Þegar varnirnar ráða ferðinni

Ragnhildur Birna Hauksdóttir.
Ragnhildur Birna Hauksdóttir.

„Hver einasti einstaklingur upplifir varnarleysi af og til í lífinu, sumir meira en aðrir eins og gengur. Þegar einstaklingar hafa upplifað mikið varnarleysi sem börn og ekki fengið þann stuðning sem börn þurfa, aftengjast þeir varnarleysinu og þróa þess í stað með sér varnir sem þeir fara með inn í fullorðinsárin og inn í eigið fjölskyldukerfi þegar þeir byggja upp sína eigin fjölskyldu síðar,“ segir Ragnhildur Birna Hauksdóttir fjölskyldufræðingur í nýjum pistli: 


Hvað gerist þegar einstaklingar nálgast áskoranir innan fjölskyldu sinnar með varnarhætti? Hvert leiðir það og hvað skilur það eftir sig?

Ef ekki er hægt að tjá það sem raunverulega á sér stað, vegna aftengingar sem átti sér stað í barnæsku, einkennist tjáningarmátinn gjarnan af ásökunum og skömm, að hafa rétt fyrir sér eða reiði yfir því sem miður fer - einfaldlega vegna skorts á getu til að tengjast því sem á sér stað bak við varnirnar.

Það verður mikil þörf fyrir að ásaka því ef aftengdum einstaklingi líður illa hlýtur það að vera einhverjum að kenna. Í stað þess að segja: „Ég upplifi ... í þessum kringumstæðum“ verða skilaboðin: „Þú ert .... og þess vegna líður mér ekki vel, til þess að mér líði betur þarft þú að breytast.“

Varnarhátturinn veldur því að það er einfaldlega hula á því sem á sér stað innra með einstaklingi. Hann sér það ekki og getur því ekki tjáð það.
Það má segja að það séu tengsl á milli tveggja þátta: Því meiri aftengd, því meiri ásakanir eru í tjáningarforminu.

Segjum að þessi aftengdi einstaklingur, sem hefur ekki lært að tjá varnarleysi sitt, ótta eða skömm upplifi eitthvað af þessum tilfinningum í tengslum við barn sitt. Þar sem hann hefur ekki aðgang að tjáningu þessara tilfinninga mun hann mjög líklega bregðast við með miklum ásökunum. Því meiri kraftur því minna sést raunverulegt varnarleysi hans. Það eykur því á skömm og ótta hjá barninu, sem við endurtekið tjáningarform þróar sinn varnarhátt. Mikill varnarháttur getur mögulega leitt til ofbeldis, andlegs og líkamlegs eða þunglyndis þegar einstaklingur ásakar sjálfan sig og dregur sig í hlé.

Varnarhátturinn kemur í veg fyrir eðlilega samkennd innan fjölskyldu og er orsök margra fjölskylduharmleikja því hann elur af sér börn sem byggja lífi sitt á varnarhætti.
Þegar fjölskyldumynstur er farið að einkennast af varnarháttum – þarf að byrja á byrjuninni -  rótinni. Samkenndin og kærleikurinn býr í varnarleysinu og tjáningu þess.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert