Sprinter nú með nýrri og afkastameiri vél

Mercedes-Benz Sprinter.
Mercedes-Benz Sprinter. Ljósmynd/Bílaumboðið Askja

Mercedes-Benz Sprinter kemur nú með nýrri OM654 4 sílindra vél og nýju fjórhjóladrifi sem mun bæta afkastagetu Sprinter enn frekar sem og auka akstursþægindi. Fjórar útfærslur verða á nýju vélinni og verða þær 150, 170 og 190 hestafla. Framleiðslu á eldri 6 sílindra vélinni hefur verið hætt og eins eldra fjórhjóladrifinu.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá bílaumboðinu Öskju.

Þar segir að um sé að ræða mjög spennandi breytingar á hinum vinsæla og öfluga atvinnubíl Sprinter. Nýja vélin er sögð afkastameiri, umhverfismildari, sparneytnari og hljóðlátari. Um leið bætir hún akstursþægindi bílsins enn frekar ásamt hinu nýja fjórhjóladrifi.

Sprinter hefur í gegnum tíðina verið þekktur fyrir áreiðanleika og mjög góða aksturseiginleika og er mest seldi atvinnubíll Mercedes-Benz frá upphafi. Samkvæmt upplýsingum frá Bílaumboðinu Öskju, umboðsaðila Mercedes-Benz atvinnubíla, verður Sprinter með nýju vélinni í boði hér á landi í næsta mánuði.

Mercedes-Benz býður einnig upp á eSprinter sem er hreinn rafbíll en hann kom til landsins fyrr í sumar og er fáanlegur hjá bílaumboðinu Öskju.

mbl.is