Sebastian Vettel á Íslandi

Sebastian Vettel, liðsmaður Aston Martin, á verðlaunapalli.
Sebastian Vettel, liðsmaður Aston Martin, á verðlaunapalli. AFP

Einn sigursælasti ökuþór Formúlu 1 frá upphafi, Þjóðverjinn Sebastian Vettel, var á miðvikudag staddur á Íslandi. Hann heimsótti meðal annars Climeworks Orca lofthreinsi- og förgunarstöðina á Hellisheiði.

Á vefsíðu sinni fer Vettel fögrum orðum um Climeworks, sem hann segir að fangi 4 þúsund tonn af koltvísýringi á ári og dæli því aftur niður í jörðina. Hann segir að mannkynið megi engan tíma missa og að græn tækni, eins og þarna um ræðir, sé mikilvægt tól í baráttunni við loftslagsvána.

Umhverfissinni

Vettel stoppaði því stutt hér á Íslandi og má gera ráð fyrir að hann sé farinn af landi brott, enda kappakstur á Monza-kappakstursbrautinni á Ítalíu um helgina.

Ökuþórinn frægi er þekktur fyrir ást sína á umhverfinu og nýtir hann hvert tækifæri til þess að leggja sín lóð á vogarskálar grænnar framtíðar.

Sem dæmi má nefna þegar Vettel tók sér tíma til þess að tína upp rusl eftir Formúlu 1 kappakstur á Silverstone-brautinni í Bretlandi fyrr í sumar. Vakti það mikla athygli og aðdáun.

Um ruslatínsluna sagði Vettel á sínum tíma: „Ég tel það mjög mikilvægt að við virðum öll umhverfið og reiðum ekki á aðra til þess að tína upp eftir okkur. Við þurfum að byrja einhvers staðar og hvert okkar getur lagt eitthvað af mörkum strax í dag.“

mbl.is