Leynist lítill Einstein á þínu heimili?

mbl.is/thinkstockphotos

Gramur faðir gekk inn á skrifstofu skólastjórans. Hann vildi fá að vita hvaða störf kæmu til með að henta syni hans í framtíðinni. Strákurinn þótti heldur latur í skóla og reyndi mjög á andleg þolrif kennara sinna. Kennararnir sögðu hann annars hugar og að hann gæti ómögulega munað nokkurn skapaðan hlut. Skólastjórinn sagði því föður drengsins að litlu skipti hvað hann tæki sér fyrir hendur. Drengurinn myndi aldrei koma til með að ná árangri á nokkru sviði.

Faðir drengsins hét Hermann Einstein. Og sonurinn er einhver sem við könnumst öll við – mesti snillingur veraldar, Albert Einstein.

Í dagsins amstri er auðvelt að missa sjónar á því sem skiptir máli. Starfsumhverfi nútímans fylgir gífurlegt álag með þúsund og einu verki sem þarf að gera á hverjum degi, dag eftir dag. Þegar að svo mörgu er að hyggja er ekki nema von að foreldrum, kennurum og öðrum, sem koma að uppeldi barna, yfirsjáist eitt og annað. Án þess að gera okkur almennilega grein fyrir því, gætum við litið fram hjá einhverjum óskilgreindum hæfileika hjá börnum okkar. Hæfileikar sem gera gjarnan vart við sig á óhefðbundinn hátt. Eitthvað sem við túlkum sem ónæði frekar en annað.

Spurningin er þessi: Hvað ef það sem angrar þig hvað mest í fari barna þinna er í raun óuppgötvaður hæfileiki? Að þeirra helsti eiginleiki sé eitthvað sem þú hefur misskilið sem óþolandi eðlisþátt. Og hvernig er þá hægt að greina þar á milli?

Það sem þessi börn þurfa er fullorðinn einstaklingur sem er tilbúinn til að leiðbeina þeim. Einhver sem er tilbúinn að sýna þolinmæði og skilning þegar aðrir eru plagaðir af ástandinu. Sá hinn sami reynir fyrst og fremst að finna þann hæfileika sem býr að baki – og rækta hann.

Næst þegar barnið sýnir þær hliðar er falla síst í kramið, skaltu staldra við og íhuga hvort hér sé jafnvel á ferð lítill snillingur.

 

 

mbl.is