúum bílana til dæmis á þá vegu að fólk kemst inn í þá í hjólastól með sérstakri lyftu og getur sest við stýrið og ekið þeim,“ segir hann.

Algengasta breytingin á bílum að sögn Andra Freys er að setja upp handstýringu fyrir inngjöf og bremsur sem gagnast helst fólki sem er lamað í fótum en hefur fullan mátt í höndunum og getur setið inni í hvaða bíl sem er. Mestu breytingar eru fyrir þá einstaklinga sem hafa takmarkaðan mátt í höndum og geta því ekki notað venjulegt stýri. Þá þarf að setja upp rafbúnað í bílinn sem eru stýripinnar sem hreyfa stýrið, stýra inngjöf, bremsum, stefnuljósum, rúðuþurrkum og öllu því sem bílstjórinn þarf til að geta keyrt bílinn.

mbl.is