Í sjálfu sér er ekki mikil breyting við andlitslyftingu á B-línu nema þá helst að framan. Helsta breytingin er sú að nú er hann kominn með fjórhjóladrifi sem aðgreinir hann frá öðrum bílum í sama flokki.
Í sjálfu sér er ekki mikil breyting við andlitslyftingu á B-línu nema þá helst að framan. Helsta breytingin er sú að nú er hann kominn með fjórhjóladrifi sem aðgreinir hann frá öðrum bílum í sama flokki. — Morgunblaðið/Tryggvi Þormóðsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ný B-lína frá Mercedes-Benz hefur fengið andlitslyftingu en það sem meira er um vert og þá sérstaklega fyrir íslenskan markað er að hann er nú fáanlegur með 4Matic-fjórhjóladrifinu.

Ný B-lína frá Mercedes-Benz hefur fengið andlitslyftingu en það sem meira er um vert og þá sérstaklega fyrir íslenskan markað er að hann er nú fáanlegur með 4Matic-fjórhjóladrifinu. Þar með nær hann að aðgreina sig frá nýjum keppinautum á þessum markaði, bílum eins og BMW 2 Active Tourer og VW Sportsvan. Útlitsbreytingarnar eru litlar utandyra og eru mest bundnar við framenda bílsins. Hann hefur fengið endurhannaða stuðara og framljós, stærri loftinntök og grill. Útlitsbreytingarnar eru þó meiri innandyra eins og við komumst að þegar blaðamaður Morgunblaðsins reynsluók honum á dögunum.

Flottur á því að innan

Óhætt er að segja að bíllinn sé orðinn mjög nýtískulegur í hönnun innandyra þar sem efnisvalið er til fyrirmyndar. Lagt er upp úr stælum eins og krómhringjum í kringum miðstöðvartúður og díóðulýsingu í mælaborðinu sem hægt er að skipta um lit á gegnum aksturstölvuna, kannski eftir því í hvaða skapi bílstjórinn er? Fyrir miðju er kominn stærri litaskjár sem sýnir hljómtæki, símbúnað og bakkmyndavél ásamt aksturstölvunni. Aðgerðum er stjórnað gegnum skruntakka í miðjustokki, örvatökkum í stýri eða einfaldlega með tilheyrandi hnöppum í mælaborði sem getur verið nokkuð flókið að læra á til að byrja með. Maður veltir því ósjálfrátt fyrir sér hvort það hefði ekki verið einfaldara að koma bara með snertiskjá til að losna við allt þetta takkaflóð. Nóg er af hólfum og hirslum kringum ökumann nema að aðeins eitt glasastatíf er til staðar og það er aðeins fyrir litlar gosflöskur. Stærri drykkjarmál rúmast einfaldlega ekki í því.

Aftursætin bestu sætin

Rými fyrir farþega er allgott í B-línunni og sætin stór og þægileg. Sætin aftur í eru einnig rúmgóð en miðjusæti er með styttri setu en þau sem til hliðar eru. Það hefur sína kosti þar sem fótapláss er meira og auðveldara að ganga um bílinn, sérstaklega fyrir smáfólkið. Eins eru afturdyr stórar og því mjög þægilegt að ganga um hann við aftursætin, sem og bjástra við barnabílstólana. Aðgengi í framsæti er ekki eins gott og er það aðallega breiður B-biti sem flækist aðeins fyrir, en hann heftir líka aðeins útsýni til hliðanna. Meðalmaður eins og bílablaðamaður Morgunblaðsins stillir sæti sitt á þann veg að horfi hann beint til hliðar byrgir B-bitinn honum sýn. Farangursrými er mjög gott og er 486 lítrar með aftursætin í uppréttri stöðu en fer í heila 1.547 lítra með því að fella þau niður. Eins eru hólf undir gólfinu og til hliðanna auk hlera við miðjusæti sem má opna til að koma fyrir lengri hlutum.

Hávær dísilvél

Að aka bílnum með fjórhjóladrifi er ótvíræður kostur í vetrarfærðinni og bætir aksturseiginleika bílsins, sem voru ekkert slæmir fyrir. Að vísu er fjöðrunin í stífara lagi og þess vegna var maður ekkert að nota mikið sportstillinguna sem virtist hafa áhrif á hana líka. Í henni skiptir bíllinn sér seinna og þá er líka farið að heyrast frekar mikið í dísilvélinni, sem er í háværari kantinum. Það truflar undirritaðan alltaf þegar sjálfskipting er lengi að taka við sér úr kyrrstöðu eins og farið er um þennan bíl. Gildir þá einu hvort bíllinn er í sportstillingu eða sparstillingu. Bíllinn leggur vel á og er nokkuð lipur í akstri innanbæjar fyrir bíl í þessum stærðarflokki.

Svipað verð 4Matic og 2-línu BMW

Sú staðreynd að B-línan er sú eina í þessum flokki sem boðin er sem fjórhjóladrifsbíll er ótvíræður kostur í þessum flokki. Ekki skemmir heldur fyrir að grunnverð hans er vel boðlegt en hann kostar frá 4.590.000 kr. Fjórhjóladrifinn er hann kominn í 5.890.000 kr og þá einungis með sjálfskiptingu. Aðalkeppinautur B-línu er BMW 2-lína Active Tourer sem er aðeins til í einni útfærslu, 218d á 5.290.000 kr. Sjálfskiptur er hann kominn í 5.720.000 kr. sem er nánast sama verð og fyrir B-línu í 4Matic-útfærslu. VW Golf Sportsvan er reyndar oft borinn saman við þessa tvo bíla en hann byrjar reyndar aðeins í 3.490.000 kr. en þá með 1,2 lítra TSI-vél. Réttara er að miða við grunnverð TDI-dísilbílsins með 1,6 lítra vélinni. Sá bíll kostar frá 3.910.000 kr með sex gíra beinskiptingu.

njall@mbl.is