Áttu barn sem er aðstandandi og finnur til?

Börn sem eru aðstandendur alkóhólista fara í gegnum margt sem …
Börn sem eru aðstandendur alkóhólista fara í gegnum margt sem þau eiga erfitt með að tjá sig um. Hazelden-stofnunin er með áhugavert efni sem gefur innsýn í þeirra heim. Ljósmynd/Thinkstockphotos

Hazelden Betty Ford-stofnunin þykir ein sú besta í heiminum þegar kemur að því að takast á við fíknivanda á borð við alkóhólisma. Stofnunin er með áhugaverða dagskrá fyrir börn sem eru aðstandendur alkóhólista. 

Fyrir þá sem eru að ala upp börn sem finna til þar sem annar eða báðir foreldrarnir eru að kljást við fíkn eru góð myndbönd á veraldarvefnum sem gefa innsýn í það sem þau eru að ganga í gegnum. Alkóhólismi er fjölskyldusjúkdómur. Það að börn finni til í þessum aðstæðum er eðlilegt. Að gera ráð fyrir að barn harki af sér er í raun og veru blekking. Meðalið fyrir börn í þessum aðstæðum er að fá öryggi og traust til að ræða málin sín við m.a. fagfólk sem eru sérfræðingar í að vinna með aðstandendur. Í myndbandi sem birtist frá Hazelden er talað um átta ára stúlku sem er aðstandandi föður með fíknivanda. 

„Hún var átta ára þegar hún kom í prógrammið okkar fyrst. Hún horfði á mig og sagðist ekki vilja taka þátt. Hún ætlaði sko alls ekki að taka þátt í því að tala um pabba sinn sem hún elskaði út af lífinu en var í vanda tengdum sinni fíkn. Hún átti von innra með sér um að honum tækist þetta og vildi ekki skemma neitt með því að tala. 

Eftir að hún öðlaðist traust til að taka þátt setti hún hjartað sitt í allt sem við gerðum saman. Við útskriftina þegar hún fékk útskriftarpeninginn sinn hélt hún honum á lofti og sagðist ætla að starfa við það þegar hún yrði stór að hjálpa öðrum börnum í gegnum svipaðan vanda.“

Það efni sem kemur frá stofnuninni er áhugavert fyrir alla þá sem vilja skilja betur umhverfi barna sem eru aðstandendur. Togstreituna innra með þeim og meðal annars reiðina sem þau fara í gegnum að sjá foreldra sína missa tökin á foreldrahlutverkinu þegar fíknin er með yfirhöfnina. Stofnunin gerir einlægt efni sem hittir í hjartastað. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert