Netárás gerð á Ferrari

Merki ítalska bílaframleiðands Ferrari.
Merki ítalska bílaframleiðands Ferrari. AFP/Giuseppe Cacace

Ítalski bílaframleiðandinn Ferrari greindi frá því í gærkvöldi að netárás hafi verið gerð á fyrirtækið þar sem ætlunin var að sækja trúnaðarupplýsingar um viðskiptavini. 

Í yfirlýsingu sagði Ferrari að þrjótarnir kræfust lausnargjalds sem fyrirtækið neitaði að greiða. Verið sé að vinna að því að styrkja öryggiskerfi fyrirtækisins. 

Þá sagði í yfirlýsingunni að netárásin hefði ekki haft áhrif á framleiðslu Ferrari. 

Engum upplýsingum lekið

„Ferrari barst nýlega hótun þar sem krafðist var lausnargjalds fyrir trúnaðarupplýsingar viðskiptavina,“ sagði í yfirlýsingunni. 

Þrjótarnir fengu upplýsingar um nöfn, heimilisföng, tölvupósta og símanúmer viðskiptavina en ekki bankaupplýsingar sagði talsmaður Ferrari við AFP-fréttaveituna. 

„Samkvæmt okkar upplýsingum hafa trúnaðarupplýsingarnar ekki verið opinberaðar á internetinu. Við fylgjumst náið með stöðunni.“

Þá sagði í yfirlýsingunni að Benedetto Vigna, framkvæmdastjóri Ferrari, hafi haft samband við alla viðskiptavini fyrirtækisins til þess að greina þeim frá árásinni.  

mbl.is