Stífni í stjúptengslum

Það getur reynt á alla að blanda saman fjölskyldum og …
Það getur reynt á alla að blanda saman fjölskyldum og engar tvær fjölskyldur eru eins.

Móðir á fertugsaldri í Reykjavík fær stjúpbörn heim til sín reglulega, þ.e. börn kærastans, og kvartar undan því að hún nái engu sambandi við þau. Börnin hunsa hana og samskiptin á heimilinu eru stíf og óþægileg. Þetta á við einkum þegar hún er nálæg. Hún spyr hvernig hún geti breytt þessu ástandi sem er farið að þjaka hana töluvert.

Sæl og takk fyrir spurninguna!

Það getur reynt á alla að blanda saman fjölskyldum og engar tvær fjölskyldur eru eins. Börn hafa almennt góða aðlögunarfærni og samskipti geta breyst með tímanum. Til að auðvelda ferlið eru ákveðnir þættir sem þarf að hafa í huga. Í fyrsta lagi er mikilvægt að fullorðna fólkið sé nokkuð samstiga. Sum börn eru hikandi í framkomu við stjúpforeldri þar sem þau lenda að einhverju leyti á milli foreldra sinna sem þau elska jú og vilja sýna hollustu. Best er ef allir foreldrarnir geta náð saman um ákveðna þætti sem varða velferð barnanna og oftast gengur það betur en fólk á von á.

Mikilvægt en tímafrekt að mynda traust

Þitt hlutverk sem stjúpforeldri er að mynda traust og það tekur tíma. Mikilvægt er að leyfa börnunum að ráða hraðanum þar sem börn eru ólík og hafa ólíkar þarfir sem stjórnast meðal annars af aldri og þroska. Ef samskiptin ganga ekki vel í byrjun getur tekið tíma að brjóta upp það mynstur. Þá er brýnt að átta sig á hver vandinn er en ekki síður að átta sig á styrkleikum ykkar og hvernig þið getið nýtt þá til þess að ná betur saman.

Þó að það sé oft mjög erfitt næst betri árangur ef þér tekst að taka hegðun barnanna ekki persónulega, hún beinist í raun ekki að þér heldur því hlutverki sem þú ert í. Mikilvægt er líka að taka tillit til þess að börnin alast upp í öðru umhverfi hluta af tímanum og það getur verið flókið. Það kallar á að nýja fjölskyldan lagi sig að börnunum og þörfum þeirra.

Börnin hunsa stjúpmóður sína og samskiptin á heimilinu eru stíf …
Börnin hunsa stjúpmóður sína og samskiptin á heimilinu eru stíf og óþægileg. Þetta á við einkum þegar hún er nálæg.

Myndaðu vináttutengsl í rólegheitunum

Látum líffræðilegu foreldrana um uppeldið, alla vega í fyrstu. Hlutverk þitt sem stjúpforeldris gæti í byrjun verið að reyna að mynda vináttutengsl við börnin, til dæmis í gegnum áhugamálin þeirra en þó án þess að kæfa þau í athygli. Ef tryggt er að börnin fái tíma með líffræðilegu foreldri án þess að stjúpforeldri sé alltaf með getur dregið úr spennu í samskiptum þess á milli. Þetta er gefandi en um leið krefjandi hlutverk sem þú ert í, en börn venjast tilhugsuninni um að vera hluti af nýrri fjölskyldu smám saman. Þegar öllu er á botninn hvolft þurfa börn fyrst og fremst á því að halda að finna til öryggis og hlýju á heimilum sínum. Gangi þér vel!

Spurningum sem berast Fjölskyldunni á mbl.is svarar SÓL sálfræði- og læknisþjónusta en þar starfar hópur fagfólks sem leggur metnað sinn í að veita börnum, ungmennum og fjölskyldum þeirra góða þjónustu. Nánari upplýsingar á www.sol.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »