Kostnaður af sameiginlegum hleðslustöðvum dreifist á allt húsfélagið

Daníel segir að þegar rafmagn er lagt í bílastæðahús fjölbýlis, …
Daníel segir að þegar rafmagn er lagt í bílastæðahús fjölbýlis, þar sem hver á sitt stæði, beri húsfélagið kostnaðinn af grunnkerfinu en hver íbúi beri ábyrgð á að kaupa og setja upp sína eigin hleðslustöð. Hleðslustöðvarnar þurfa að geta tengst miðlægu álagsstjórnunarkerfi. Árni Sæberg

Húsfélög þurfa að standa rétt að verki þegar komið er upp kerfi fyrir rafhleðslustöðvar á sameiginlegum bílastæðum fjöleignarhúsa og í bílastæðahúsum þeirra. Daníel Árnason segir nýlega breytingu á lögum skylda húsfélög til að leggja innviðina fyrir hleðslustöðvar og kaupa og reka sameiginlegar stöðvar en eigandi hvers sérafnotastæðis þarf sjálfur að standa straum af kaupunum á sinni eigin hleðslustöð, sem verður að uppfylla tæknikröfur rafhleðslukerfis hússins. Ef um sameiginleg stæði er að ræða, hvort heldur innan- eða utandyra, deilist kostnaðurinn af hleðslustöðvunum á allt húsfélagið.

Daníel er framkvæmdastjóri Eignaumsjónar en fyrirtækið sérhæfir sig í umsjón með húsfélögum og rekstrarfélögum um fasteignir. Hann segir að lýsa megi hlutverki Eignaumsjónar þannig að fyrirtækið taki að sér að vera skrifstofa húsfélagsins sem heldur utan um fjárreiður og fundarhöld, útvegar þjónustuaðila sem sjá um daglega umhirðu og finnur verktaka til að sinna hinum ýmsu viðhaldsverkefnum. Þá heyrir undir starfsemi Eignaumsjónar að veita húsfélögum ráðgjöf þegar kemur að uppsetningu rafhleðslukerfa fyrir bíla.

„Við höfum séð töluverða þróun eiga sér stað á markaðinum. Bæði húseigendur og seljendur hleðslustöðva eru orðnir betur meðvitaðir um að rafhleðslukerfið er eitt af grunnkerfum hússins og þarf að nálgast uppsetninguna með heildarlausn í huga,“ segir Daníel og mælir með því að húsfélög fái aðstoð hlutlauss aðila við að gera úttekt á rafhleðsluaðstöðu viðkomandi félags. „Gera ætti þessa úttekt með heildarhagsmuni allra íbúa í huga en ekki t.d. út frá hagsmunum orkusalans, búnaðarsalans eða fyrsta kaupanda rafbíls í byggingunni. Þannig má uppfylla kröfur um framkvæmdaáætlun og tryggja jafnframt hagkvæma framtíðarlausn.“

Þá segir Daníel að líkt og með allar sameiginlegar framkvæmdir verði að taka fyrstu skrefin rétt: „Ákvarðanataka á húsfundi þarf að vera reglum samkvæmt og rétt staðið að áætlun fyrir næstu skref þar á eftir.“

Nægir að einn biðji um rafhleðslustöð

Lög kveða á um að líta skuli á innviði fyrir rafhleðslustöðvar með sama hætti og t.d. rafmagns-, vatns- og símaleiðslur hússins, þ.e. sem nauðsynlegt grunnkerfi sem allir íbúar eiga rétt á að hafa aðgang að. Á sama tíma þarf m.a. að huga að því hvernig kostnaðurinn við orknotkunina skiptist. Daníel segir að það sé ómissandi hluti af hleðslukerfi í fjölbýli eða atvinnuhúsnæði að fjárfesta í hentugu miðlægu kerfi, annaðhvort nokkurs konar móðurtölvu, sem mælir rafmagnsnotkun hverrar hleðslustöðvar og stýrir álagi innan rafkerfis alls hússins, eða með samhæfðu kerfi sem samanstendur af snjallhleðslustöðvum. „Þá getur kerfið skammtað rafmagnið á hleðslustöðvarnar á ákveðnum álagspunktum, þannig að næg orka sé fyrir íbúa að nota eldavélina og horfa á sjónvarpið, en síðan beint meiri orku inn í hleðslukerfið þegar raftækjanotkun í byggingunni er minni.“

Hleðslukerfið er þannig í stöðugu sambandi við hverja hleðslustöð og getur um leið talað við greiðslumiðlunar- eða innheimtukerfi. Daníel segir að það sé mjög hentug lausn að bæta einfaldlega kostnaðinum við hleðslu rafbíla við mánaðarlegan húsfélagsreikning hvers íbúa, í samræmi við notkun. „Venjulega á fólk sínar eigin hleðslustöðvar og getur stýrt aðgangi að þeim, s.s. í gegnum snjallsímaforrit eða með snertilykli, en notkun sameiginlegra hleðslustöðva má stýra með sams konar búnaði þannig að aðeins þeir sem nota hleðslustöðvarnar beri kostnaðinn af rafmagnsnotkuninni.“

Stjórnvöld hafa sett mikinn þrýsting á húsfélög með lagasetningu um skyldur þeirra til uppsetningar rafhleðslustöðva við fjöleignarhús. Nægir að einn eigenda óski eftir að hlaða rafbílinn sinn og þarf þá húsfélagið að bregðast við. Unnt er að taka mið af þróun fjölda rafbíla, en algengt er að byrja á að setja upp tvo hleðslustaura fyrir fjögur hleðslustæði, og má svo seinna meir bæta við fleiri staurum ef þess er þörf.

Innviðir sem kaupendur vilja ekki að vanti

Kostnaðurinn við grunnkerfi fyrir rafhleðslustöðvar getur verið breytilegur eftir aðstæðum á hverjum stað en Daníel segir algengt að slík framkvæmd kosti á bilinu 60.000 til 110.000 kr. á hverja íbúð. Algengt verð á góðum hleðslustöðvum sé í kringum 200.000 kr. og megi því reikna með að geti kostað allt að 300.000 kr. fyrir eiganda rafmagnsbíls að geta stungið honum í samband heima hjá sér. „Stundum má draga frá þessum kostnaði styrki sem eru í boði. Reykjavíkurborg og Akranesbær bjóða t.d. upp á styrk að upphæð allt að 1,5 milljónir króna til að mæta kostnaði húsfélaga við að setja upp grunnkerfið á sameiginlegum bílastæðum.“

Yfirleitt eru félagar húsfélags mjög áhugasamir um að setja upp hleðslustöðvar, að sögn Daníels, og rímar það við vaxandi vinsældir rafmagns- og tengiltvinnbíla. „En svo felst líka ákveðinn ávinningur í þessu fyrir fasteignaeigendur. Eins og markaðurinn er í dag fylgir því tvímælalaust virðisaukning fyrir þá sem hyggjast selja, ef þegar er búið að ganga frá tengingu fyrir hleðslustöð við öll bílastæði. Þá má reikna með að þegar fram í sækir verði það nánast álitið galli á íbúð ef ekki er búið að setja þessa innviði upp.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.090 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »