Rúmgott farangursrýmið er aðgengilegt og á pari við það sem best gerist í flokknum. Hagræðing er að þrískiptri fellingu á sætum ef koma þarf fyrir lengri hlutum.
Rúmgott farangursrýmið er aðgengilegt og á pari við það sem best gerist í flokknum. Hagræðing er að þrískiptri fellingu á sætum ef koma þarf fyrir lengri hlutum.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Mercedes-Benz GLK er jepplingurinn sem setti lúxusjepplinginn á kortið en er nú kominn á elliheimili eftir að hafa verið á markaði í rúm sjö ár.
Mercedes-Benz GLK er jepplingurinn sem setti lúxusjepplinginn á kortið en er nú kominn á elliheimili eftir að hafa verið á markaði í rúm sjö ár. Hinn nýi GLC sem leysir hann af hólmi er alveg ný hönnun þótt hann byggist á sömu botnplötu og C-lína Mercedes-Benz. Hann er bæði stærri og þar af leiðandi dýrari en GLK sem var orðinn gamall í hettunni en segja má að Benz hafi lengi vantað bíl sem gæti keppt almennilega við BMW X3 og Audi Q5.

Smekkleg og vel útfærð innrétting

Að utan er GLC 12 mm lengri og 4 mm breiðari en GLK en það sem munar mest um er að hann er 120 mm lengri á milli hjóla. Samt er GLC að meðaltali um 80 kílóum léttari, þökk sé meiri notkun á áli og hágæðastáli í yfirbyggingu og grind bílsins. Eins og sjá má í nafninu er botnplatan sú sama og í C-línunni en til að halda í torfærugetu er að- og fráfallshorn hans nánast það sama og í GLK. Að innan er greinilegt að mikið hefur verið lagt í hönnun hans og leysir hann þar flesta hluti vel og vandlega. Plássið er gott þrátt fyrir mikla notkun hólfa í kringum framsæti og það er mikil hagræðing að stórum hliðarvösum sem rúma jafnvel flöskur af stærri gerðinni. Efnisvalið er eins og best verður á kosið og er mattsvarta innréttingin sérlega smekkleg. Þegar kemur að stjórnbúnaði fóru þó hönnuðir Mercedes aðeins yfir strikið með því að koma fyrir skrifborði fyrir ofan skruntakkann. Skrifborðið virkar þannig að það má nota til að skrifa símanúmer eða til að fletta á milli aðgerða en leiðin þangað er oftar en ekki löng og flókin. Þess vegna hefði alveg mátt sleppa þessum óþarfa fídus, sem virðist hafa verið settur þarna einungis til að geta státað af því sama og keppinautarnir.

Frábær níu þrepa sjálfskipting

Prófunarbíllinn frá Öskju var vel búinn 220 bíll með 2,1 lítra dísilvél sem skilar 170 hestöflum. Hún er í senn hljóðlát, þýðgeng og þokkalega öflug. Skemmtilegasti hlutinn við aflrás hans er þó nýja níu þrepa sjálfskiptingin sem er hreinasta unun. Hún skiptir sér hnökralaust og nánast án þess að ökumaður verði þess var og það sem meira er, gerir sitt til að ná niður eyðslu bílsins í akstri. Samkvæmt aksturstölvu var eyðsla hans í rúmum átta lítrum sem er bara sæmilega nálægt þeim 6,3 sem hann er gefinn upp fyrir keyrslu innanbæjar. Til að ná enn frekar niður eyðslu og mengunargildum er vélin búin Stop & Go-ádrepibúnaði eins og margir nýir bílar í dag. Það sem er þó leiðinlegt við búnaðinn í þessum bíl er hversu gróflega hann ræsir aftur bílinn rétt í þann mund sem bílnum er ekið af stað. Satt best að segja kunni undirritaður svo illa við það í þessum bíl að hann var með slökkt á honum mestallan prófunartímann. Bíllinn er búinn fjórhjóladrifi sem staðalbúnaði en tveir þriðju af togi vélarinnar fara beint til afturhjólanna. Fyrir vikið er hann nokkurn veginn laus við undirstýringu og er hinn skemmtilegasti í akstri og minnir stundum meira á fólksbíl í aksturseiginleikum.

Sá dýrasti af þeim þýsku

En hvernig skyldi nýr GLC nú standa sig í þeirri ströngu samkeppni sem nú ríkir á markaði vel búinna lúxusjepplinga? Grunnverð hans er 8.360.000 kr. með þeirri vél sem við prófuðum bílinn en hann var í AMG-útgáfu, sem hækkar verð hans töluvert. Fyllilega sambærilegur Audi Q5 byrjar í 7.990.000 kr. með aðeins öflugri tveggja lítra dísilvél. BMW X3 með jafnöflugri dísilvél af sömu stærð er á enn betra verði eða á 7.290.000 kr. Aðrir hugsanlegir keppendur gætu verið Land Rover Discovery Sport eða jafnvel Volvo XC60, sem báðir eru á svipuðu verði og GLC þegar þeir eru bornir saman með svipuðum búnaðarlista. Það kemur reyndar ekkert sérstaklega á óvart að Benzinn skuli vera aðeins dýrari en þýskir keppinautar hans en þótt verðið sé honum aðeins í óhag er GLC þess búinn að veita þeim harða samkeppni því hann stendur sig einfaldlega svo vel á öllum öðrum sviðum.

njall@mbl.is

Kostir: Sjálfskipting, innrétting, aksturseiginleikar

Gallar: Bruðl í stjórnbúnaði, Stop & Go-ádrepibúnaður