Gæðastundir með Aroni Einari

Aron Einar Gunnarsson fyrirliði íslenska landsliðsins í fótbolta.
Aron Einar Gunnarsson fyrirliði íslenska landsliðsins í fótbolta. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Áskorun nútímaforeldra er að minnka skjátíma barna okkar (og okkar sjálfra), vera meira til staðar og reyna að ná innilegri tengslum við börnin okkar. En hvað getum við gert sem skilar einhverjum árangri og hefur skemmtanagildi í leiðinni?

Sérfræðingar segja að börnin okkar eigi að lesa meira, en það þýðir ekki bara að segja þetta. Það þarf að finna snertiflöt sem kveikir í börnum og gerir lesturinn spennandi. Og við foreldrarnir þurfum að taka virkan þátt, annars gerist ekkert. 

Ég ákvað að gera tilraun með 12 ára syni mínum. Hann hefur brennandi áhuga á fótbolta og þegar bókin um Aron Einar Gunnarsson fyrirliða íslenska landsliðsins, Aron - Sagan mín,  kom út spurði ég son minn hvort hann væri til í að lesa bókina með mér. Við gerðum samning um að hann myndi lesa fyrsta kaflann upphátt fyrir mig og ég læsi svo kafla númer tvö upphátt fyrir hann og svo koll af kolli. 

Aron - Sagan mín.
Aron - Sagan mín.

Það sem gerðist á þessu ferðalagi okkar í gegnum bók Arons Einars var að við skemmtum okkur bæði vel. Bókin er skemmtilega skrifuð og það sem er fréttnæmt dregið fram. Þótt það sé kannski ekki allt í bókinni sem höfðar til 12 ára drengs er boðskapurinn góður. 

Það sem ég hnaut um í bókinni er hvað Aron Einar er/var mikill mömmustrákur. Það er eitthvað svo fallegt við það. Í bókinni kemur fram að þegar hann fór að fá betur greitt fyrir störf sín sem unglingur sem er að reyna að slá í gegn í fótbolta þá keypti hann sér ekki sportbíl eða djammaði fyrir peninginn. Heldur notaði hann peningana til að fá mömmu sína til að flytja út til sín í smá tíma. Dauðir hlutir fölna nefnilega í samanburði við góð samskipti við þá sem okkur þykir vænt um.  Það kemur líka fram í bókinni að hann hafi ekki fengið allt upp í hendurnar heldur hafi sjálfur þurft að vinna fyrir sínu. Með því að leggja meira á sig og gefa allt sem hann átti í fótboltann náði hann því sem flesta fótboltastráka dreymir um - að komast á HM í fótbolta. 

mbl.is