Lexus NX200t F-Sport er bæði laglegur að sjá, vel búinn og þrælskemmtilegur í akstri. Túrbó-útfærslan ætti að kæta þá sem þótti vanta á aflið er jeppinn var fyrst kynntur fyrir ári.
Lexus NX200t F-Sport er bæði laglegur að sjá, vel búinn og þrælskemmtilegur í akstri. Túrbó-útfærslan ætti að kæta þá sem þótti vanta á aflið er jeppinn var fyrst kynntur fyrir ári. — Morgunblaðið/Golli
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Það verður ekki annað sagt um lúxusbílaframleiðandann Lexus en að hann sé á góðum stað í tilverunni um þessar mundir.
Það verður ekki annað sagt um lúxusbílaframleiðandann Lexus en að hann sé á góðum stað í tilverunni um þessar mundir. Lúxusjeppar í millistærð er sá stærðarflokkur sem er í hvað örustum vexti, og gefur um leið af sér hvað mesta framlegð, og þar hefur Lexus komið sér rækilega fyrir enda var RX-jeppinn ákveðinn frumkvöðull í þeim flokki þegar hann kom fram á sjónarsviðið fyrir einum 18 árum síðan. Fyrir rúmu ári kynnti framleiðandinn svo NX-jeppann til sögunnar og herti hann þar með enn tökin á téðum stærðarflokki enda týpan ljómandi vel heppnuð. Á það ekki síst við um útlitið en hið skarpa og ákveðna form NX-jeppans er frábærlega vel heppnað og svipaða sögu er að segja um fólksbílalínuna frá Lexus; hún er meira eða minna öll sama öndvegismarkinu brennd. Þá er von á nýrri kynslóð af RX-jeppanum, stóra bróður, sem ku vera dreginn beittari dráttum en núverandi módel og er það ekkert nema risastórt tilhlökkunarefni. Sá verður tekinn til kostanna á þessum vettvangi fyrr en síðar, en skoðum nú nýja útfærslu af litla bróður, bráðskemmtilegan NX200t F-Sport.

Munaður hvert sem litið er

Byrjum innandyra. Í stuttu máli sagt er ekki hægt að setja út á margt í þessum bíl þegar svipast er um að innan, en hafa ber í huga að hér er um F-Sport útgáfuna að ræða. Í henni felst að með í kaupunum eru 18 tommu álfelgur (gullfallegar, svo því sé haldið til haga), sportfjöðrun, gírskiptiblöðkur í stýrinu, sporthönnun á stuðarasvuntu að framan og aftan, ásamt fíneríi í innréttingunni. Efnisvalið þar er algerlega tipp topp, og rauður saumur í leðrinu ásamt smekklega frágengnum áhersluflötum úr koltrefjum hnýta saman sérlega fallega innréttingu þar sem leður og stál eru í langstærstu hlutverki. Bensín- og bremsupedalar eru í fægðu stáli og öll tilfinning innandyra er einhvern veginn þétt, rammgerð, massíf. Öll hljóð eru traustvekjandi, ekki síst hurðaskellurinn sem er prýðisgóður og traustvekjandi, þó ekki séu hurðaflekarnir tiltakanlega þungir í vöfum. Sætin eru einkar þægileg, rafstýrð á alla kanta og með þremur hitastillingum eins og vant er með Lexus. Í aftursætum er plássið ágætt, utan að hávaxnir gætu verið með hvirfilinn alveg við loftið. Aðrir sigla þar þægilegan sjó.

Kraftur í kögglum, hljóð í takt

Þegar NX-jeppinn var fyrst kynntur til sögunnar var helst að honum fundið að aflið hefði að ósekju mátt vera eilítið meira. Það voru út af fyrir sig réttmæt rök í það skiptið en nú er öldin önnur; þar skiptir miklu máli að nýja tegundin heitir NX200 t , og þetta litla „t“ gerir þar gæfumuninn því það stendur fyrir túrbó, nokkuð sem kæta mun ökumenn hvarvetna. Þessi nýi NX er nefnilega bráðsprækur og hikið í túrbínunni, eða „laggið“ eins og það er gjarnan kallað, er hverfandi.

Lexus-fólkið hefur borið gæfu til að hafa togið einkum í upptakinu, svo hann rýkur viljugur af stað þegar slegið er í. Vinnslan er hin fínasta og eins og hæfir jeppa þá minnkar togið þegar vélin nálgast um 4000 snúninga. Það er skynsamleg ráðstöfun á togi þegar snúningsbilið er annars vegar því þetta er jú sportjeppi og það fjórhjóladrifinn, en ekki hreinræktaður sportbíll. Það munar mikið um að geta farið mátulega geyst af stað en minna máli skiptir að vera í stakk búinn fyrir ofsaakstur. Að því sögðu er bíllinn merkilega sportlegur í akstri, fjöðrunin er fyrirtak, sportleg og stöðug, og í stýri er hann ljómandi ásamt því að beygjuradíusinn er glettilega knappur en slíkt telst bílum af þessu tagi rækilega til tekna því þetta er borgarbíll fyrst og fremst.

Skottið stóðst ferðatösku-, golfsetts- og barnavagnsprófið með glans svo ljóst er að hann rúmar í skottinu það helsta sem þarf að flytja frá degi til dags. Hitt er annað mál að fæstir munu væntanlega kaupa þennan bíl fyrir farangursýmið eingöngu svo það er ekki haft stærra en passlegt þykir.

Tónninn gefinn fyrir Lexus

Útlit NX-jeppans er í einu orði sagt frábært og þar hefur verið gefinn tónn fyrir framhaldið sem koma skal hjá Lexus-línunni allri. Á meðan sumir voru efins um stefnuna sem RX-jeppinn tók er hann varð talsverð búlduleitari á milli kynslóða, mætti NX til leiks „helköttaður“ og stútfullur sjálfstrausts. Hönnunin er afgerandi og töff – engir fangar teknir þar og F-Sport útfærslan er enn flottari ef eitthvað er. Þetta rímar, eins og framar greindi, við næstu kynslóð af RX-jeppanum og þessi kantaða og línuskarpa hönnunarstefna sem tekin hefur verið er til mikillar fyrirmyndar, nú þegar margir helstu framleiðendur keppast við að straumlínulaga sína bíla uns þeir minna helst á handsápustykki. Hér er því farið heldur á annan vel og megi svo verða um langa hríð. Verðmiðinn á Lexus er svo í takt við bílinn sem þú kaupir; hann er hlaðinn búnaði, bráðskemmtilegur í akstri og hörkuflottur að sjá, svo þú þarft að punga út á þrettándu milljón fyrir pakkann. Vel þess virði ef þú ert á annað borð að fara að verja þeim pening í bílakaup.

jonagnar@mbl.is