46 ára og komst að óléttunni sólarhring fyrir fæðingu

Bandarísk kona komst að því að hún væri ólétt þegar …
Bandarísk kona komst að því að hún væri ólétt þegar hún fór á spítala vegna magaverkja. mbl.is/www.colourbox.dk

Hin bandaríska Monica Thompson frá Las Vegas varð móðir í fyrsta skipti fyrir tæpu ári. Óléttan kom henni algjörlega á óvart að því er fram kemur á vef Inside Edition. Thompson var ekki að reyna að verða ólétt og hélt í raun að hún gæti það ekki enda orðin 46 ára gömul. 

Thompson fór til læknis vegna magaverkja en hún hélt að hún væri með flensu. Læknirinn spurði hana þá hvort hún væri ólétt. „Það er ekki séns. Ég er of gömul til þess að eignast börn. Ég er örugglega á breytingaskeiðinu,“ sagði Thompson sem hafði verð í heilsuátaki og lést um tíu kíló á meðgöngunni. 

Í ljós kom að Thompson var ekki bara ólétt heldur komin sjö og hálfan mánuð á leið. Sólahring seinna kom sonur hennar í heiminn með keisaraskurði. Hann var lítill þegar hann fæddist og var í mánuð á spítala. Í dag er hann hraustur ellefu mánaða gamall drengur. 

Thompson hafði reynt að eignast barn með eiginmanni sínum í 16 ár en hann dó árið 2016. Hún segir það ferli hafa verið erfitt þar sem að allir vinir hennar voru að eignast börn en ekki hún. Hún eignaðist barnið með unnusta sínum Jason.

Talað var við lækni sem segir meðgöngur á borð við meðgöngu Thompson vera afar sjaldgæfar en koma þó fyrir. Það má því með sanni segja að barnið hafi verið kraftaverk. 

mbl.is